250 þús. ferðamenn frá Evrópu losa því jafngildi einnar milljónar tonna losunar á CO2 við jörðu. Þeir toppa álverið á Reyðarfirði. Sami fjöldi frá Japan jafnar árslosun Íslendinga. Þrjátíu Íslenskar konur fóru fyrir skömmu til Sameinuðu þjóðanna og ræddu mengun andrúmsloftsins. Heimkomnar höfðu þær skilið eftir koldíoxíð í himinhvelinu til jafns við árslosun 70 heimilisbíla.
Draumur margra græningja um milljón ferðamenn á ári er því martröð upplýstra náttúruverndarsinna.
Pattstaða ráðherra
Evrópusambandið stefnir að losunarkvóta og losunargjöldum á flugvélar. Olíuverð hefur hækkað og mun hækka mikið. Vegna losunargjalda og hækkunar eldsneytis verða flugfargjöld óheyrilega há. Það mun valda samdrætti í ferðaþjónustu og fjölda gjaldþrota vítt um heim.
Vilji ríkisstjórn leita eftir undanþágu frá losunarkvótum vegna lífsnauðsynja, þá er fjarlægð Íslands frá meginlöndum og að þjóðin er algjörlega háð erlendum aðföngum, næg rök fyrir þeirri beiðni.
Þau rök gilda þó ekki til undanþágu á gjöldum fyrir skemmtiferðafólk.
Núverandi umhverfisráðherra hefur sagt að ekki komi til greina að sækja um undanþágur frá losunarkvóta vegna álbræðslu þó að viðurkennt sé að notkun á áli dregur úr heildarlosun.
Ef álver losar 1 milljón tonn af CO2 á ári þá er líklegt að það af álinu, sem notað er í farartæki, minnki nettó losun um 2,6 milljónir tonna.
Umhverfisráðherra viðurkennir ekki þessa staðreynd sem næg rök fyrir beiðni um undanþágu á losun frá stóriðju. Hann hefur því teflt sér í pattstöðu með það, að sækja um undanþágu á losun frá millilandaflugi.
Innstæða á himni
Langmestur hluti af CO2, sem fylgir stóriðju myndast við framleiðslu á rafmagni. Raforkuverið fyrir álverið, sem Norsk Hydro hætti við á Reyðarfirði og flutti til Arabíuskagans, losar 5,5 milljónir tonna á ári af CO2. Raforka til álvera á Íslandi myndar nánast ekkert CO2. Það má því segja að Íslendingar, sem framleiða alla sína orku án teljandi losunar þess, eigi gilda innistæðu á himni og greiði að auki inn á hana árlega, sem nemur ígildi margra milljóna tonna losunarkvóta af CO2.
Spurt er; vill umhverfisráðherra nota þessa Íslensku innistæðu, sem endurnýjast hvern dag. Vill umhverfisráðherra nota hana í samningum um íslenska hagsmuni?
Höfundur er í flokksstjórn Samfylkingarinnar.
Tekið af vef Morgunblaðsins. Birt með leyfi höfundar
Síðuritari er sammála höfundi í þessum málum að flestu leiti.
Athugasemdir
Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu.
Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.
Langflestir menga því mun meira í sínum heimabæ en utan hans, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.
Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.
Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.
Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.
Þorsteinn Briem, 1.10.2018 kl. 20:14
Fólk ferðast. "Deal with it" Hvort það ferðast stutt eða langt, eitt eða með öðrum, er "trendið" orðið að tala um "kolefnisfótspor" sem þurfi að jafna. Helst með auknum sköttum, sem hverfa síðan í hít opinberra kerfisamlóða og reglugerðarburgeisa, sem eiga það eitt sameiginlegt að vilja blása út eftirlitsiðnað og aukna skattheimtu á almenning, í nafni þessa tískukjaftæðis. Viðhalda nánast brjálæðislegu embættismannakerfi, sem hugsar um fátt annað en að viðhalda sjálfu sér.
Hvað vill fólk, er kemur að samgöngum? Seglskútur? Haust og vorskip, maðkað mjöl og afturhvarf til torfbæjanna? Rauðu kmerana?
Vissulega eigum við að gæta að okkur í umgengni okkar við náttúruna og gera allt til að menga sem minnst. Best væri sennilega að mannkynið héldi sig bara á sínum einum stað og færi ekki neitt, aldrei. Þá þyrfti ekkert að jafna. "Bönnum ferðalög" er ekki "slogan" sem líklegt er til vinsælda. Innan bæjar sem utan, eða jafnvel á erlenda grundu, eða hvað? Hvur veit?
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 2.10.2018 kl. 00:58
Segir ekki gamalt máltæki, "áður en hlutirnir batna, verður að allt að fara til helvítis".
Rómverjar sögðu hér áður "corrumpissima re publica, plurimae leges".
Eftir fleiri þúsund ár, höfum vid ekki lært þetta enn ...
Örn Einar Hansen, 2.10.2018 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.