Félagslega kjörnir forystumenn kjörnir af grasrót og heilbrigðisstarfsmenn orðnir auðlind

 

Íslenskan er alltaf í þróun og skárri væri það nú. Ekki líkar það öllum en við því er lítið að segja. Ef ekki væri þróun töluðum við enn fornaldarmál og það mundum við trauðla ( eins og Guðmundur Jósafatsson frá Austurhlíð myndi trúlega orða það) sætta okkur við.

Stundum er karpað um ný mannanöfn og er sérstök nefnd, sem ég held að sé starfandi enn, sem úrskurðar um þau mál. Eitt sinn var verið að karpa um orðið blær, sem er einkar fallegt og lærði ég að það þýddi andvari og þá mildur eða hlýr vindur.

Bæði orðin blær og andvari lærði ég að væru orð á húsdýrum, Stásslegir hrútar voru nefndir Blær, stundum voru ráðunautar á hrútasýningu að nota orði prúður til að dubba upp á textann. Mér fannst það alltaf að það passaði ekki þegar verið var að komast að fræðilegum eiginleikum sem hagfellt væri að framrækta. Prúður hrútur væri þá ekki mannýgur eða hvað? Þannig lýsir orði að hrúturinn sé á heildina fallegur og komi vel fyrir og er því auðvitað dýrt orð í umsögn um hrútinn en það lýsir samt ekki bakvöðva eða lærafyllingu. Orðið hefur lengst af verið kk. orð. Hann blærinn, ekki hún blærinn. Drengir voru nefndir Blær. Þarna er náttúrlega um að ræða að breyta kk. orði í kvk. og það snýr kannski fyrst og fremst að máltilfinngu þess, sem nemur en ekki málfræðireglum sem hægt er að stíga yfir.

Andvari er einkar fallegt orð og hljómfagurt sem oft var notað á hesta. Ekki hefur verið seilst eftir því nafni á börn.

Nú,nú. Næst að nýrri þróun málsins sem ég næ ekki almennilega yfir og það eru t.d. grasrótin og auðlind.

Farið er að tala um menn sem kosnir eru sem fulltrúar einhvers hóps að þeir séu kosnir af grasrótinni og þeir þurfi fara fara til grasrótarinnar til að þiggja ráð og heyra í sínum mönnum. Mér finnst þessi orðanotkun skringileg. Við vitum öll hvað grasrót þýðir. Það er t.d. efsta jarðlag gróins lands. Eru þá foringjar að lúta í gras þegar þeir fara til grasrótarinnar til að heyra í mönnum? Einu mennirnir sem ég hef heyrt að noti grasrótina  til að heyra í fólki eða hreyfingar þess, eru indjánar sem leggja hlustir sínar við jörð og heyra því hófadyn og þá geta þeir áttað sig á mannaferðum, og þá kemur fljótt í ljós jóreykur úr einhveri höfuðáttinni og þá er jafn gott að vera kominn á fætur.

Nú,nú. Næst er það orðið auðlind. Þingmaður í N-Vestur-Kjördæmi VG ,Bjarni Jónsson,  spurði heilbrigðisráðherra um skort á heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni. Heilbrigðisráherra gaf svar við því 5. apríl og sagði að heilbrigðisstarfsfólk væri ákveðin auðlind og væri þetta alþjóðlegt vandamál.Heimild:Gluggin.is

Getur fólk verið auðlind? Auðlind er skilgreind sem náttúruauðæfi og uppspretta auðs. Er þetta þá rétt orðalag?

Af hverju er ekki alveg eins notað orðalagið að leita til sinna flokksmanna um ráð og af hverju er ekki talað um að fólk sé eftirsótt eða verðmætt. Stundum komast orð í tísku og eru ofnotuð. Þessi tvö orð eru dæmi um það. Þau hafa fengið nýja merkingu en hafa ekki verið skilgreind nógu vel til að þau séu merkingarbær í því samhengi sem þau eru nú notuð. Ofnotkun þeirra ber vitni um að orðaforði sé fátæklegur og það er miður því okkar ástkæra tungumál hefur upp á svo margt að bjóða.

 

 


mbl.is „Í raun einungis ein leið til að mynda meirihluta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband