Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2010

ÍsafjörðurÁrsrit Sögufélags Ísfirðinga 2010 er komið út. Forsíðumynd er af fjallinu Hesti og Folafóturinn séð úr Vigur. Guðfinna M. Hreiðarsdóttir formaður ritar formálsorð en þetta er 50. árgangur ritsins. Í ritinu eru 10 greinar eftir jafnmarga höfunda um hin ýmsu sagnfræðilegu efni. Í lokin eru svo upplýsingar um höfunda efnis menntun þeirra og störf.

Ég ætla mér að víkja hér lítillega að tveim greinum í ritinu, sú fyrr heitir Karítas Skarphéðinsdóttir frá Æðey í Ísafjarðardjúpi. Hér er á ferðinni móðuramma mín og finnst afkomendum Karítasar mikil heiður að þessi  ritgerð skuli birtast á þessum vettvangi. Höfundur ritgerðarinnar Karítas Skarphéðinsdóttir Neff er dóttur dóttir Karítasar en ritgerðina skrifaði hún í námi sínu í mannfræði við Háskóla Íslands 1993. Ritgerðin kemur hér fram og er dýrmætur fjársjóður og yfirgripsmikil um liðna tíma af fólki, málefnum og aldarfari. Allar ljósmyndir í ritinu þekki ég nema fyrstu myndina af ömmu Karítas.

Seinni efnið er vísnabálkur sem fyrirsögnin; Karítas Skarphéðinsdóttir frá Gunnarseyri, Sveitavísur í Skötufirði 1916. Er vísnabálkurinn prýddur 15 myndum af ábúendum og fólki úr Skötufirði. Það kom nú hálfgert fát á mig við að sjá þetta nafn staðfært á Gunnarseyri. Var þetta sama konan? Ég fór til móðursystur minnar Pálínu Magnúsdóttur sem var á níðræðisaldri, síðasta barn Karítasar á lífi, en lést 1. apríl s.l. og er útför hennar gerð frá Fossvogkirkju í dag. Þetta kom Pálínu í opna skjöldu, hún hafði ekki heyrt þessar vísur fyrr, en vissi að móðir sín var hagyrðingur og mikil kvæðamanneskja. Var hér önnur kona á ferð með sama nafni? Það gat varla verið, enda upplýstu 17 og 18 vísurnar að foreldrar Pálínu bjuggu á Gunnarseyri. Auk þess er systir Pálínu og móðir mín, Aðalheiður, fædd 1915 á Gunnarseyri. 

Magnús Gunnarseyri á,/unir fátækt glaður,/ Guðmundi er getinn sá,/ góður handverksmaður. Hans er kona Karitas/í kærleiksást þau búa/hana að dæma og hennar fas/heiminum má víst trúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband