Form og skipulag

Þrír efstu menn á listum Borgarahreyfingarinnar til Alþingiskosningunum 25. apríl s.l. hafa fengið samviskubit út af því að hafa gengið af fundi vegna þess að þeir urðu undir í atkvæðagreiðslu á landsfundi sem boðaður hafði verið til og löglega settur og afgreiddi tillögur sem voru ekki að skapi þessara aðila.

Forvitnilegt er að lesa yfirlýsingu þeirra en þar segir m.a.; „Borgarahreyfingin spratt upp sem lýðræðisafl til höfuðs þeim hefðbundnu stjórnmálaflokkum sem fyrir voru og hefur nú tapað sjónum á ábyrgð sinni við kjósendur þessa lands.

Og áfram; ,,13.499 manns greiddu upprunalegri hugmyndafræði Borgarahreyfingarinnar atkvæði sitt í vor og veittu okkur þar með umboð sitt til að fylgja henni eftir samkvæmt bestu vitund og sannfæringu. Það vefst því eðlilega fyrir okkur að atkvæði einungis 54 manna á landsfundi, innan við tíundi hluti þeirra sem þar hafa atkvæðisrétt, geti snúið á hvolf þeirri stefnu sem okkur var falið að vinna samkvæmt.

Frá mínum bæjardyrum séð er ekki hægt að alhæfa að 13.499 kjósendur hafi greitt atkvæði vegna þess að Borgarahreyfingin hafði eitthvað annað félagsform en hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar.

Fyrir þessari fullyrðingu liggja engar rannsóknir eða kannanir. 

Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því að kjósendur hafi kosið Borgarahreyfinguna. Nærtækast er að nefna þá skýringu að kjósendur hafi viljað fylgja eftir þeim mótmælum sem urðu vegna óstjórnar í efnahagsmálum og opinberuðust í bankahruninu.

Fólk er reytt og stendur frammi fyrir aðstæðum sem ekki eru þekktar áður í sögu þjóðarinnar. Þess vegna vildi fólk skapa sér þjóðfélagsafl sem væri sýnilegt og kjósendur vildu ganga til atlögu við öfl í gömlu flokkunum þremur.

Í öllum félagsskap þarf eitthvað form og skipulag. Hreppaskipanin er líklega elsta kosningaform hjá okkur. Kosningar þar styðjast við landslög. Þar hefur lengst af verið kosið víða án íhlutunar stjórnmálaflokka. Samvinnufélögin eru ( voru með ) fulltrúalýðræði og félagslög, þar sem 6 félagsmenn voru á bak við hvern fulltrúa og svona væri hægt að halda áfram lengi. Það allra verst í pólitík  er að skella á eftir sér dyrum án þess að láta bóka neytt og ekki þingmönnum sæmandi. 


mbl.is Íhuga áframhald á samstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfseignaralþingismenn

Þegar tveir deila hafa hvorirtveggja nokkuð til síns máls. En við þær aðstæður og tilurð Borgarahreyfingarinnar er þessi deila afar slæm sem birtist almenningi með útgöngu þingmanna Borgarahreyfingarinnar vegna þess að þeir urðu undir í atkvæðagreiðslu.

Erfitt er fyrir þann sem fyrir utan stendur að hafa yfirsýn yfir það sem gerðist og innanhreyfingar átök. Þegar þingmenn lýsa því aftur á móti yfir að þeir beygi sig ekki undir félagslög, þá er sjálfhætt og í raun virkar þetta kátlegt.

En þessi atburðir munu dýpka glundroða og stjórnleysi á stjórnamálavettvanginum og í almenningum og þá á ég ekki við afréttir og heiðarlönd, heldur torg og samkomustaði hverskonar.

Ekki bætir úr skák á innanlandsófriðinn að lögregluyfirvöld hafa verið iðinn við að auglýsa eigin vanmátt og fámenni. Þá hafa fjölmiðlar auglýst það í fyrirsögn að fangelsi séu yfirfull og þjófagengi gangi laus.

Þetta eru allt saman slæm skilaboð inn í samfélagið við þær aðstæður sem við búum nú við. Ég sé ekki neytt stjórnmálaafla eða stjórnmálaforingjar, sem gætu stillt til friðar hér ef til upplausnar drægi. Hér er engin Þorgeir Ljósvetningagoði í augsýn, þó Steingrímur Sigfússon sé vissulega að norðan og Þingeyingur og gæti sjálfsagt fengið húðfat lánað hjá bróður sínum. Slíkt yrði þó aðeins hægt að nota sem gamanmál fyrir ferðamenn. 

Miðað við að þingmenn Borgarahreyfingarinnar geri alvöru úr því að slíta sig frá hreyfingunni sem fleytti þeim inn á þing þá er komin upp alveg ný staða í stjórnmálalífinu.

Formúlan er þessi: Fólk platar bara einhverja til styðja sig til Alþingis og gerast svo Sjálfseignaralþingismenn og passar sig svo bara  að því að halda enga þingmálafundi fyrir kjósendur.


mbl.is Átök innan Borgarahreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri í Suðvesturkjördæmi

Ef allt fer fram sem horfir að atkvæðamisvægið til Alþingiskosninga verði leiðrétt milli kjördæma eru sóknarfærin til þingmennsku í Suðvesturkjördæmi.

Þar eiga að réttu að vera 16 þingsæti en eru 12 þingsæti. Það eru því 4 þingsæti sem er óráðstafað.

Norðvesturkjördæmi verður með 6 þingsæti og þar er ekkert pláss fyrir Halldór.

Svo það er eðlilegt að farið er að bera víurnar í duglega stjórnmálamenn og óskirnar komi frá Hafnarfirði.

Straumur stjórnmálakandídata liggur til Suðvesturskjördæmis. Flóttinn er brostin á til stærsta kjördæmis landsins, sem nú um stundir er ekki nema með 1/2 atkvæði pr. kjósanda.

Fyrr eða síðar vera það handhafar löggjafarvalds, nú eða þá dómstólar sem leiðrétta atkvæðamisvægið.

Það gengur ekki lengur að kjósendur séu að framvísa hálfónýtu atkvæði í kjörklefanum.


mbl.is Vilja fá Halldór til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaktin á horninu

Helgi Hóseasson er látinn. Þrátt fyrir miklar rannsóknir í guðfræði veit engin enn hvort hann eða aðrir fari til Guðs að lokinni ævivist.

Síðustu æviár sín stóð hann mótmælavakt sína á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Var hann gjarnan þar með mótmælaspjald sitt, þegar skólabörn voru á leið í skóla á morgnana.

Hann var orðin hluti af umhverfinu og aldrei sá ég börn amast við skrítna karlinum þar, hann lyftist upp og stóð teinréttur þegar bílstjórar sendu honum létt vinalegt flaut.

Helgi stóð alla tíð óbrotinn í mótmælum sínum og mun verð í sögunni nokkur fyrirmynd annarra. En hann var allatíð afskaplega sérvitur og forn en það er bara gott að menn séu litríkir.

Ég færði það eitt sinn í tal við hann hvort hann væri  því ekki fylgjandi  að komið væri upp töflu þarna á horninu þar sem almenningur gæti hengt upp mótmæli sín. Ráðherrar og mektarmenn gætu svo skotist í kaffitíma sínum og lesið mótmælinn og vitað hvað væri í gangi á hverjum tíma. Helga leist vel á þessa hugmynd. Í mínum huga er það alveg klárt að það þarf að gera eitthvað þarna á horninu sem minnir á Helga.

Nú er bloggið allsráðandi og fólk kemur mótmælum sínum þar á framfæri en Mótmælandi Íslands verður alltaf einn og verður að standa fast á sínu.


mbl.is Helgi Hóseasson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er menntavegurinn?

Steingeldir stúdentar við Háskóla Íslands, æpa nú að menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur vegna lækkunar á rekstrarfé til skólans.

Það er eins og stúdentar geri sér enga grein fyrir ástandinu. Hér eru allir sjóðir að þorna upp. Atvinnutryggingarsjóður verður uppurinn að óbreyttu í haust. Verið er að hirða búvélar og framleiðslutæki af bændum. Tekjur sveitarfélaga eru að hraðminnka. Fé til sjúkrahúsa er minnkað. Atvinnuleysi stigmagnast. Fólk er ráðalaust vegna fjárhagserfiðleika.

Menntavegurinn er ekki endilega upp í Háskóla Íslands. Hann er út um allt þjóðfélagið. Hann liggur í gegn um fólkið og býr í því sjálfu, ef það hefur sæmilega greind, kjark og dugnað.

Það væri nú uppbyggilegt að stúdentar kæmu nú með einhverjar tillögur um aðgerðir við því neyðarástandi sem hér er að skapast frekar en að vera jarma þetta.

Er ekki bara hægt að læra heima? Hér þarf að skipuleggja sjálfboðasveitir til að við komumst í gegn um þetta. Allstaðar þarf fólk að verða viðbúið miklum erfiðleikum. Nú er það samstaðan sem gildir.


mbl.is Stúdentaráð HÍ fordæmir fyrirhugaðan niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Duglegur lögreglustjóri

Við vinnu mína í dag vestur í bæ sá ég lögreglustjórann í Reykjavík aka um í gömlum Subarulögreglubíl en í ágætu útliti. Ég hugsaði með mér; er nú lögreglustjóri að líta eftir að allt sé í röð og reglu.

Svo á leið minni á Miklubrautinni skömmu seinna sé ég hóp af fólki kominn á gangstéttina og 5 bíla árekstur og fyrir aftan vettvang hafði gamli Subaróinn stillt sér upp með blikkljósin og lögreglustjórinn í Reykjavík hafði yfirtekið vettvang og stjórn. Hafði hann þá væntanlega tekið eftirlitsrúnt og komið upp Kringlumýrarbraut og lent aftan við árekstrana skömmu eftir að þeir áttu sér stað.

Ég segi nú bara eins og kallinn sagði, ,, Svona eiga sýslumenn að vera". 

Það er líka gott að vita að hann er sparsamur, ekki á einhverjum voða flottum jeppa. Sjálfur ek ég á 15 ára Lancer eknum 300, þúsund km.


mbl.is Fimm bíla árekstur á Miklubraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjótumst út úr herkvínni

Forustumenn fjármála og viðskipviðskiptalífs, ákveðnir stjórnmálaforingjar, eftirlitsstofnun og bankastjórar allt þekkt nöfn í íslensku atvinnu og stjórnmálalífi, hröktu íslenska þjóð i herkví.

Þar á eftir létu Bretar, (sem við björguðum frá hungri í seinniheimstyrjöldinni með því að færa þeim reglulega fismeti), hryðjuverkalög á okkur dynja.

Alþingi hefur nú samþykkt ábyrgðir á svokölluðum Icesavesamningum, með þungum fyrirvörum, sem íslenskir samningamenn neyddust til að samþykkja vegna þess að herkvíin var orðin svo þröng að þeir gátu ekki dregið upp sverð sín.

Forseti Íslands hefur haft uppi nýmæli varðandi beitingu 26. gr stjórnarskrárinnar varðandi að neita að skrifa undir lög frá Alþingi. Hefur þetta ákvæði verið óvirkt allan lýðveldistímann, en varð virkt vegna afgreiðslu svokallaðra fjölmiðlalaga. Almenningur þarf að fá sjálfstæðan rétt til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu t.d undirskrift ákveðins hlutfalls kosningarbærra borgara.

Nú hinsvegar telur forseti ekki rétt að að beita þessu ákvæði þar sem nokkuð breið samstaða varð um alla fyrirvara varðandi Icesavelögin, þó Sjálfsstæðismenn hafi ekki greitt lögunum atkvæði sitt við endanlega atkvæðagreiðslu. Sjálfsagt hefur það verið gert af búhyggindum til að auka fylgi flokksins en það hefur farið þverrandi.

Bretar og Hollendingar hafa kvartað yfir því, að þeir hafi ekki verið upplýstir um málatilbúnað Alþingis og beðið eftir að þeim væri gerð grein fyrir fyrirvörum Alþingis.

Það er skoðun mín að þeir geti bara lesið sig til á vef Alþingis um þessa fyrirvara. Síðan þarf að þæfa þetta mál bara og teygja.

Nú er lag að brjótast út úr herkvínni. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti. Halda uppi málfylgju um hve reglur ESB um frjálst flæði fjármagns er hættulegt smáum þjóðríkjum. Vera á varðbergi gagnvart öllum stjórnarathöfnum valdhafanna. Það má segja að bloggarar hafi hér unnið áfangasigur í lýðræðisátt og er það nýmæli í stjórnmálum, enda hefur þjóðin ávalt verið vel ritfær.


mbl.is Forsetinn staðfestir Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband