Verkfallsbrot eða ekki?

 Það er ekki allt sem sýnist í þessum efnum.

,,Í Hrd. 1964:596 var fjallað um mörk verkfallsvörslu. Hafði Kassagerð Reykjavíkur fengið lögbann lagt við því að Dagsbrún hindraði móttöku og flutninga á vörum að og frá verksmiðjuhúsum, sem starfsmenn Kassagerðarinnar, sem ekki voru félagsbundnir í félögum sem áttu í verkfalli önnuðust. Höfðu Dagsbrúnarmenn þráfaldlega hindrað starfsmenn fyrirtækisins, sem voru félagsmenn í Iðju, í störfum sínum við fermingu, akstur og affermingu flutningabifreiða. Enginn Dagsbrúnarmaður hafði verið í starfi hjá Kassagerðinni. Lögbannið var staðfest í undirrétti og sagði þar meðal annars að í málinu sé það atriði eigi til úrlausnar, hvort Dagsbrún hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur það hvort verkfallsverðirnir hafi haft lagaheimild til þess að hafa réttarvörslu í því efni. Eigi verði séð að 18. gr. laga nr. 80/1938 né heldur 4. gr. laga nr. 50/1940 um lögreglumenn veiti aðilum að vinnustöðvun rétt til þess að taka í sínar eigin hendur réttarvörslu. Aðgerðir verkfallsvarðanna voru því dæmdar ólögmæt réttarvarsla af þeirra hálfu.Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu með þeim rökum að hvorki lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 né önnur réttarákvæði hafi veitt Dagsbrún heimild til þeirrar valdbeitingar gegn Kassagerðinni sem sönnuð var í málinu. Niðurstaða málsins var því sú að réttarvarslan sjálf var dæmd ólögmæt, en ekki lagt mat á það hvort um brot á II. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið að ræða.

Frami 1964

Krafist var lögbanns við verkfallsvörslu félagsmanna Frama, sem voru í verkfalli gegn Landleiðum hf. í janúar 1964. Verkfallsverðir félagsins hindruðu akstur skrifstofustjóra og fulltrúa fyrirtækisins, en akstur framkvæmdastjórans var látinn afskiptalaus. Synjað var um lögbann með þeim rökum að viðkomandi ökumenn væru að vísu starfsmenn Landleiða, en þeirra starfi hjá félaginu hefði ekki verið sá að aka bifreiðum þess, heldur vinna skrifstofustörf. Yrði því ekki talið samkvæmt tilgangi og anda laga um stéttarfélög og vinnudeilur að Landleiðum hafi verið rétt að grípa til þessara manna til þess að vinna störf þeirra sem ættu í verkfalli við félagið. Þannig yrði ekki talið að Frami hafi gerst brotlegur um ólögmætar aðgerðir gagnvart Landleiðum með því að hindra akstur þessara manna á áætlunarbifreiðum félagsins.

Óðal 1973

Í nóvember 1973 kröfðust eigendur Óðals lögbanns á verkfallsvörslu Félags framreiðslumanna, en þeir reyndu að hafa opið fyrir gesti og önnuðust sjálfir framreiðslu og höfðu eiginkonur sínar sér til aðstoðar. Félagsmenn Félags framreiðslumanna fjölmenntu á staðinn og hindruðu gesti í að komast inn. Fógetaréttur synjaði um lögbannið með þeim rökum að lög nr. 80/1938 kvæðu ekki á um nein úrræði til þess að löglegu verkfalli yrði haldið uppi. Hefði jafnan tíðkast að samtök þau sem væru í verkfalli hefðu sjálf séð um að halda uppi þeirri vörslu sem þau teldu nauðsynlega til þess að verkfall mætti verða virkt. Hefðu þessar aðgerðir verið ýmiskonar, þar á meðal að meina öðrum störf þau er stéttarfélagið annaðist og eftir atvikum að koma í veg fyrir aðgang að þeim stað, þar sem verfall væri. Lögreglumönnum væri í lögum fyrirmunuð önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annars staðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum. Þetta þýddi að lögreglumenn yrðu ekki kvaddir til að hlutast til um tíðkanlegar verkfallsaðgerðir. Yrði að telja að lögbanni yrði ekki beitt gegn slíkum tíðkanlegum aðgerðum aðila að vinnudeilu og breytti þar engu þótt hinn aðilinn teldi þessar aðgerðir ólögmætar gagnvart sér eða valda tjóni".
Tekið af vef ASÍ.

Það getur orðið þrautin þyngri að ákveða hvað er verkfallsbrot og hvað er ekki verkfallsbrot og ekkert einhlýtt í þeim efnum.


mbl.is ASÍ gagnrýnir FÍ og Isavia
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugavert. Mjög einkennilegt að Hæstiréttur hafi skipt um skoðun á sama ári (1964). Hverjir dæmdu Framadóminn? En eðli þessa máls er annað en t.d þetta hjá Óðal. Flug er ekki daglegur starfsvettvangur slökkviliðsstarfs. Það er mjög ólíklegt að slökkviliðsmenn geti tekið sér þetta vald í hendur. Annars er það orðið mjög víðtækt og gæti tekið til miklu fleiri starfa. Ætla þeir að loka grunnskólum ef grunnskólinn fær aðra til að þjónusta sig varðandi slökkviliðsstörf?

hannes (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 17:33

2 identicon

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Hannes. Slökkviliðsmenn fljúga ekki en þeir sinna hinsvegar varðstöðu á flugvöllum. T.d. á Akureyri þaðan sem þetta flug átti að fara en var beint til Húsavíkur til að komast framhjá verkfalli slökkviliðsmanna.

Verkfallsbrot? já mér finnst það.

Agur (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 20:48

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vissulega er það verkfallsbrot þegar FÍ ákveður að færa flug sitt til Húsavíkur, enda var sú ákvörðun tekin með því fororði að flogið yrði þangað ef ekki næðust samningar!

Það er vissulega slæmt að þessar aðgerðir skuli lenda á saklausu fólki, sem ekki á beina aðild að þessari kjaradeilu. Hvenær hefur verkfall einungis bitnað á þeim sem eiga beina aðild að viðkomandi kjaradeilu?

Eðli verkfalla er að trufla eða koma í veg fyrir venjubundna starfsemi, þetta er eina vopn launþegans. Það er vandmeðfarið vopn og auðvelt að misnota það. Í þessari kjaradeilu er þó ekki hægt að tala um misnotkun á verkfallsvopninu. Félag slökkviliðsmanna hefur verið einstaklega tregt til að beyta því og svo loks þegar ekki var lengur hægt að una við aðgerðarleysi viðsemjenda var tekin sú stefna að fara einungis í dagsverkföll til að byrja með.

Það er ekki annað en hægt að dást að langlundargeði slökkviliðsmanna!

Gunnar Heiðarsson, 13.8.2010 kl. 21:26

4 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

,,Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir að verkfallsvarsla slökkviliðsmanna á Reykjavíkurflugvelli í dag hafi verið ólögmæt. Samkvæmt skýrum dómum hæstaréttar sé verkfallsvarsla sem bitni á neytendum bótaskyld".

Þetta er haft eftir honum á vef ruv. Svo mörg voru þau orð. Það getur stundum verið gaman og fróðlegt að skoða gamla atburði og málarekstur.

Allt orkar tvímælis þá gert er segir gamall málsháttur.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 13.8.2010 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband