Birgir Gunnarsson matsveinn á vitaskipinu Hermóði, minningarorð

Að morgni 18. febrúar 1959 barst sú harmafregn að vitaskipið Hermóður hefði farist við Reykjanes undan Höfnum með allri áhöfn. Bróðir minn, Birgir Gunnarsson, var einn af áhöfninni. Þá um nóttina hafði m/s Vatnajökull farið í gegnum Reykjanesröst. Þar var mágur minn, Haukur Guðmundsson, annar stýrimaður. Eftir þeirri heimild voru við stjórnstörf í brúnni á m/s Vatnajökli, skipstjórinn í sjóstakk með annan fótinn út á brúarvæng til að meta brotsjóa  og gefa fyrirskipanir. Fyrsti stýrimaður ásamt háseta voru við stýrið, annar stýrimaður var við radarinn og loftskeytamaður var í varðstöðu í loftskeytaklefanum og vélstjórar við vélar. Þannig komust þeir yfir Röstina og og dældu olíu í sjóinn. Vatnajökulsmenn heyrðu síðast í  Hermóði um fjögur leytið. Eftir það heyrðist ekkert frá skipinu.

Vitaskipið Hermóður var fallegt skip. Stílhreint og rennilegt. Það samsvaraði sér vel og var hlutfalla gott. Verkpláss á dekki og allan hringinn var rúmt. Á heildina var Hermóður sterkt og gott sjóskip. Hermóður  var töluvert minna skip en Vatnajökull og hefur ekki ráðið við aðstæður í þetta sinn.

Í dag fór fram minningarathöfn um Birgi Gunnarsson í Laugarneskirkju, sem var fermingarkirkja hans. Minningarorð flutti séra Gunnar Eiríkur Hauksson og stjórnaði athöfn. Fór hann yfir æviatriði Birgis og minntist hans. Flutt var frásögn eftir mig þar sem sagt var frá því þegar Birgir bjargaði heimasætunni í Laugarnesi, Þuríði Sigurðardóttur, árið 1952 frá drukknun undan Kirkjusandi. Þessi ástsæla söngkona söng tvö lög við athöfnina og var Ragnar Bjarnason henni til stuðnings og erum við ættingjar Birgis þakklát þeim fyrir það. Organisti var Gunnar Gunnarsson.

Birgir var tvítugur þegar hann fór í þennan afleysingatúr með Hermóði. Hann var ókvæntur og barnlaus. Söknuður eftir honum endurspeglast ef til vill í því að margt barna var látið heita eftir honum. En þau eru í aldursröð: Birgitta Bragadóttir skjalalesari Alþingis, Birgitta H. Halldórsdóttir bóndi og rithöfundur, Birgitta Hilmarsdóttir, Birgir Kristbjörn Hauksson matreiðslumaður og fiskeldisfræðingur, Birgir Gunnarsson skipstjórnarmaður, Birgir Guðmundsson eigandi fisvinnslunnar Sæbjargar og Birgir Örn Harðarson í foreldrahúsum. Ég átti þess ekki kost að vera við minningarathöfnina fyrir 50 árum og hef alltaf saknað þess að hafa ekki getað kvatt bróður minn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var falleg stund og yndislegt að heyra Þuríði og Ragga Bjarna syngja saman. 

Ágústa (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 22:11

2 identicon

Þetta var góð stund, frásögnin þín af atburðum við Kirkjusand fallega skrifuð og söngur Þuríðar og Ragnars hljómar enn í eyrum. Minningin um Birgi, sem ég er skírð eftir, hefur færst nær okkur sem erum of ung til að muna hann.

Bidda

birgitta (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 00:44

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Votta þér samúð

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 05:49

4 identicon

Ég og tengdó töluðum saman í gær um það hversu mikilvægt það væri að börn fái að taka þátt í því ferli sem hefst þegar sorgartíðindi bera að garði. Þrátt fyrir ungan aldur þá er nauðsynlegt að þau séu þáttakendur og eiga mögulega minningu um kveðjustund sem fylgir þeim ævilangt.

Þótt tilefnið í gær hafi vissulega verið sorglegt má segja að það hafi falist ákveðin gleði í því að þú hafi fengið að kveðja bróður þinn með formlegri hætti.

Þórólfur (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 10:30

5 identicon

Kærar þakkir til þeirra sem stóðu að þessari fallegu minningarstund í kirkjunni. Það var sérstök upplifun að finna svona sterkt fyrir sorginni vegna fráfall frænda míns sem fórst ungur aðn árum fyrir fimmtíu árum, þegar ég var aðeins tveggja ára gömul. Sem segir manni hve minningin um hann lifir sterkt í fjölskyldu okkar. Á þessum tímamótum er líka rétt að finna fyrir þakklæti að   á þessum fimmtíu árum sem liðin eru hefur ekki orðið ótímabært fráfall vegna slysa eða sjúkdóma  í fjölskyldu okkar.

Ingibjörg Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband