Á náttfötunum í eltingarleik

Eitt sinn gisti ég í íbúð systur minnar á Seltjarnanesi. Um nóttina vaknaði ég við þrusk fyrir utan. Fór ég fram og kíkti út, en gætti þess að hreyfa ekki gluggatjöldin. Voru þá tveir kauðar búnir að opna húddið á bíl sonar systur minnar. Taldi ég að þeir ætluðu að stela geymi úr bílnum.

Hringdi ég á lögregluna og sagði henni málavexti og ætlaði svo að bíða átekt. Styggð kom að gaurunum og stukku þeir upp í bíl sinn og óku brott. Hafa þeir sennilega séð gluggatjöldin hreyfast.

Ég var staðráðinn í að láta þá ekki sleppa. Stökk ég upp í bíl minn á náttfötunum og berfættur og veitti þeim eftirför. Litlu seinna kom lögreglan á móti piltunum og stöðvaði þá, en leit mig grunsemdar augum. Í ljós kom að þetta voru vinir systursonar míns og hugðust þeir gera honum skráveifu, með því að taka kveikju bílsins úr sambandi. Frændi minn var ekki heima. Það sem mér fannst frábært fyrir utan það að elta gaurana á náttfötunum, var hve lögreglan var fljót á vettvang. Piltarnir sluppu með áminningu og skrekkinn, en ég lagði mig það sem eftir lifði nætur.


mbl.is Ræningjar í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsókn kjörbréfa Alþingismanna

Sá háttur er í félagskerfi okkar Íslendinga og þar með talið Alþingis, að þegar kjörnir fulltrúar koma saman þá eru kjörbréf þeirra rannsökuð og athugað hvort þau séu gild. Einnig er athugað ef einhver gerir athugasemdir. Þannig er til dæmis í húsfélögum að ef fundarboðið og umboðið er véfengt og ekki rétt, þá er hægt að fá fundinn og athafnir hans dæmdar ólögmætar eða fundinum frestað þar til hnökrarnir hafa verið lagfærðir.

Fyrsta verk nýkjörins Alþingis var að kjósa kjörbréfanefnd sem tók þegar til starfa.

Úr ræðu formanns kjörbréfanefndar Alþingis Helga Hjörvars, við þingsetningu Alþingis þann 15 maí 2009 kl:16:00 og sagðist honum m.a. svo:

,,Þá tók nefndin fyrir kæru vegna kosninganna samkvæmt bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 1. maí sl., grundvallaður 118.–120. gr. laga nr. 24/2000. Í kæru þeirra er krafist ógildingar á kosningu allra frambjóðenda á öllum framboðslistum í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum 25. apríl sl. sem kosningu hlutu og er hún reist á því sjónarmiði að í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem jafnræði manna er tryggt að gengið sé gegn henni eftir misvægi atkvæða eftir kjördæmum og því eigi að úrskurða kosningarnar í heild sinni ólögmætar.

Í ljósi þess að í 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að verði misvægi meira en svo að nemi meira en helmingi skuli landskjörstjórn breyta þingmannafjölda kjördæma þannig að ekki sé farið yfir þau mörk. Þá lítur nefndin svo á að stjórnarskrárgjafinn sjálfur hafi heimilað ákveðið misvægi og sérákvæði þetta gangi því framar 65. gr. Því séu ekki rök eða lagalegar forsendur til þess að úrskurða kosningarnar ólögmætar en nefndarmenn voru einróma um mikilvægi þess að jafna atkvæðisrétt í landinu.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar, ritar á álitið með fyrirvara og lýsir þar sig sammála í meginatriðum efni nefndrar kæru og sé það mannréttindabrot, það misvægi sem hún sem kjósandi í Suðvesturkjördæmi megi við núverandi skipan þola.

Á grundvelli 46. gr. stjórnarskrárinnar, í samræmi við hana og í samræmi við 5. mgr. 1. gr. og jafnframt 5. gr. laga um þingsköp Alþingis leggur því kjörbréfanefnd til að kjörbréf þau sem til umfjöllunar voru verði samþykkt og kosningarnar gildar". 

Svo mörg voru þau orð. Það er vonandi að kjörbréf þessi séu einhvers virði en gengisvísitala þeirra er misjöfn frá 2366- 4850 atkvæði.

Hvor stjórnarskrárgreinin er æðri, 65 eða 31? Og hvernig stendur á því að ein grein stjórnarskrárinnar umfram aðra sé sérákvæði? Þetta er alveg nýtt málfar.  Sérákvæði fyrir flokkana?  Þetta þarf allt saman að gaumgæfa. Hvort eru Alþingiskosningarnar fyrir flokkana eða fólkið?


Í björgunarbátana saman

Mér fannst, þegar ég las yfirlýsingu KÍ að Kennarasambandið væri að hlaupa út undan sér eða svíkjast undan merkjum. En svo þegar ég las betur sá ég að þetta var rökrétt afstaða.

Það verða allir að fara saman í björgunarbátana. Það er ekki hægt að kjöldraga einn hóp fyrst eins og Samband ísl. sveitarfélaga vill með KÍ.

Þess vegna þarf að drífa þessar viðræður áfram og það þýðir ekkert fyrir einn aðila að viðra sig upp við ríkisvaldið um að fá sett lög á einn aðila um fram annan.


mbl.is Hætta viðræðum ef skerða á laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru Vormenn Íslands?

Það er þarft verk að Lagastofnun Háskóla Íslands skuli gera úttekt á Samvinnutryggingum g.t.

G.t. þýðir gagnkvæmt tryggingafélag. Það er að segja ef vel gengur þá nýtur félagsmaðurinn góðs. Ef illa gengur ber hann ábyrgð, væntanlega!!

Nú eru  þessir sjóðir komnir í mínus, svo það er von að engir vilji vera Samvinnumenn. Það verður ekki hjá því komist að gera þessi mál upp félagslega og ef um saknæmt athæfi sé að ræða verði það meðhöndlað eins og lög gera ráð fyrir, þó í þessu tilfelli hafi Lagastofnun ekki stöðu saksóknara né dómstóls. 


mbl.is Lagastofnun skoðar Samvinnutryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum vörð um lýðræðið

Stefnuræða forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur var á dagsskrá Alþingis nú í kvöld og umræða um hana.

Jóhanna fór yfir þá erfiðleika sem yfir þjóðina hafa dunið og eru kunnir. Hún ræddi um fyrningaleiðina í sjávarútvegi og  var margorð um Evrópusambandið. Hún talaði af festu og myndugleika og það duldist engum að þar fór Fósturlandsins freyja.

Næstur á mælendaskrá var formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benidiktsson. Hann taldi að ríkistjórnin ætlaði að þjóðnýta aflaheimildir í sjávarútvegi með fyrningarleiðinni. Taldi að útvegsaðila muni leggja öll langtímaplön til hliðar vegna þeirra umræðu. Bjarni kom vel fyrir og var mátulega vígreifur.

Steingrímur J. Sigfússon talaðu næst og var langorður um sigur VG í kosningunum sem þeir unnu út á að gera búvörusamning við bændastéttina 10 mínútur fyrir kosningar og vitlaust kosningakerfi og ólýðræðislegt. Gætti nokkurrar Þórðargleði hjá honum í garð Framsóknar og Sjallanna að þeir sætu nú á á hliðarbekkjum en ekki í stúku eins og hann. Færðist hann allur í aukana og tók Bjarna Ben á beinið. Steingrímur er duglegur og fylgin sér enda hefur hann gengið frá Reykjanesi að Langanesi beina línu og horft ofan í hverja sveit. Hann fór vitlaust með að við værum kynslóðin sem bæri ábyrgð á hruninu. Ég vísa þessu algerlega á bug og tel að það séu í raun fámenn klíka sem ber ábyrgðina.

Næst talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann taldi að minnihlutastjórn VG og Samfylkingar hefði verið ráðríkis minnihlutastjórn, sem er sennilega rétt hjá honum þegar litið er til baka. En nú þegar hún er orðin meirihlutastjórn vill hún samráð og sættir. Hann taldi að að stjórnin hafi keypt nýjasta flokkinn á þingi, Borgarahreyfinguna sem ég held að sé orðum aukið. Borgarahreyfingunni er gefið pólitískt nef og vill komast til áhrifa í nefndum en vill ekki verða nein hornkerling eins og Bergþóra sagði forðum. Framsóknamenn hafa sennilega eignast ágætlega skynsaman foringja.

Þór Saari gerði grein fyrir tilurð Borgarahreyfingarinnar og uppruna. Taldi hann að 20. janúar sé upphafspunktur þess að eitthvað fór að gerast. Þór virkaði rólegur og yfirvegaður og ekki kom fram í máli hans að þar færu keyptir menn við eitt né neitt.

Nú þegar mikil upplausn er í þjóðfélaginu er aldrei sem fyrr, nauðsynlegt að frjálsir borgarar standi vörð um lýðræðið og gefi valdahópum og klíkum aðhald sem reyna að seilast til áhrifa í skjóli glundroða og ringulreiðar.

 


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eflir sjálfsvirðingu þjóðarinnar

Ég segi eins og Jón Grindvíkingur í Íslandsklukku Halldórs Laxness; gott, gott, mjög gott.

Nú stofnum við flokk konungssinna og göngum Noregskonungi á hönd svo við lendum ekki í því að halda keppnina næst þegar við lendum í 1. sæti og losnum þannig við að ganga í ESB. Svo getum við haft sumarsetu á Íslandi og spilað vinsælustu lögin í nóttlausri voraldar veröld.

Förum siglandi til Noregs á víkingaskipi. Við komum þaðan, svo það er von að við séum í öðru sæti.

 


mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listamenn á Alþingi

Landsfundur Alþýðubandalagsins var eitt sinn haldinn. Þar var fjölmenni. Þar var margt skrafað.

Össur Skarphéðinsson átti það til að dreifði gjarnan listum með nöfnum fólks sem æskilegt væri að kjósa. Voru listar þessir kallaðir lyfseðlar. Enn heldur Össur áfram að dreifa lyfseðlum, en nú í formi tillögu um að ganga í ESB.

Í tengslum  við Landsfundinn var haldið Listamannþing á vegum flokksins. Ragnar Arnalds fv. ráðherra var m.a. þar með framsögu en eins og kunnugt er hefur hann ritað leikrit og skáldsögur. Ragnar fékk spurningu úr sal, um það hvort hann teldi sig listamann. Ragnar sagðist ekki lýta á sig sem listamann. Fyrirspyrjandi ítrekaði spurninguna; " Jú Ragnar ertu ekki listamaður?". Ragnar færðist mjög undan þessu. En að lokum sagði hann;

" Það má til sannsvegar færa að ég sé listamaður, ég er búinn að að vera á lista til Alþingiskosninga mestan part starfsævi minnar, jú ég er listamaður".

Nú eru listamenn sestir á þing. Sumir eru ef til vill meiri listamenn en aðrir eftir því hvernig á það er litið. Stjórnmál er list og þá list geta allir stundað þar sem lýðræði ríkir.


mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnarfundur á Akureyri

Lög og reglugerð um Stjórnarráð Íslands mæla ekki fyrir um hvar ríkisstjórnarfundir skuli haldnir. Þeir hafa alltaf verið haldnir í Reykjavík og nokkrum sinnum á Þingvöllum. Það er hið besta mál að halda ríkistjórnarfundina annarstaðar og í þetta sinn á Akureyri. Það eykur hagvöxtinn að kaupa flugfargjöld og aðra aðstöðu á Akureyri. Í kreppu er gott að þeir sem hafa peninga eyði þeim.

Í NA-kjördæmi voru 28.362 kjósendur á kjörskrá við síðustu Alþingiskosningar. Þar voru kosnir 10 þingmenn. Þar eru 2.836 kjósendur á bak við hvern þingmann. Með réttu ættu þar að vera 8 þingmenn.

Næst væri rétt fyrir ríkistjórnina að halda fund í NV-kjördæmi. Þar voru 21.293 kjósendur á kjörskrá. Kjördæmið hefur 9 þingmenn. Þar eru frekar ódýrir þingmenn hvað atkvæðavægi varðar. Það þarf ekki nema 2.366 atkvæði að baki við hvern þingmann. Í NV- kjördæmi getur ríkistjórnin tekið almenningsvagn á fundarstað og sleppur þannig við að borg í göngin og sparar þannig fyrir ríkisjóð. Með réttu lýðræði ætti NV-kjördæmi að vera með 6 þingmenn.

Í þessari törn væri gott að ríkistjórnin væri með fund í SV-kjördæmi. Þar voru á kjörskrá 58.202 kjósendur. Þetta er stærsta og þéttbýlastakjördæmið. Þar eru þingmenn dýrir. Kjördæminu hefur verið skammtað 12 þingmönnum og á bak við hvern þingmann þarf hvorki meira né minna en 4.850 kosningabæra menn. Kjördæmið ætti með réttu lýðræði að vera með 16 þingmenn. Í þessu kjördæmi býr forseti Ísland. Hann er þjóðkjörinn og hafa landsmenn jafnan atkvæðisrétt við þá kosningu. Það er rétt lýðræði.

Eins og áður segir er SV-kjördæmi með 12 þingmenn og 58.202 kjósendur. Það er 1 þingmanni fleira en í Reykjavíkurkjördæmunum, en þar eru 11 þingmenn í sitthvoru kjördæminu með 2x43.747 atkvæði. Með öðrum orðum standa 15.000 atkvæði á bak við tólfta þingmann SV-kjördæmi miðað við Reykjavík og það er geysilegur lýðræðishalli að mínu mati. (58.292-43.747=14.728).   Ekki er hægt að réttlæta eða færa nokkur rök fyrir þeim mismun miðað við NV-kjördæmi með 2366 atkvæði á bak við hvern þingmann.

Ég held að Alþingi verði að fara skoða þessi lýðræðismál. Hér er hvorki þjóðveldi né goðorðs fyrirkomulag.

 

 


mbl.is Fundinum á Akureyri að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingiskosningar 25. apríl 2009

 Úr stjórnarskrá Lýðveldisins.

1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Hvort voru Alþingiskosningar eða framkvæmdavaldskosningar  25. apríl s.l.?

Það er öfug atburðarás að boða til ríkisráðsfundar um nýja ríkisstjórn áður en Alþingi er komið saman.

Fyrst ætti að kalla saman Alþingi og kanna lögmæti þingsins og síðan ef allt er í lagi í framhaldinu að gefa út kjörbréf til alþingismanna.

Annað er sniðganga við Alþingi og sýnir berlega hve Alþingi er veik stofnun en framkvæmdavaldið að því er virðist sterkt eða yfirgangsamt gagnvart því.


mbl.is Ríkisráðsfundir boðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólarlagsákvæði

Allir hlutir eru eru fyrnanlegir. Vélar og búnaður eru fyrnd. Skip eru fyrnd á skattskýrslu.  Veiðafæri úreldast. Allskonar tæknibúnaður er afskrifaður. Fyrningar prósentan er mismunandi efir því hvað er afskrifað.

Þær veiðiheimildir sem veittar hafa verið af ríkisvaldi og svo í framhaldinu gengið kaupum og sölum milli veiðiréttarhaf hafa hafa aldrei verið varanlegar eignarheimildir. Það hefur alltaf verið litið svo á af almenningi á Íslandi að þær væru fyrnanlegar eins og hvert annað lausafé.

Þeir sem hafa verið að kaupa veiðiheimildir hafa gert það fram í tímann en aldrei hefur verið skilgreint hve langan tíma Því er nauðsynlegt að setja sólarlagsákvæði inn í löginn um stjórn fiskveiða.

Aðlögunarfrestur verði ríflegur. Það er engin að sækjast eftir því að koma útgerðum á hausinn, til þess hafa þær ekki þurft hjálp. Aðeins að koma skikki á hlutina og gæta jafnræðis.

Uppboðsleiðina hafa útvegsmenn gagnrýnt og bent á uppboð sem byggingarverktakar hafa tekið þátt í og farið á hausinn vegna of hárra boða. Það verður nú að gera ráð fyrir einhverju andlegu atgervi þeirra sem við atvinnurekstur starfa og þeir bjóði ekki meir í en þeir geta.

Bílauppboð hafa farið fram hjá Vöku í áratugi. Aldrei hefur maður heyrt það að þau uppboð haf hækkað verð á bílum í landinu. Þaðan hafa þeir sem eignast hafa bíl fari skælbrosandi og ánægðir.

Veiðiréttur í ám og vötnum hefur verið verið boðin út. Leiguliðar í landbúnaði hafa þurft að greiða afgjald fyrir ábúðajarðir sínar í aldir og enginn vorkennt þeim að gera það. Sjálfur hef ég greitt 40 - 60 dilka í leigu á ári fyrir þær 2 ábúðarjarðir sem ég hef setið í 23 ár. Það hefði náttúrlega verið þægilegra að þurfa ekki að greiða neitt.

Þeir sem hafa komist yfir veiðiheimildir geta aldrei borið það fyrir sig að þeir hafi talið sig vera í góðri trú að eiga þær, vegna þess að í 1. grein laga um stjórn fiskveiða  nr 116 2006 er sagt að þjóðin eigi auðlindina.

Maður getur aldrei átt það sem aðrir eiga.

 


mbl.is Lýsa vilja til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband