Jól í sveit um miðja síðustu öld

Ég er alinn upp í torfbæ - burstabæ - sem var allur viðarklæddur að innan. Hann var ekki stór en notalegur og þar bjó bjargálna fólk. Jólin voru sérstakur tími.

Á aðfangadag  kláruðu piltarnir gegningarnar á fyrra fallinu. Fjárhús voru birgð svo sem kostur var til að ekki fennti inn og dýrunum liði vel. Það var farið snemma í fjósið og ekki örgrannt um að kúm væri frekar hyglað með meiri töðugjöf og mingrað mjólkurdreitli í kálfinn. Við það var miðað að vera kominn inn fyrir útvarpsmessu kl 18 þegar heilagt var orðið.

Mikill hangikjötsilmur var í bænum og þegar farið var að líða að því allra heilagasta voru ljós tendruð, olíulampar, olíulugtir og kerti og sett inn í hvern króka og kima og var þetta allt saman mjög hátíðlegt.

Ég lenti í miklu taugastríði fyrstu jólin mín í sveit árið 1954 þá 8 ára gamall. Átti von á jólapökkum frá fjölskyldu minni, en á Þorláksmessu hafði engin pakki borist í hús og færð farin að þyngjast í sveitinni.

Ekki var laust við að ég væri kominn með skeifu og væri farinn að beygja af og orðinn heldur hnípinn. Fóstra mín taldi í mig kjark og fullvissaði mig að gjafirnar rötuðu á leiðarenda.

AðfangadagskvöldÁ Þorláksmessukvöld, seint, kom mjólkurbíllinn en bílstjórinn átti  heima í næsta hrepp, Bóas Magnússon blessuð sé minning hans og kom hann með alla jólapakkana.

Ég varð glaður og átti góð jól í 94 ára gömlum burstabæ að Syðri-Löngumýri.

Gleðileg jól kæru vinir, ættingjar, lesendur mínir og bloggarar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa fallegu minningu. Jólapakkar rata til eiganda sinna að lokum :-) Gleðileg og góð jól. Kv, Ágústa og fjölskylda

Ágústa Bj. (IP-tala skráð) 25.12.2010 kl. 19:18

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Kærar þakkir fyrir jólakveðju Ágústa, sömuleiðis.

Kv, ÞHG

Þorsteinn H. Gunnarsson, 25.12.2010 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband