Gamansemi Vinstri grænna

Formaður Vinstri grænna var harður á því hér á dögunum að við ættum ekki að taka við láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú láta Vinstri grænir þjóðina háma þetta lán í sig eins og skyr með rjóma.

Ekkert erlent vald segja Vinstri grænir. Svo eru þeir komnir inn á gafl hjá þjóðinni með norskan mann sjálfsagt ágætan enda skyldur okkur. Sigurður Líndal sem ég trúi, segir að áhöld séu um að þetta standist stjórnarskrána.

Það er nú orðið bágt með atgervi íslensku þjóðarinnar ef hún getur ekki safnað saman í einn seðlabankastjóra. Störf seðlabankastjóra geta varla verið svo flókinn. Þau ættu aðallega að felast í því að passa að þjóðin eyddi ekki meiru en hún aflaði og að engin snuðaði hvorn annan hvorki innlenda menn né erlenda. Jóhannes Nordal passaði upp á að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri alltaf nógu stór og svo var hann líka formaður Landsvirkjunar og lét byggja virkjanir. 

Hugsanleg meta þeir málin svo að sjálfsmynd Íslendinga sé orðin svo léleg að þetta sé eina ráðið. Ef svo er þá legg ég það til að komið verði upp sjálfsafgreiðslukössum þar sem almenningur á leið um, þar sem fólk getur tekið gáfnapróf á laun og komist að hinu sanna.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferguson er flottur

Ég hef trú á Ferguson. Hann kemst langt.


Landnáma hin nýja

Þjóðlendulögin hafa verið gagnrýnd af nokkrum landeigendum sem krefjast breytinga á þeim. Ekkert tilefni er til þess nú mitt í úrskurðarferli um mörk eignarlanda og þjóðlendna. Það væri eins og markaskránni væri breytt í miðjum réttum þegar ætti að fara að töfludraga.

Setja þarf reglugerð um notkun og nýtingu þjóðlendna. Fram þarf að fara úttekt á hverri þjóðlendu og skrá gögn hennar og gæði, s.s. gróðurfar til að meta hvernig viðskilnaðurinn er við gróðurfar þegar þjóðlenda verður til. Það yrði svona Landnáma önnur útgáfa. Mikilvægt er einnig að kortleggja þær með GPS punktum og gefa hverri þjóðlendu nafn, svo almenningur átti sig á staðháttum og hafi tilfinningu fyrir landsvæðinu.

Vilji forsætisráðuneytið friða þjóðlendu fyrir beit búfjár, þá verður það að semja við viðkomandi bændur um að afsala sér beitarréttinum, tímabundið eða alfarið, væntanlega gegn bótum. Takist það ekki er hægt að taka réttindin eignarnámi. Við fyrstu sýn er þó skynsamlegt að krefjast ítölu í þjóðlendu ef gróður þar er á undanhaldi við yfirtöku. Ítala gæti jafnvel skilað niðurstöðu um að engin beit væri heimil í þjóðlendu og þar af leiðandi þyrfti engar bætur að greiða.

Ég tel óskynsamlegt að ljá máls á því að veita afslátt af þjóðlendulögum. Aftur á móti er það mín skoðun að bændur ættu ekki að þurfi að bera halla af málarekstri. Þá vil ég vekja athygli á að þinglýsing ein og sér ákvarðar ekki um eignarrétt. Heldur skjölin sem að baki henni standa.


Þjóðlendur Íslendinga

Á landnámsöld helguðum við Íslendingar okkur landið. Á þeim tíma giltu ákveðnar reglur hvernig menn helguðu sér land til búsetu í byggð og þannig urðu til landamerki bújarða. Reglur um helgun lands til eignar utan hins hefðbundna byggðamynsturs, sem þróaðist voru aldrei settar eftir því sem best er vitað, svo sem um heiðar, almenninga og öræfi. Sú venja skapaðist snemma að bændur ráku fé til heiða til beitar. Þessi lönd voru kölluð ýmist víðlend heimalönd, afréttir eða almenningar.

Með dómi Hæstaréttar frá 28. desember 1981 í máli nr. 199/1978 varðandi Landmannaafrétt, þar sem ríkisvaldið krafðist viðurkenningar á eignarrétti á landi og landsnytjum, var komist að þeirri niðurstöðu að enginn ætti landið en bændur ættu óskoraðan beitarrétt á þessum afrétti og kallast það afréttarnot. Það má segja að Hæstiréttur hafi með dómi þessum kallað eftir lagasetningu um eignarhald á afréttum og almenningum eða eins og segir í dómnum: "Hinsvegar verður að telja, að handhafar ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landssvæðis þess sem hér er um að ræða."

Í framhaldi af þessum dómi varð mikil umræða varðandi eignarréttindi á Íslandi. Upp úr þeirri umræðu eru lög nr. 58/1998 um þjóðlendur sett. Í þeim er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda sem íslenska ríkið á þó einstaklingar eða lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi. Á okkar tímum er verið að úrskurða um hvar mörk eignarlanda og þjóðlendna liggja. Þegar því er lokið mætti í raun halda því fram að landnámi sé lokið.

Græðgivæðingin og þjóðlendumál eru ekki skyld mál, nema að því marki að landeigendur eru að reyna að sölsa undir sig hálendið og ýmsar auðlindir svo sem fallorku og jarðvarma sem óvissa ríkir um eignarhald á. Fjármálaráðherra er einungis að fara að lögum varðandi þjóðlendumál sem honum ber skylda til. Því er algerlega vísað á bug að ríkisvaldið hafi ráðist á eignaréttinn eins og sagt er í fréttinni. Landeigendur hafa farið fram með ofstopa nú upp á síðkastið í þjóðlendumálunum. Það eru dómstólar sem endanlega skera úr þessum málum og við það verða allir að una. Bæði landlausir og landeigendur.


mbl.is Í sárum eftir átök við ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldissproti Bretadrottningar

Elísabetu Bretadrottningu hefur verið sent bænaskjal, sem er byggt á 800 ára gömlu lagaákvæði, um að hún hlutist til um að sparifjáreigendur á Guernsseyju fái sparifé sitt frá Landsbankaum þar á eyju. Það má búast við að drottningin geri eitthvað í málinu, hún hefur víðtæk völd og her til að styðjast við.

Þegar bankahrunið skall á og almenningur fór að velta þeim málum fyrir sér, hér heima, var viðkvæðið að það mætti ekki persónugera þessi mál það væri voða ómaklegt gagnvart þeim sem stjórnuðu bönkunum og báru stjórnarábyrgð, að því sem manni skyldist. Og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði eitthvað á þá leið, að það væri ekki hægt að klína bankahruninu á Sjálfstæðisflokkinn. Það er að vísu rétt að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki stjórnvald inn í bönkunum. Bankarnir voru orðnir alþjóðleg prívatfyrirtæki. Þess vegna er ekki heldur hægt að klína bankahruninu og undanskoti sparifjár almennings og fjárþurrð, ef um það er að ræða, á almenning og þá almenning á alþjóðavísu eins og verið er að fjalla um í framangreindri frétt. Bankahrunið er alþjóðamál.

Verslun og viðskipti og þar með talið frjálst flæði fjármagns milli þjóðríkja er orðið staðreynd. Af þeirri ástæðu hlýtur rannsóknin á meintum afbrotum að lúta sömu lögmálum, það er að vera alþjóðleg. Og ef að í þessu máli eru aðilar sem hafa komið upp alþjóðlegri fjármála svikamyllu, þá þarf að finna þá og færa þá fyrir dómstóla, gera grein fyrir hvar féð er, og dæma í málunum, annað er ekki boðlegt almenningi á alþjóðavísu.

Þess vegna má búast við að Bretadrottning finni færar leiðir án þess að persónugera þessi mál til að upplýsa þetta allt saman. 

Ein af leiðum drottningarinnar væri væntanlega að kæra málið til alþjóðlegrar lögreglu Interpol.


mbl.is Drottningin aðstoði í Landsbankamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi í Seðlabankann

Heyrt hef ég þá sögu að Seðlabankinn hafi eitt sinn verið ein skúffa í Landsbankanum. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Seðlabankinn er dýrindis höll með Landnámsmanninn á bæjarhólnum. Þar ku vera íburður og mikið málverkasafn innandyra. Þar hefur ákveðin elíta hreiðrað um sig og talið sig ósnertanlega. Nú í þessu erfiða árferði líður þeim ef til vill eins og heylausum bændum á Þorranum.

Alþingishúsið er gamalt hús. Á þaki hússins er skjaldarmerki Danakonungs. Það er lítið rými fyrir þingmenn í þingsal og borðpláss takmarkað fyrir skjöl. Á degi hverjum eru alþingismenn minntir á það að þeir eru annars flokks með því að þurfa að horfa á ráðherrana við háborðið í betri stólum. Það ætti að gera Alþingishúsið að safni og veita almenningi aðgang að því.

Það er löngu tímabært að Alþingi komist í nýtt húsnæði og ráðherrarnir og framkvæmdavaldið hafi ekki yfirburðastöðu sálræns eðlis í þinghúsinu. Þá mundi sjálfstraust alþingismanna aukast og skilin milli löggjafar-og framkvæmdavalds verða skýrari.

Það gæti verið táknrænt í þeirri stöðu sem þjóðin er nú í, að hún flytti  Alþingi sitt í Seðlabankahúsið. Það þyrfti bara að bæta einni grein við Seðlabankafrumvarpið, sem hljóðaði eitthvað á þessa leið;

Jafnframt skal Alþingi flutt í Seðlabankahúsið.

Seðlabankinn gæti svo flutt í eitthvað nýtt og ríflega fokhelt.


mbl.is Stefnt að lokaumræðu á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgir Gunnarsson matsveinn á vitaskipinu Hermóði, minningarorð

Að morgni 18. febrúar 1959 barst sú harmafregn að vitaskipið Hermóður hefði farist við Reykjanes undan Höfnum með allri áhöfn. Bróðir minn, Birgir Gunnarsson, var einn af áhöfninni. Þá um nóttina hafði m/s Vatnajökull farið í gegnum Reykjanesröst. Þar var mágur minn, Haukur Guðmundsson, annar stýrimaður. Eftir þeirri heimild voru við stjórnstörf í brúnni á m/s Vatnajökli, skipstjórinn í sjóstakk með annan fótinn út á brúarvæng til að meta brotsjóa  og gefa fyrirskipanir. Fyrsti stýrimaður ásamt háseta voru við stýrið, annar stýrimaður var við radarinn og loftskeytamaður var í varðstöðu í loftskeytaklefanum og vélstjórar við vélar. Þannig komust þeir yfir Röstina og og dældu olíu í sjóinn. Vatnajökulsmenn heyrðu síðast í  Hermóði um fjögur leytið. Eftir það heyrðist ekkert frá skipinu.

Vitaskipið Hermóður var fallegt skip. Stílhreint og rennilegt. Það samsvaraði sér vel og var hlutfalla gott. Verkpláss á dekki og allan hringinn var rúmt. Á heildina var Hermóður sterkt og gott sjóskip. Hermóður  var töluvert minna skip en Vatnajökull og hefur ekki ráðið við aðstæður í þetta sinn.

Í dag fór fram minningarathöfn um Birgi Gunnarsson í Laugarneskirkju, sem var fermingarkirkja hans. Minningarorð flutti séra Gunnar Eiríkur Hauksson og stjórnaði athöfn. Fór hann yfir æviatriði Birgis og minntist hans. Flutt var frásögn eftir mig þar sem sagt var frá því þegar Birgir bjargaði heimasætunni í Laugarnesi, Þuríði Sigurðardóttur, árið 1952 frá drukknun undan Kirkjusandi. Þessi ástsæla söngkona söng tvö lög við athöfnina og var Ragnar Bjarnason henni til stuðnings og erum við ættingjar Birgis þakklát þeim fyrir það. Organisti var Gunnar Gunnarsson.

Birgir var tvítugur þegar hann fór í þennan afleysingatúr með Hermóði. Hann var ókvæntur og barnlaus. Söknuður eftir honum endurspeglast ef til vill í því að margt barna var látið heita eftir honum. En þau eru í aldursröð: Birgitta Bragadóttir skjalalesari Alþingis, Birgitta H. Halldórsdóttir bóndi og rithöfundur, Birgitta Hilmarsdóttir, Birgir Kristbjörn Hauksson matreiðslumaður og fiskeldisfræðingur, Birgir Gunnarsson skipstjórnarmaður, Birgir Guðmundsson eigandi fisvinnslunnar Sæbjargar og Birgir Örn Harðarson í foreldrahúsum. Ég átti þess ekki kost að vera við minningarathöfnina fyrir 50 árum og hef alltaf saknað þess að hafa ekki getað kvatt bróður minn.


Skemmtilegur leikur

Það var gaman að vera í Höllinni á leik KR og Stjörnunnar nú síðdegis. Stjörnumenn voru fylgnir sér og spiluðu flottan leik, nýttu vítaköst vel og voru frábærir að taka fráköstin. Þeir sýndu skemmtilegar og frumlegar leikfléttur og voru hinir djarfmannlegustu.

KR-ingar sýndu ekki nógu mikla aðgæslu, virkuðu trekktir og tvístraðir og var ekki laust við að stundum væri fát á þeim. Vitanlega áttu þeir góða kafla.

Svipurinn á leiknum var góður frá sjónarhóli áhorfanda og þetta var á heildina litið vel leikinn körfuknattleikur og hin besta skemmtun.


mbl.is Stjarnan er bikarmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppvakningur úr Alþýðuflokknum

Laust fyrir aldamótin þróuðust stjórnmál á Íslandi þannig að vinstri menn vildu gera alvarlega tilraun til að sameinast. Venjan hafði verið sú að að hópar klufu sig út úr aðalflokkunum og fóru í svokölluð sérframboð. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um þetta. Við svo búið töldu menn ekki búandi og kallað var afar sterkt eftir sameinuðum jafnaðarmannaflokki.

Niðurstaðan var sú að Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Þjóðvaki og Samtök um kvennalista hófu viðræður um sameiningu þessara stjórnmálaafla. Nýmælið í þessu var að umræðan fór fram innan flokkanna og var afgreitt þar. Ákveðið var að einhenda sér í sameiningu og var það samþykkt í öllum framangreindum flokkum. Fordæmi var víða komið með samstarfi á sveitastjórnastiginu.

Mál þróuðust á þann veg að ákveðinn hópur í Alþýðubandalaginu sem alltaf hafði efasemdir um slíkt samstarf eða sameiningu kaus að vera ekki undir þessari regnhlíf og stofnaði Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Þar var um að ræða málefnalegan og hugmyndfræðilegan ágreining, svo sem afstöðuna til Nató og ESB o.sv.frv. Var það mörgu vinstra fólki hryggðarefni að ekki næðist að sameina alla.

Nú hafa þessi stjórnmálaöfl ásamt félagshyggjuarmi Framsóknarflokksins orðið að taka sameiginlega við þrotabúi frjálshyggjunnar úr fangi Sjálfstæðisflokksins og eru að glíma við þær erfiðustu aðstæður sem þekkjast úr sögunni.

Jón Baldvin Hanniblasson,  talsmaður frjáls flæðis fjármagns milli þjóðríkja og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, telur nú að hann sé sá rétti að taka við Samfylkingunni nú á þessum tímum. Hann ásamt Davíð Oddsyni eru arkitektar þeirra stjórnmálaþróunar, stefnu og leiðsögn sem farið hefur verið eftir fram að bankahruninu.

Jón Baldvin kemur nú fram líkt og Davíð Oddsson og hótar Samfylkingarmönnum að byrja aftur í stjórnmálabaráttu ef hann fái ekki að ráða.  Eins og það færi Samfylkingunni meira fylgi eða auki hróður hennar. Í þeim kosningum sem í hönd fara er mest um vert að þeir sem verða kjörnir séu fólk með hugsjónir, stefnu og vilja til að horfa til framtíðar og vinna þjóðinni heilt. Þeir verða að vera trúverðugir fulltrúar sinna flokka, sem Jón Baldvin er því miður ekki í ljósi þessara ummæla.


mbl.is Jón vill að Ingibjörg víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er stand á Goddastöðum

Deilur eru nú risnar hjá framsóknarmönnum út af því hver á að skipa 1. sætið í Reykjavíkur kjördæmi suður í komandi Alþingiskosningum. Eins og kunnugt er á flokkurinn ekki þingmann í tveim kjördæmum höfuðborgarinnar Reykjavík. Framsóknarmönnum hefur fækkað jafnt og þétt. Þeir sem bjóða sig fram eru Einar Skúlason og Hallur Magnússon.

Ekki virðast þessir kandídatar vera bíða eftir því að formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákveði sig, hvar hann býður sig fram. Sigmundur var að sögn fjölmiðla kallaður austur á land af nokkrum bændur og spurður hvort hann vildi verða formaður. Og síðan signdu þeir yfir hann og veittu honum blessun.

Þá er það hin almenna spurning kjósandans hvort flokkurinn eigi að vera bænda- og útvegsmannaflokkur og verja kvótakerfið til lands og sjávar?

Það er ekki nýtt að klofningur verði í Framsóknarflokknum. Árið 1933 klofnaði Framsóknarflokkurinn og stofnuðu nokkrir þingmenn flokksins, Bændaflokkinn, sem náði mönnum á þing.

Möðruvallahreyfinginn svokölluð klofnaði á sínum tíma út úr Framsóknarflokknum. Margir hafa staðið í þeirri meiningu að sú hreyfing kenni sig við jörðina Möðruvelli, en það hefur verið leiðrétt og var hún stofnuð í skólahúsnæði Menntaskólans á Akureyri sem ber það nafn. Möðruvallamenn búðu sig svo fram með Frjálslyndum og vinstrimönnum ef ég man rétt.

Á sínum tíma klofnaði Framsóknarflokkurinn í Norðurlandskjördæmi vestra út af Blönduvirkjun og bauð fram tvo lista til Alþingis. Svona hefur þetta gengið hjá flokknum.

Skemmst er að minnast þess í aðdraganda flokksþingsins í janúar sl. fjölgaði lítillega í Reykjavíkurfélaginu, að þá var það kölluð fjandsamleg yfirtaka. Þó er sorglegast að hann hafi ekki náð þingmanni í stærstu kjördæmum tveim, því það er margt gott fólk í flokknum en því fer fækkandi.


mbl.is Einar stefnir á fyrsta sætið hjá framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband