Birgir Dýrfjörð
Birgir Dýrfjörð
Eftir Birgi Dýrfjörð: "... milljón ferðamenn á ári er martröð..."
FERÐAMAÐUR frá Evrópu skilur eftir í himinhvelinu koldíoxíð (CO2) sem veldur gróðurhúsaáhrifum til jafns við árslosun frá bíl, sem er ekið 15 þús. km á ári og eyðir 12 lítrum á hundraðið. Sá bíll losar rúm 4 tonn af CO2 á ári.

250 þús. ferðamenn frá Evrópu losa því jafngildi einnar milljónar tonna losunar á CO2 við jörðu. Þeir toppa álverið á Reyðarfirði. Sami fjöldi frá Japan jafnar árslosun Íslendinga. Þrjátíu Íslenskar konur fóru fyrir skömmu til Sameinuðu þjóðanna og ræddu mengun andrúmsloftsins. Heimkomnar höfðu þær skilið eftir koldíoxíð í himinhvelinu til jafns við árslosun 70 heimilisbíla.

Draumur margra græningja um milljón ferðamenn á ári er því martröð upplýstra náttúruverndarsinna.

 

Pattstaða ráðherra

Evrópusambandið stefnir að losunarkvóta og losunargjöldum á flugvélar. Olíuverð hefur hækkað og mun hækka mikið. Vegna losunargjalda og hækkunar eldsneytis verða flugfargjöld óheyrilega há. Það mun valda samdrætti í ferðaþjónustu og fjölda gjaldþrota vítt um heim.

 

Vilji ríkisstjórn leita eftir undanþágu frá losunarkvótum vegna lífsnauðsynja, þá er fjarlægð Íslands frá meginlöndum og að þjóðin er algjörlega háð erlendum aðföngum, næg rök fyrir þeirri beiðni.

Þau rök gilda þó ekki til undanþágu á gjöldum fyrir skemmtiferðafólk.

Núverandi umhverfisráðherra hefur sagt að ekki komi til greina að sækja um undanþágur frá losunarkvóta vegna álbræðslu þó að viðurkennt sé að notkun á áli dregur úr heildarlosun.

Ef álver losar 1 milljón tonn af CO2 á ári þá er líklegt að það af álinu, sem notað er í farartæki, minnki nettó losun um 2,6 milljónir tonna.

Umhverfisráðherra viðurkennir ekki þessa staðreynd sem næg rök fyrir beiðni um undanþágu á losun frá stóriðju. Hann hefur því teflt sér í pattstöðu með það, að sækja um undanþágu á losun frá millilandaflugi.

 

Innstæða á himni

Langmestur hluti af CO2, sem fylgir stóriðju myndast við framleiðslu á rafmagni. Raforkuverið fyrir álverið, sem Norsk Hydro hætti við á Reyðarfirði og flutti til Arabíuskagans, losar 5,5 milljónir tonna á ári af CO2. Raforka til álvera á Íslandi myndar nánast ekkert CO2. Það má því segja að Íslendingar, sem framleiða alla sína orku án teljandi losunar þess, eigi gilda innistæðu á himni og greiði að auki inn á hana árlega, sem nemur ígildi margra milljóna tonna losunarkvóta af CO2.

 

Spurt er; vill umhverfisráðherra nota þessa Íslensku innistæðu, sem endurnýjast hvern dag. Vill umhverfisráðherra nota hana í samningum um íslenska hagsmuni?

Höfundur er í flokksstjórn Samfylkingarinnar.

Tekið af vef Morgunblaðsins. Birt með leyfi höfundar

Síðuritari er sammála höfundi í þessum málum að flestu leiti.