Þingmaður á 987 krónur

Nokkur tíðindi hafa gerst í sjómannastétt.

Nýkjörinn þingmaður VG Björn Valur Gíslason var að halda fyrirlestur um skattamál sjómanna á Sjómannaþingi, en fyrirhugað er að fella sjómannaafsláttinn 987 kr á lögskráningardag niður.

Kemur þá ekki einn þingfulltrúinn askvaðandi í pontu og flytur tillögu um að reka þingmanninn úr félagskapnum. Þegar það gekk ekki vegna félagslög heimila það ekki var flutt tillaga um að þingmaðurinn segði sig frá öllum félagsstörfum í Farmanna og fiskimannasambandinu. 

Góðgjarnir menn vísuðu þeirri tillögu frá en eigi að síður ákvað þingmaðurinn að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum innan sjómannastéttarinnar.

Þarna verða hver mistökin af öðrum. Í fyrsta lagi er vandséð að þingmaðurinn hefði átt að setja sig í skotlínuna með sérstökum fyrirlestri í jafn viðkvæmum máli og hér greinir. Frekar vera með ávarp um stöðuna í þjóðfélaginu almennt.

Í öðru lagi eru það ofstopi og öfgar að flytja tillögu um að þingmaðurinn verði rekinn úr samtökunum og eins að flytja tillögu um að hann segði af sér trúnaðarstörfum. Á það þá að vera venja í félagsskap á Íslandi að allir séu reknir sem hafa skoðanir. Það yrði nú fábreyttur félagskapur.

Í þriðjalagi var það fljótfærni þingmannsins að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum. Hann hefði átt að leyfa mönnum að jafna sig, og það er óviturlegt af sjómönnum að slíta tengsl við Alþingi.

Þegar ég lít yfir þingmannalista Alþingis sé ég engan sjómann nema Björn Val.

Sjómenn hafa átt ágæta fulltrúa á Alþingi. Má þar nefna Pétur Sigurðsson, (Pétur sjómann), Guðmund Hallvarsson sem hefur verið farsæll fulltrúi sjómanna um langa hríð.

Annað er merkilegt; menn setja snúð á sig og vilja ekki þiggja  að mæta í móttöku hjá sjávarútvegsráðherra. Það er ekki viturlegt. Vonandi jafna sjómenn sig og fara að tala saman ,, um brottkastið"


Heiðarlegur, en atvinnuúrræði skortir

Það er heiðarlegt af Jóni að segja undanbragða laust hvernig landið liggur pólitískt í þessu máli. Að stjórnarflokkarnir séu ekki sammála í málinu, annar sé með inngöngu en hinn vilji standa utan Evrópusambandsins.

Vitanlega er margt sem þarf að færa til betri vegar hér innanlands. Það er lítið gagn í því að að segja að grundvöllur okkar byggist á auðlindum. Þróunin hefur verið öll í þá átt að fáir njóta þeirra.

Áður voru allar hafnir fullar af bátum og allir höfðu yfirdrifna vinnu til sjós og lands. Fólkið fékk vinnuarðinn við það að starfa við sjávarauðlindina. Atvinnustigið var hátt og allir með fulla vinnu.

Nú er þetta tiltölulega lítill hópur sem fær arðinn af sjávarauðlindinni. Hver lítur eftir því hverju íslensk skip landa erlendis og hvernig gjaldeyririnn og verðmætaaukningin skilar sér til þjóðarbúsins? Um þennan þátt er lítið fjallað.

Ég var að heyra það að útgerðir seldu fiskin til skyldra fyrirtækja á lágu verði og skiluðu þeim gjaldeyrir til landsins en svo væri haldið áfram að selja fiskinn og hver fylgist með því að þjóðin hafi eitthvað upp úr krafsinu? Áhugavert væri að fá þetta upplýst, hvernig kaupin gerast á eyrinni?

Það er til lítils að standa vörð um sjávarauðlindina og vera utan ESB ef því fylgja engin hlunnindi innanlands. Þá er alveg eins hægt að vera með ESB aðild og vera ekki að standa vaktina fyrir lénsherrana.

Svona er þetta í landbúnaði. Í staðin fyrir órofa samvinnu bænda og byggðar er komin einhver einhyggjubúskapur í sveitirnar og bændur standa á berangri, sumir nær gjaldþrota og komið að jólum. 

Og orkuöflunin maður. Landsvirkjun sem maður hefði talið að væri ríkasta fyrirtæki í landinu er verið að tala um geti ekki greitt af skuldum sínum eftir fá misseri. Hvað verður af öllum peningunum?

Hér hefur ríkt nýlendustefna og innhverf gróðastefna fárra útvaldra.


mbl.is Betur sett utan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúlaskeið hið nýja

Hér er smá yfirlit um bloggin sem tilheyra þessari frétt. Endursögn:

1. Halli gamli talar um að Svandís gangi í berhögg við forsætisráðherra .

2. Gísli Foster telur að Svandís hafi styrkst og sé föst fyrir.

3. Arnór bendir á misræmi í málflutningi Skúla.

4. Jóhannes Ragnars telur Skúla senditík auðvalds og sé á leiðinni með verklýðshreyfinguna  í svaðið.

5. Ingólfur telur að hroki og gífuryrði í garð Svandísar sé ekki sæmandi starfsmanni stéttarfélags.

6. Þráinn álítur  það vandamál Keflvíkinga að hafa dandalast í rassgatinu á Kananum svona lengi.

7. Ása segir að umhverfisráðherra vinni vinnuna sína.

8. Björn talar um Þórunni ísbjarnarbana.

9. Ómar Ragnarsson  telur að ummæli Skúla bendi til umhverfismeðvitundarleysis.

10. Einar álítur að Skúli sé kominn með þráhyggju.

11. Magnús Helgi vill vera varkár gagnvart náttúrunni og finnst Skúli dónalegur.

12. Benidikt segir að ekki sé hægt að fara í mat á umhverfisáhrifum eftir á.

13. Þjóðarsálin segir að það sé hættulegt að vera umhverfisráðherra, vegna þess að ísbirnir, hreindýrakálfar og rafmagnslínur geti fargað þeim pólitískt.

14. Haukur telur Svandísi ekki í sambandi við atvinnulausa.

15. Þórður álítur að Skúli hafi misst stjórn á sér og gripið til stóruorðanna.

16. Frjálshyggjufélagið segir að kjarni málsins sé sá að þjóðin eigi skilið betri stjórnmálamenn.

17. Stefán Helgi vill fjölbreytni í atvinnulífinu.

18. Auðunn bendir á að við höfum oftar en ekki misst arðinn af framleiðslunni út úr landi.

Mjög margt í öllum þessum færslu er athyglisvert og hvet ég alla til að lesa þær.


mbl.is Svandís veruleikafirrt eða vanhæf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrafnaflóka hugmyndafræðin

Sagan af Hrafnaflóka er okkur Íslendingum kunn. Hrafnaflóki aflaði ekki fóðurs fyrir búsmala sinn og féll búpeningur úr hor eftir fyrsta veturinn.

Jóhannes Nordal fv. seðlabankastjóri gætti þess alltaf að til væri raunverulegur gjaldeyrisvarasjóður í landinu ef eitthvað bjátaði á með öflun gjaldeyris. Maður skynjaði það alltaf að svo og svo  mikið væri til í gjaldeyrisvarsjóðinum. Hann var eins og góður og gætinn bóndi  sem hafði nóg fóður fyrir bústofninn. Það væri hægt að kaupa nauðþurftir ef eitthvað klikkaði.

Síðan komu gamlir stjórnmálamenn sem engin vissi hvað átti að gera við og settust  í seðlabankastól. Þá fór fyrst að ganga á fyrningarnar og að lokum var engin gjaldeyrisvarasjóður til og engin virtist hafa áhyggjur af því. Og svo kom þetta svakalega frelsi með fjármagnið frá Evrópu.

Og nú horfum við um Jökulfirði.

Hugmyndafræði Hrafnaflóka er nær en við höldum. Og hún blómstrar sem aldrei  fyrr. Að halda að það sé einhver raunverulegur gjaldeyrisvarasjóður, sem tekinn er að láni og fara að eyða honum í að styrkja krónuna, kalla ég hugmyndafræði Hrafnaflóka. Þeir  eru nefnilega farnir að hugsa eins og Hrafnaflóki, upp í Seðlabanka og engin þorir að segja bofs.

Það er í lagi að taka lán ef við lendum í vanskilum og lengja í lánum. Sparnaður og viðskiptaafgangur við útlönd er það sem verður að rétta okkur við.

Það er ekki hægt að eyða meiru en aflað er.


mbl.is Gjaldeyrisforðinn styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðmál

Mál fv. ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og síðar menntamálaráðuneytinu er þjóðmál, sem lýtur lögmálum stjórnmálaumræðu almennings.

Því er ekkert um það að sakast að fjölmiðlar fjalli um það. ,, Þjóð veit þá þrír vita."

Það er einkennilegt orðalag sem lögmaður fv. ráðuneytisstjórans temur sér, þegar hann segir að ráðuneytisstjórinn fv. hafi hrakist úr starfi. Það er eins og hann reyni að gera stöðu hans verri en efni standa til. Ráðuneytisstjórinn fv. er enginn sveitarómagi sem verður að sæta hreppaflutningum.

Hið rétta er að ráðuneytisstjórinn fv. sagði sjálfur upp starfi sínu og ber einn ábyrgð á því hvernig komið er högum hans nú um stundir.

Vonandi rætist úr fyrir honum og hann fái einhversstaðar griðastað. Réttarkerfi landsins er einfaldlega að vinna sín störf og á meðan engin dómur er fallinn skoðast viðkomandi aðili saklaus.

Áhugavert er að vita hvernig því er háttað hjá öðrum þjóðum hvort háttsettum embættismönnum er heimilt að stunda kaup og sölu hluta- og verðbréfa á fjármálamörkuðum samhliða embættisstörfum og hvaða reglur gilda þar um.


mbl.is Rannsóknin á vitorði fjölda manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíla-Bergur sögur lV

Meiraprófsnámskeið

Bergur Arnbjörnsson frá Akranesi var bifreiðareftirlitsmaður á Vestur og Norðurlandi. Ásamt bifreiðareftirlitinu  hafði hann þann starfa að vera forstöðumaður meiraprófsnámskeiða og annast kennslu á þeim ásamt fleirum.

Þessa sögu lærði ég af einhverjum bílstjóra í Austur-Húnavatnssýslu. Bergur var eitt sinn að kenna og kemur með eftirfarandi spurningu til nemenda sinna;

,, Hvað er að, þegar ekkert er að, en bíllinn fer ekki í gang?" Nemendurnir urðu alveg kjaftstopp og enginn gat svarað svona spurningu. Þá svarar Bergur hægt og rólega; ,, Tvistur í pústkerfinu."

Í haust hitti ég svo  Jón Ragnarsson bílasala í Reykjavík, bróðir Ómars Ragnarssonar, hjá Bifreiðaskoðun Frumherja þar sem við vorum að láta skoða bíla okkar.

Ég fór af tilviljun að segja Jóni þessa sögu og eftir að hann var búin að hlíða á söguna þá segir hann; ,,Sagan er ekki svona", ,, Nú," segi ég og verð alveg steinhissa  á því að hitta mann sem er með einhverja aðra útgáfu af sögum af Bíla-Bergi, í byrjun 21 aldar og hugsa með mér, ja hérna, sögurnar af Bíla-Berg eru þá aldeilis á lífi og ekki týndar fyrst sögurnar lifa í mörgum útgáfum.

,,Sagan er svona," segir Jón; ,,Hvað er að, þegar ekkert er að, en þó ekki allt í lagi?" Nú vandaðist málið fyrir mér og ég gat tæplega farið að nefna tvistinn, þá yrði hlegið að mér.

,,Jú sko," segir Jón, ,, svarið er, það vantar lítið gat á bensínlokið til að loft komist inn í tankinn þegar bensínið minnkar annars myndast undirþrýstingur í bensíntanknum og bíllin nær ekki bensíni og drepur á sér." 


Markaðshagkerfið klári málið

,,Fjármagnskostnaður kúabúa hækkaði um 319% á síðasta ári", segir í fréttinni.

Í tölum frá Hagþjónustu landbúnaðarins er greint frá því að fjármagnskostnaður 150 sérhæfðara kúabúa sem færa búreikninga   hafi aukist um 692% milli ára.

Höfuðstóll búreiknisbúanna er að meðaltali mínus 36.796.000 kr það segir að búin eigi ekki fyrir skuldum.

Ástæður fyrir þessum skuldum er óraunhæf fjárfesting í mjólkurkvótum, vélbúnaði og byggingum. Þessi þróun hefur verið drifinn áfram af verndaðri markaðshagfræði um hagræðingu og allt væri best sem stærst og eiga sem mest af stórum vélum og mjólkurkvótum.

Sigurður Loftsson formaður Landsamtaka kúabænda segir að það sé enginn markaður fyrir þessi skuldugu kúabú.

Þegar rekstraaðili er kominn í greiðsluþrot á hann samkvæmt landslögum að ganga á fund fógeta og óska eftir greiðslustöðvun eða gjaldþrotaskiptum.

Þannig að það er ekki alveg rétt hjá formanninum að það sé ekki markaður fyrir þessi bú.

Gjaldþrotamarkaðurinn er fyrir hendi og þar geta nýir aðilar komið og verslað eins og títt er á slíkum mörkuðum.

Ekki er óeðlilegt að uppi sé sanngjörn krafa um að markaðslögmálin séu virt til enda í þessum málum en ekki bara notuð til að komast yfir meiri mjólkurkvóta í skjóli þess að öllu verði bjargað þegar í óefni er komið.

Það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem farið hafa með gát og hófsemi í sínum búskap.


mbl.is Kúabúin mjög skuldug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæpin ályktun hjá stjórnarformanni

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og stjórnarformaður Nýja Kaupþings greinir frá því í síðasta Bændablaði að Hagþjónusta landbúnaðarins hafi birt uppgjör búreikninga fyrir rekstrarárið 2008. Síðan rekur hún ýmsar tölur. 

Í samantekt greinarinnar  segir hún: Niðurstöður  úr uppgjöri síðasta árs draga skýrt fram þann fjárhagsvanda sem allur búrekstur stendur frammi fyrir og er afleiðing fjármálahrunsins síðastliðið haust.

Hér er hæpin ályktun dreginn af atvikaþróun. Reynt er að kenna hruninu um hvernig komið er fyrir hluta bændastéttarinnar þ.e.a.s. þeirra sem eru með stóru, svokölluð hagræðingarbú. Markmiðið er augljóst. Nota hrunið sem átyllu til að afskrifa gríðarlegar skuldir hluta bændastéttarinnar.

Í fyrsta lagi var rekstrarárið 2008 að verða búið þegar hrunið varð og flestar lykiltölur komnar inn. Að vísu er hækkun fjármagnsliðar ótrúlegur milli ára og stafar af miklum skuldum þegar skellurinn kemur og gengismismunar væntanlega.

Í öðru lagi er ástæða mikillar skuldasöfnunar hluta bænda, óviturleg kvótakaup á háu verði, fjárfestingar í vélum búnaði og byggingum.

Í þriðja lagi er þessi skuldaþróun búin að eiga sér stað lengi og svipar mjög til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi og hefur verið kölluð hagræðing.

Árið 1998 voru bú með 156.000 lítra mjólkur með jákvæðan höfuðstól á efnahagsreikningi, en árið 2002 var höfuðstóll orðinn neikvæður og ekki hefur ástandið batnað.

Ég hef það fyrir satt frá gætnum og ráðdeildarsömum bændum að þeir séu nú ekki hrifnir yfir því að vissir aðilar eigi að fá gríðarlegar skuldir afskrifaðar og gúkna yfir miklu framleiðslumagni af mjólk vegna glannaskapar í fjárfestingu. Íslenskir bændur hafa að öðru jöfnu verið gætnir og það talist dyggð.

Vissulega eru þessar skuldir áhyggjuefni en það má ekki breiða yfir það sem gerst hefur í þróun landbúnaðar undanfarinn ár. Framtíðin verður að skera úr um hvort rétt þróun hafi verið leidd fram.

,,Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg", það er alltaf spurningin?


mbl.is Kaupþing verður Arion banki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupeyrir

Það er sjálfsagt margvíslegur kaupeyrir sem Íslendingar hafa notað til að gleðjast við þegar þeir hafa staldrað við erlendis.

Þegar ég bráðungur maður var farmaður á kaupskipi kynntist maður allskonar viðskiptum, en þá voru engin kredit- eða debetkort til.

Eitt sinn vorum við staddir í hafnarborg í Póllandi nánar tiltekið Stettin. Vildu menn fara að skemmta sér. Aðstæður voru hinsvegar þar svipaðar og nú eru á Íslandi að maður mátti ekki fara með gjaldeyrir upp í land. Aukin heldur var höfnin girt af með víggirðingu og gættu vopnaðir verðir hliðanna sem farið var í geng um. Voru þeir með riffla með byssustingjum og leituðu á mönnum.

Tveir fóru upp í þykkum vetrafrökkum í land um hásumar í blíðskaparveðri. Spurði ég stýrimanninn hvað þetta ætti að þýða  að fara í frakka í steikjandi hita. ,, Þeir mun afklæðast" svaraði stýrimaðurinn.

Einn  fór með 2 pund undir gómum fölsku tannanna. En fyrir  slík fé var hægt að skemmta sér talsvert því upp í borginni var svartur markaður með gjaldeyrir.

Einn ungan mann þekki ég sem fór í þessum forláta Chliff Ricarhards jakka og nýrri nylonskyrtu og kom til baka með gardínu um hálsinn og þótti vörðunum það heldur kátlegt.

Já náttúruöflin hafa verið Íslendingu oft brösug til sjós og lands, það verð ég að segja.


mbl.is Stjórn KSÍ aðhefst ekki frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrígreining ríkisvalds

Þetta er áhugavert mál. Það hefur verið venja að ráðherrar geri samninga oftast eftir fyrirmælum Alþingis og eru þá samningarnir undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. 

Þar sem stjórn landsins er þingbundin og framkvæmdavaldið sér um allar framkvæmdir hefði Alþingi ekki geta sent út þingmenn  til að semja um Icesave. 

Í lögum um um Umboðsmann Alþingis segir, stytt:

 2. gr. Hlutverk umboðsmanns Alþingis o.fl.
Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

3. gr. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.
Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til:
   a. starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. þó 11. gr.,
   b. starfa dómstóla.

Umboðsmaður Alþingis getur ekki skipt sér af störfum Alþingis og fyrirmælum, enda er hann ekki kjörinn til þess. Þetta getur orðið svolítið snúið fyrir Umboðsmann Alþingis.

Þá er spurningin hvort samninganefndin hafi í umboði ráðherra farið að fyrirmælum Alþingis. Um það er erfitt að segja og kemur þá væntanlega til skoðunar hjá Umboðsmanni Alþingis.

11. grein lagana fjallar um að verði Umboðsmaður var við meinbugi á lögum getur hann gert Alþingi viðvart um það.

Tuttugu og sexmenningarnir byggja mál sitt á 2. grein stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo;

2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Til þess að brjóta ekki þessa grein, sem málsaðilar eru að kvarta yfir þyrfti ráðherrann að sleppa því að greiða atkvæði um samninginn sem hann sjálfur gerið. Til þess hefur hann tíma enn og gæti skroppið í kaffi og kallað inn varamann.


mbl.is Saka Steingrím um að brjóta gegn stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband