Bíbí í Berlín, Sjálfsævisaga Bjargeyjar Kristjánsdóttur frá Hofsós til Blönduóss

Upp í hendur mínar barst bók, mjög sérstök bók, skrifuð af fatlaðri konu, sem lifði með fötlun sinni. Hún var ekki beinlínis olnbogabarn en hún olnbogaði sig í gegnum lífið með sóma og gafst aldrei upp. Hún var sönn hetja.

Guðrún Valgerður Stefánsdóttir er prófessor í fötlunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og hefur stundað rannsóknir í þeim fræðum. Hafa greinar eftir hana birst hér á landi og erlendis. Bókin er unnin með styrk frá Rannís í tengslum við verkefnið, Bíbí í Berlín. Fötlunarfræði og einsaga - ný akademisk nálgun. Samstarfsfólk Guðrúnar eru þau Sigurður G. Magnússon og Sólveig Ólafsdóttir. Heimild: á innanverðri kápu bókarinnar, þar sem getið er um tilurð bókarinnar.

Ég ætla að leyfa mér að fjalla svolítið um þessa merkilegu bók þar sem ég þekki sögusviðið og hef oft farið fram hjá búi Bíbíar og það var mjög fallegt.

Það kemur í ljós að Bíbí var bæði læs og skrifandi og hafði fært dagbók alla sína tíð sem rannsóknirnar tóku til og segir hún sjálf sögu sína í gegnum þessa akademísku rannsókn.

Bókin skiptist í þrjá hluta að mínu mati.

Fyrsti hluti er umfjöllun Guðrúnar Valgerðar sem segir hversdagssögu Bíbíar, skreytta með myndum allt afskaplega fallegt og vel gert.

Næsti hluti bókarinnar er Bíbí í Berlín - Sjálfsævisaga Bjargeyjar Kristjánsdóttur. Verkið greinist þar í 19 bækur sem eru í raun kaflaskipting með mörgum undir titlum, sem fjalla um fólk og atvik.

Bjargey skýrir fyrst frá uppruna sínu, heimili sínu og þorpinu á Hofsósi.  Hún er fædd árið 1927. Mannlífið er dæmigert eins og það var á þessum tíma. Það sem vekur athygli er hvað söguþráðurinn er rakinn skipulega og margt fólk kallað fram á blaðsíðurnar. Það helgast af því að dagbókin setur sína formfestu á bókina. Allur persónulegur stíll heldur sér og er mjög trúverðugur og ekkert er verið að reyna breyta neinu. Málfarið er hennar og ekki verið að breyta stafsetningu. Það venst að lesa bókina með þessari málfræði og er bara gott að lesa og vera ekki með neina fordóma, með að þarna og þarna eigi að vera ypsilon Þarna ekki ypsilon og svoleiðis atriði. Ekki fer ég í nein efnisleg atriði, en það kemur í ljós að allskonar órói er á heimilinu varðandi samskipti. Þar kemur faðirinn, karlinn við sögu sem var ekki góður við hana og gerði upp á á milli systkinana. Það gerði móðirin reyndar líka. Hann nafni minn bróðir Bíbíar var nú líka hrekkjóttur. Þegar þarna er komið er lesturinn orðinn einsleitur og kannski ekki mjög spennandi að lesa og var ég nærri kominn að því að gefa lesturinn upp á bátinn. Þetta voru miklar kvartanir, en þarna hefur Bíbí fundið til smæðar sinnar og áhrifaleysis, finnst mér. En eitthvað ýtti mér áfram með lesturinn.

Var ég þá allt í einu kominn austur í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og þar finnst mér þriðji hluti bókarinnar hefjast og hýrnaði heldur yfir mér en þar er farið að nefna nöfn og staði sem standa mér ljóslifandi fyrir sjónum þó að sumt fólkið þekkti ég ekki mjög mikið. Hún flutti svo á Blönduós og bjó fyrst á Héraðshælinu. Anna Jóhannsdóttir á Hofi í Vatnsdal, var fyrsti herbergisfélagi Bjargeyjar.

Önnu og Bjargeyju lynti ágætlega og fannst Bíbí að hún hefði fullan rétt á að hafa Önnu hjá sér þegar hún var komin á Héraðshælið á Blönduósi, en það breyttist þegar fleira fólk fór að kynnast Önnu. Þarna fer lesning að skiptast í undirkafla með fyrirsögnum um nafngreint fólk og sagt frá því og samskiptum og deili á því. Þarna er margt fróðlegt sagt um menn og málefni og þekki ég þarna margt fólk.

Í kaflanum um Helgu Ólafsdóttur staldraði ég við og velti vöngum. Eftir að Bíbí er búin að lýsa ýmsu í þeim kafla, nefnir hún að nú sé Hnjúkahlíð í eyði og finnst henni það leiðinlegt og nefnir að maður að nafni Þorsteinn hafi fengið Hnjúkahlíð, hugðist hann sökkva í stóru ausuna, þessu orðalagi botna ég ekkert í og veit ekki hvað hún á við. ,,Ekki dugði jörðin honum  heldur þurfti hann að fá líka bithaga sem fólkið hér í þorpinu  notaði fyrir kindur. En svo hætti maðurinn skyndilega við allt saman. Mér var nú sagt ýmislegt um þetta. Fer Bíbí síðan ekkert lengra út í þetta.

Um þetta vil ég segja. Það er rétt að ég keypti jörðina Hnjúkahlíð. Jörðin var ekki með landamerkjum og óskilgreind hvar hún var. Skafti Kristófersson hóf ábúð á Hnjúkahlíð. Ég veit ekkert um það hvort hann tók hana á leigu eða keypti. En hann fer að byggja og rækta og er duglegur að því. Kóngur í ríki sínu. Jarðanefnd Austur-Húnavatnssýslu vakti athygli á því að engin landamerki væri um jörðina. Ég kaupi því Hnjúkahlíð fyrir ofan veg og var það þá orðið eignarland, en af því að það dugði ekki þeirri áhöfn sem ég var með á fráfarandi ábúðarjörð fékk ég land á erfðafestu sem lá fyrir neðan veg og var það vissulega notað af Blönduósingum en mér afhent það, með þessum hætti. Mér finnst einhvern vegin að verið sé að segja að ég hafi verið að taka þetta land si sona. Skafti var mjög duglegur og sagði hann mér að þegar hann hafi verið í uppskipun við höfnina þá hafi hann farið hjólandi í matartímanum og sett nokkra steina í hleðsluvegg  í íbúðarhúsi sem hann var að byggja en það var byggt úr holsteini.

Já. það er merkilegt hvað ég hætti skyndilega, Það kom ekki til af góðu. Jörðin hafði fengið 660 ærgilda búmark.En þegar fullvirðisrétti var lögfestur var jörðinni úthlutað 0 lítrun af mjólk. Það helgaðist af því að engin mjólkurframleiðsla hafði verið á jörðinni á viðmiðunarárunum. Það varð þá bara að taka því eins og það þróaðist og standa í lappirnar eins og Bíbi hefði gert. Það eru ekki alltaf jól hjá fólki sem á undir högga sækja. Það segir sagan okkur.

Endir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband