Þingvallasveit


 

 

Við skulum ganga í Þingvallasveit,

sólin hún vermir hvern stein og hvern reit,

Skóginn við skoðum og slóðirnar rekjum,

söguna ræðum og andann upp vekjum.

 

Leiðin hún liggur um kletta og klungur,

krókótta stíga er liggja yfir sprungur.

Spörð eftir rjúpu á leiðinni sjást,

söngglöðum fuglum og kjarri að dást.

 

„Gættu þín kona, hér er hætta og vá

hraunið er úfið og að sér skal gá.“

Aðvörun ástvinar, vel er það meint

þó óvarkár konan hlýði því seint.

 

Áfram við göngum og umhverfið lokkar,

útsýnið fagurt og stundin er okkar.

Friðsæld í lofti og fuglanna hljóma,

finnum hér hvarvetna sögunnar óma.

 

Á Skógarkotshlaði að okkur streyma,

frá steingráum hleðslum sem engu gleyma,

svipir og sögur um lífið hér forðum,

störfum og leik sem ei greint er með orðum.

 

Heimleiðis höldum við stígana hrjúfa,

hlustum á sönglist vorboðans ljúfa.

Tjald hefur risið á túninu græna.

Tákn fyrir komandi sumarið væna.

                        Inga Þórunn Halldórsdóttir

 

Kvæði þetta afhenti eiginkona mín mér eftir að við höfðum verið á göngu á Þingvöllum vorið 2007. Mér þótt hún stökkva ansi glannaleg yfir hraunsprungur og urðu einhver orðaskipti milli okkar út af því. Fannst mér hún hafa þessar aðvaranir mínar að engu. En þær hafa ef til vill verið kveikjan að kvæðinu. Nú er sumardagurinn fyrsti og vel viðeigandi að birta þetta kvæði.

 

Gleðilegt sumar

 
mbl.is Sumar og vetur frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband