Afmælisdagur baráttukonu frá Ísafirði og árs afmæli Búsáhaldarbyltingarinnar

Móðuramma mín Karítas Skarphéðinsdóttir frá Æðey í Ísafjarðardjúpi er fædd þennan dag, 20. janúar 1890 Foreldrar hennar voru Petrína Ásgeirsdóttir frá Látrum í Mjóafirði og Skarphéðinn Elíasson frá Garðstöðum í Ögursveit.

Karítas giftist Magnúsi Guðmundssyni árið 1907. Hann var þá ekkjumaður með fjögur börn. Með honum átti hún 10 börn. Þau fluttust til Ísafjarðar árið 1922.

Þau hjón voru meðal stofnenda Kommúnistadeildar á Ísafirði 1930. Karítas var góð ræðu- og áróðurskona og kunni að koma vel fyrir sig orði og flutti mál sitt af einurð og festu og gat mætt stjórnmála- og og menntamönnum þjóðarinnar og um það eru til heimildir.

Karítas var jafnan vel búin á mannamótum og var þá í upphlut og bar sig vel og hneyksluðust sumir á henni, fátæklingnum, að vera svona fín. Karítas barðist fyrir margvíslegum umbótum fyrir verkfólki og eitt af því var að bættur yrði hagur vaskakvenna svo sem að þær hefðu kaffistofu og að vatninu væri haldið volgu. Þá var kveðið:

Ein er gálan gjörn á þras, gulli og silki búin.

Kaffiskála-Karítas, kommúnistafrúin.

Á áttræðisafmæli hennar 20. janúar 1970, sendi Alþýðusamband Íslands henni heillaskeyti:

Innilegar hamingjuóskir á áttræðisafmæli þínu. Brennandi áhugi þinn, réttlætiskennd og harðfylgi skipuðu þér í baráttusveit íslensks verkalýðs og þar hefur þú skipað rúmið sem fulltrúi íslenskra verkakvenna með sæmd um áratugi. Megi verkakonur framtíðarinnar, sem flestar, erfa eðliskosti þína baráttuþrek og hugsjónaglóð. Persónulega þakka ég þér ríkjandi og örvandi áhrif og árna þér heilla. Það er mér mikil ánægja að flytja þér hlýjar heillaóskir og alúðarþakkir Alþýðusambands Íslands fyrir baráttu þína og starf í íslenskri verkalýðshreyfingu. Fh ASÍ  Hannibal Valdimarsson

Þegar Karítas lést árið 1972 skrifaði Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur       ,, einhver bestu og sérkennilegustu eftirmæli sem rituð hafa verið" (Einar Olgeirsson, 1983, 197). Sverrir minnist Karítasar og framboðsfundar á Álftanesi árið 1946. (Sverrir Kristjánsson, 1982, 223-230).

Heimild: Karítas Skarphéðinsdóttir Neff. Lífshættir íslenskra kvenna. Sjö ritgerðir, Auður Styrkársdóttir ritstýrði. Háskóli Íslands Félagsvísindadeild.

Pálína Magnúsdóttir og Ættfræðistofa Þorsteins Jónssonar. Pálsætt á Ströndum lll bind bls. 782-801


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband