Borgarahreyfingin er sjálfsprottin pólitísk hreyfing, sprottin úr grasrót íslenskrar alþýðu og almúgafólks. Hreyfingin verður til eftir bankahrunið þegar í ljós hefur komið að heimskan hefur riðið röftum í íslensku bankakerfi svo og víða í atvinnulífi. Eftir að þjófélagið hefur verið drifið áfram af erlendri skuldasöfnun og stjórnvöld hafa látið í áraraðir viðskiptahalla viðgangast. Markaðurinn átti að stýra öllum athöfnum og hreyfingum í þjóðfélaginu. Þá virtist það bara hafa vera blöff.
Borgarahreyfingunni hefur tekist að bjóða fram lista í öllum kjördæmum sem er afrek út af fyrir sig. Hún glímir við ójafnræði miðað við önnur stjórnmálaöfl sem eru með kjörna fulltrúa á Alþingi og sem fá framlög á fjárlögum miðað við stærð. Af þeim sökum verður Borgarahreyfingin að baka sitt bakkelsi sjálf, til nota á kosningaskrifstofum, en getur ekki farið út í bakarí að kaupa vínarbrauð fyrir skattfé. Eins verða meðlimir og kjósendur hennar að taka myndir hvor af öðrum og láta það duga, því hreyfingin hefur ekki efni á að fara á auglýsinga- og ljósmyndastofur.
Atvinnuleysi hér er orðið gríðarlegt og má búast við að sá stóri hópur horfi frekar til Borgarahreyfingarinnar um ráð og breytingar, en annarra flokka sem nú um stundir snúast um sjálfa sig í leit að fjármunum til endurgreiðslu styrkja sem þeir hafa hlotið fyrir vasklega framgöngu á vettvangi þjóðmála.
Krafan um breytt þjóðfélag og betra skipulag er mjög rík í nú á dögum og þeir sem vilja breytingar leita að sínum möguleikum þar um.
Í skoðanakönnunum hefur fylgið við hreyfinguna verið að vaxa hægt og sígandi og því er spáð að, svo verði fram á kjördag.
Þetta verða spennandi tímar framundan, eins og sagt var fyrir bankahrun, ef fréttist að einhver hefði keypt eitthvað af einhverjum.
![]() |
Borgarahreyfingin býður fram í öllum kjördæmum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 12.4.2009 | 16:36 (breytt 23.4.2009 kl. 12:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Frásögn þessi var fyrst flutt á samkomu fyrrverandi íbúa í Laugarneskampi og Laugarnesi árið 2003. Hún er sögð í minningu um bróður minn Birgir Gunnarsson, sem fórst með vitaskipinu Hermóði 18. febrúar 1959 í Reykjanesröst. Ég skrásetti hana til að halda atburðinum til haga og bregða minningarglampa á Laugarnesið.
Birgir skildi ekki eftir sig veraldlega hluti. Björgun Þuríðar Sigurðardóttur, sem er ein ástsælasta söng-, hesta- og listakona þjóðarinnar, er okkur í fjölskyldunni mikilsvirði.
Frásögnin var endurflutt í styttri útgáfu í minningarathöfn um Birgi í Laugarneskirkju 18 febrúar 2009 og þykir mér vel viðeigandi að birta hana á páskadagsmorgun og á þeim tíma sem margir eru að fermast en Birgir var ásamt félaga sínum, einmitt að koma úr fermingarkaffi þegar þessi atburður átti sér stað.
Björgun heimasætunnar í Laugarnesi vorið 1952
Það var á þeim vordögum í Laugarnesinu, þegar krían smó bláan himininn með sínum öruggu vængjatökum. Ósjaldan steypti hún sér niður í höfuðið á okkur krökkunum í Laugarnesinu og flaug svo burt - gargandi. Eftir skildi hún okkur skíthrædd og æpandi, hlaupandi burt sem fætur toguðu, því krían var óskaplega herská og hættuleg að okkur fannst.
Kolinn var farinn að veiðast við bryggjuna á Kirkjusandi, en það var háttur margra unglinga að standa á ystu nöf og stinga hann þegar hann gekk upp í sandinn.
Í haga í Laugarnesinu voru grá hross á beit. Af þeim var yndisleg lykt á vorin sem minnti á sumarkomuna og í hlaðvarpa sýslaði Sigurður bóndi við bústörf - syngjandi sæll og glaður.
Inn í Laugarnesbænum var heimasætan Þuríður Svala Sigurðardóttir - fjögurra vetra gömul - og öngvir vissu framtíð hennar.
Fremst á nesinu kúrði svo braggabyggðin undir bárujárnsboganum.
Þetta vor árið 1952 átti Birgir bróðir minn að fermast ásamt öðrum börnum úr Laugarnessókn. Einn dag eftir fermingu gengu þeir vinir og félagar, Birgir og Ágúst, til kveðjukaffiboðs hjá séra Garðari. Þeir voru spariklæddir. Var þetta hin besta veisla og fannst nú krökkunum þau vera fær í flestan sjó.
Á heimleiðinni drolluðu drengirnir og skröfuðu um heima og geima - enda drengja háttur á þessum aldri. Þeir ákváðu að taka á sig krók og kíkja niður á bryggju við frystihúsið á Kirkjusandi. Þeir voru að vísu í sparifötunum - en ævintýraþráin er sterk og oft voru krakkar að veiða þarna.
Þegar þeir nálguðust bryggjuna heyrðu þeir hróp og köll. Hér var eitthvað á seyði.
Þegar þeir komu nær sáu þeir að einhver hafði dottið í sjóinn. Viðkomandi flaut eins og bauja frá landi og sogaðist í burtu. Það fór ekki á milli mála að heimasætan í Laugarnesi var að drukkna. Ævar bróðir hennar baðaði út öllum öngum, var óðamála og kallaði á hjálp.
Án þess að hika vatt Birgir bróðir sér úr jakkanum og á svipstundu hafði hann kastað sér til sunds á eftir Þuríði Svölu. Hann synti að stúlkunni, náði haldi á henni og hóf svo björgunarsund til lands en það reyndist erfitt.
Ránardætur vildu fanga ungmennin.
Það virtist eins og þau væru að sökkva.
En heilladísirnar í Laugarnesi voru þarna líka og þær slógu skjaldborg um þennan atburð.
Birgir þreytti sundið af einbeitni en mjög var farið að draga af honum og stúlkan farin að toga í. Við þessar aðstæður stökk félagi Ágúst fram af kantinum og aðstoðaði Birgi við að ná til lands. Það voru fúsar hendur sem hjálpuðu þeim að ná upp á bryggjukantinn.
Tilviljunin ein réð því að danskur læknir var þarna nálægt. Kom hann til hjálpar og gerði viðeigandi ráðstafanir. Allt fór þetta vel að lokum.
Þeir félagar Ágúst og Birgir gengu nú heim til sín, báðir holdvotir en með sæluhroll og blik í augum eftir giftusamlega björgun stúlkunnar.
Þegar Birgir kom heim varð nú heldur en ekki upplit á móður okkar - enda var hann í fermingarfötunum og ekki vel séð að eyðileggja þau. Helst væri hægt að lýsa því ástandi sem þarna skapaðist með því að fara með Guttavísur. En þegar skýringar á atburðinum komu smátt og smátt fram milli glamrandi tannanna færðist gleðisvipur yfir andlit móður okkar.
Nokkrum dögum seinna komu Laugarnesfeðginin, þau Sigurður Ólafsson og Þuríður, til okkar að Laugarneskamp 36. Þau voru í sínu fínasta pússi og heimasætan með slöngulokka og elegant.
Á meðan kvöldsólin varpaði geislum sínum á drossíuna sem þau komu í afhentu þau Birgi björgunarlaun sem voru stytta af hafmeyjunni eftir Guðmund frá Miðdal og álitleg peninga upphæð.
Þetta vor gekk ég um Laugarnesið - sex vetra gamall - og fannst ég vera hluti af einhverju miklu afreki - einhverju stórkostlegu afreki.
Já, mér fannst að bróðir minn væri hetja.
Og krían - hún skyldi nú bara passa sig. Ég átti bróðir sem kæmi bara að fæla hana í burtu. Hann væri sko ekkert hræddur - hann væri ekki hræddur við eitt né neitt.
Heimildir: Í söngvarans jóreyk. Æviminningar Sigurðar Ólafssonar söngvara.
Munnlegar heimildir: Halldóra og Kristbjörg Gunnarsdætur.
Stjórnmál og samfélag | 12.4.2009 | 09:00 (breytt 25.2.2023 kl. 11:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggfærslur 12. apríl 2009
Myndaalbúm
Okt. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
-
Axel Jóhann Hallgrímsson
-
Bergljót Gunnarsdóttir
-
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
-
Grétar Mar Jónsson
-
Gunnar Rögnvaldsson
-
Hörður B Hjartarson
-
Ingibjörg Friðriksdóttir
-
Jón Páll Jakobsson
-
Jón Ragnar Björnsson
-
Kristján Hilmarsson
-
Kristján P. Gudmundsson
-
Lilja Skaftadóttir
-
Sigríður B Svavarsdóttir
-
Sigurbjörg Eiríksdóttir
-
Sigurjón Þórðarson
-
Sumarliði Einar Daðason
-
Valdimar Samúelsson
-
au
-
cakedecoideas
-
Kristinn Ágúst Friðfinnsson
-
Guðjón E. Hreinberg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.10.): 55
- Sl. sólarhring: 95
- Sl. viku: 469
- Frá upphafi: 601817
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 392
- Gestir í dag: 48
- IP-tölur í dag: 47
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar