Halldóra systir mín hefur átt við veikindi að stríða um allnokkurn tíma. Hún lagðist fyrst inn á Landspítalann, vegna óhapps heima á Aflagranda 40 þar sem hún bjó í eigin húsnæði eftir að hafa selt Vesturströnd 13. Eftir Landspítaladvölina fór hún á Vífilstaði. Vífilstaðir eru einskonar skiptistöð fyrir eldra fólk sem þarf að komast í atlætisskjól, þetta er nýyrði og þýðir að fólki vantar elliheimili, dvalarheimili eða í sjúkradvalarheimili allt eftir stöðu eldriborgarans. Málefni eldriborgara eru soldið strand og vantar dvalarpláss.
Þá hafa margir áhyggjur af skorti á hjúkrunarrýmum fyrir sig þegar þrekið þrýtur. Það er að hluta komið til af því að Landspítalinn á örðugt með að útskrifa eldra fólk sem hefur verið lagt þar inn.
Halldóra systir komst blessunarlega til Ísafoldar Hrafnistu í Garðabæ. Þar er afbragðs fólk. Sama er á Vífilsstöðum, það var eftirtektarvert að um leið og aldraður dvalargestur stóð upp frá borðum var á örskotstundu komin starfsmaður fyrir aftan stólinn til að koma í veg að gamla fólkið dytti í gólfið, svona lagað ber að þakka.
Halldóra hafði löngum áhyggjur af því hvar hún ætti heima eftir að hún kom á Hrafnistu. Ég sagði að hún ætti heima hér og hér og hefði kosningarrétt. Hún var komin með sjúkdóm sem heitir Alsheimer og fólk fer að missa minnið. Í næstu heimsókn ítrekaði hún spurninguna hvar hún ætti heima og hvort hún væri örugg hérna. Þá sagði ég henni að þetta væri óðal, nú já eins og heima á Aflagranda með sér afleggjara. Já eimmitt, hún hafði nokkrar áhyggur af því hvort hún gæti verið þarna lengi og þá sagði ég henni að hún ætti lífstíðarheimili hér, hún hefði æviábúð og það gæti enginn vísað henni burt. Hún þakkaði mér fyrir þetta, "gott að þú sagðir mér þetta, Steini minn, ég þarf að skrifa þetta hjá mér." Þá tók hún að kyrrast en fór þá að tala um að sig vantaði bíl. Þá fór nú í verra, því ekki var hægt að segja henni að hún gæti ekki keyrt og rataði ekki vegna minnisleysis. Þá var farið að fara með hana í bíltúra og einu sinni fór ég með hana austur fyrir fjall. Hún hafði mætur á Laugarvatni, þar hafði hún dvalið í Stýrimannabústaðinum, svokallaða.
Halldóra naut sín vel á Ísafold Hrafnistu. Það var draumurinn að komast á Hrafnistu þar sem amma Karítas Skarphéðinsdóttir hafði dvalið og Dóra sagði mér að amma Kæja hafi verið vinsæl hjá körlunum af því hún var eina konan sem gat teflt við sjómennina en Hrafnista var reist af sjómönnum. Þetta sagði hún mér marg oft.
Sjúkdómurinn herti afl sitt, en alltaf var Dóra vel meðfærileg og brosti. Svo sofnaði hún eitt kveldið og dó um morguninn. Hún var nefnilega að fara í ferðalag. Halldóra andaðist 19.júni á hátíðis og kvennréttindadegi íslenskra kvenna.
Halldóra heitir í höfuðið á Halldóru Magnúsdóttur sem lést úr berklum, 14 ára gömul. Hún var dóttir Magnúsar Guðmundssonar fora á Ísafirði og Karítasar Skarphéðinsdóttur baráttukonu, fædda í Æðey í Ísafjarðardjúpi. Magnús fori var Strandamaður af Pálsætt, fæddur á Kaldbak, Kaldraneshreppi. Hann var kallaður fori að því að hann var forsöngvari í kirkjum þegar ekki voru til hljóðfæri. Í föðurætt er Jón Steingrímsson eldklerkur forfaðir Halldóru og er hún skyld honum í sjötta ættlið.
Fjölskylda okkar Halldóru bjó í bragga um tíma og það var stundum fúkkalykt í bröggunum sem vildi loða við föt fólks. En það veiktist enginn held ég af því eins og núna af myglunni. Þannig að þetta er verra í nútímanum en í bröggunum í gamla daga. Dóra sagði mér að hún hafi liðið fyrir það og verið strítt á þessu. Hún gekk í Austurbæjarskóla og átti Ragnar Bjarnason að æskufélaga og skólabróður og einn hljómsveitarmeðlimur hét Karl Liljendal og Dóra var skotin í honum, laglegur strákur sem spilaði á gítar. Þeir félagar voru með skólahljómsveit. Þá voru skólahljómsveitir í mörgum skólum.
Í þá daga var borin mikil virðing fyrir hetjunum í Íslandssögunni sem þá var kennd. Börn útbjuggu sér vopn, sverð, boga, axir og atgeira og þóttust vera fornaldarhetjur. Dóru var strítt á fúkkalyktinni, sem var auðvitað púra einelti. Hún lét ekki beygja sig og hóf gangsókn með sérstökum hætti. Hún notaði hetjuímyndina sem vopn.
Stökkti hún og sundraði liðinu með því að segja að pabbi sinn héti Gunnar á Hlíðarenda. Það var alveg dagsatt eins og þá var sagt til að leggja áherslu á sannleikann. Faðir hennar var Gunnar Arnbjörnsson, fæddur að Hlíðarenda í Borgarnesi. Það var þá rétt og dugði.
Halldóra fékk tækifæri til að fara til Englands og starfa við kaþólskan skóla fyrir málhölt börn á Suður-Englandi eftir gagnfræðapróf. Hún hafði góð meðmæli og kunni ensku. Þar bætti hún enskukunnáttu sína og að vinna við umönnun barnanna. Þetta var viss fjársjóður fyrir okkur fjölskyldu hennar, því við fengum sendibréf með fréttum, hvernig gengi og lýsingar á hennar högum. Móðir okkar var dugleg að svara bréfum hennar og héldust þessi bréfa samskipti á meðan Dóra dvaldi erlendis. Þær höfðu báðar afar fallega rithönd og svipaða. Að hafa fallega rithönd gat verið stöðutákn í þá daga.
Dóra sagði t.d. að hún hefði verið við krýningu Elísarbetar Englandsdrottningar og lýsti þeim hátíðarhöldum ítarlega. Elísabet var ríðandi og allir dáðust að glæsileik henni og þessi atburður var eitthvað sem stúlka alin upp í breskum hermannabragga upp á Íslandi, hefði aldrei gert sér vonir um að upplifa. Elísabet lifir Halldóru og við Dóra vorum sammála um að Karl Bretaprins ætti að fara að taka við áður en hann lenti á elliheimili.
Ég tók það svo að hún hefði verið í innsta hring atburðarins slík var upplifun hennar og lýsing. Það var ekki fyrr en við vorum orðin fullorðin að mér varð ljóst að hún var í mannfjöldanum. En hún fékk að upplifa þetta svo sannarlega.
Á þessum grunni byggði Dóra að nokkru leyti þegar hún hóf störf á Málflutningaskrifstofu Lárusar Fjelsted hrl. og Theodórs Líndals hrl. og síðar Ágústar Fjelsted hrl. Hún sagði mér að eitt sinn hafi einn af ofangreindum mönnum komið til hennar að ritaraborðinu og sagt; "Þér talið afar góða ensku Halldóra." Hún þakkaði hrósið og var upp með sér að vera þéruð.
Við Dóra áttum mikil og góð samskipti alla tíð. Hún kom eitt sinn í heimsókn til mín í sveitina að Syðri-Löngumýri. Þar var gamall maður sem hafði glöggt auga fyrir kvenlegri fegurð. Hann vildi sýna henni eitthvað markvert á búinu og var stimamjúkur. Gömul taðkvörn varð fyrir valinu heldur lúin, ekki það fyrsta sem dama á hennar aldri óskaði sér. Halldóra stormar út í móa með gamla manninum á háhæluðum skóm. Það var kannske ekki viturlegt, þeir festust í grasrótinni og gekk brösuglega að komast til baka, kom hún á sokkaleistunum. Þetta gerði hún af vinsemd við gamla manninn sem brosti út að eyrum.
Síðan koma tvö hjónabönd og fang hennar fullt af erfiðri lífsreynslu. Hermóðsslysið þegar fyrri maður hennar Haukur Guðmundsson sem var stýrimaður á Vatnajökli en skip hans sigldi krappan sjó í Reykjanesrösinni þá um nóttina sem Hermóður sökk en Vatnajökull komst í gegn. Þannig að við vissum öll hvernig staðan var í Röstinni.
Drangajökulsslysið var bitbein í opinberri umræðu þar sem skipið sökk á örskotsstundu en allir björguðust naumlega í enskan togara, en við áttum í þorskastrði við Englendinga og var ótti hjá skipbrotsfólkinu vegna þess. En Tjallinn hélt sæmd sinni og tók fólkið um borð og hlúði að því. Enginn vissi um orsakir slyssins, en ýmsir voru með allskonar getgátur, en skipstjórnarmenn voru ekki ákærðir eftir sjóréttarhöld og þar stendur málið. Stýrimennirnir á Drangajökli, þeir Georg Franklín og Finnbogi Keld fóru svo með Hauk yfir á Ísborgina, samanber vísu, eftir Hannes Hafstein - Alltaf má fá annað skip og annað föruneyti:
Og mundu, þótt í votri vör
þú velkist fyrir sand,
að bylgjur þær, sem brjóta knör
þær bera þó að landi.
Og stormur þurrkar segl í svip
þótt setji um stund í bleyti,
og alltaf má fá annað skip
og annað föruneyti.
Heimild:
Höfundur Hannes Hafstein
Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar Héraðskjalasafn Skagfirðinga.
En Halldóra Gunnarsdóttir sigldi eftir þetta með seinni manni sínum Tryggva Eyjólfssyni á Gullfoss sem starfsmaður. Traust var skipið þetta óskabarn þjóðarinnar. Átti Eimskipafélag Íslands það.
Börn, gleði og sorgir sem ég rifja ekki upp hér var næsta vers hjá Halldóru, langur kafli.
Með stuðningi Halldóru fékk ég skipspláss á MS Íborgu og MS Öskju og fékk að fara vítt og breytt um Norðulönd, inn í Eyrarsund til Sovétríkjanna, Evrópu, saman sigldum við gegnum Kílarskurð sem er sérstök upplifun og niður í Miðjarðahaf. Þetta var ekkert smá upplifun fyrir sveitastrák að fá að upplifa þetta. Þrjú löng sumur af ævi minni tók þetta. Oft vorum við Halldóra saman til sjós og hún var með afbrigðum sjóhraust.
Ég vil að lokum geta þess að Halldóra var fyrsti ritari á skrifstofu Samtaka áhugafólks um áfengisvarnir, SÁÁ. Hún sagði mér oft frá því þegar hún ansaði fyrst í síma samtakanna, henni þótti svo vænt um augnablikið: "SÁÁ góðan dag, hvað get ég gert fyrir þig?" Hún mundi glöggt það gamla. Það voru svo sannarlega margir sem þörfnuðust aðstoðar og margt var hugsjónafólkið sem tók til hendinni og ber að þakka það allt.
Gott fólk, hér endum við að sinni að segja frá sjómannskonunni Halldóru Gunnarsdóttur sem marga fjöruna hefur sopið, eins og þar stendur. Elsku Dóra mín, sá sem öllu ræður geymi þig og varðveiti.
Förum svo með æðruleysisbænina:
Myndaskrá:
Mynd 1: Aðalheiður og Gunnar með börn sín, Birgi, Halldóru og Kristbjörgu (Bíbí)
Mynd 2: Útskrift Birgis Haukssonar úr Hólaskóla af fiskeldisbraut
Mynd 3: Íslenski fáninn
Mynd 4: Halldóra og Ragnar Bjarnason
Mynd 5: Þyrla við björgunarstörf
Mynd 6: Birgir Gunnarsson
Mynd 7: Þorsteinn, Kristbjörg (Bíbí), Halldóra og Arnbjörn
Mynd 8: Ingvar Tryggvason og Birgir Hauksson
Mynd 9: Kristbjörg (Bíbí)
Mynd 10: Halldóra og Tryggvi
Mynd 11: Minningaröldurnar við Fossvogskirkju
Mynd 12: Halldóra Gunnarsdóttir, Halldóra Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Hauksdóttir
Mynd 13: Æðruleysisbænin
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 4.7.2021 | 18:34 (breytt 20.5.2024 kl. 14:46) | Facebook
Myndaalbúm
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 33
- Sl. sólarhring: 210
- Sl. viku: 519
- Frá upphafi: 573856
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 464
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.