Hver er venjan?

Ég vissi ekki að Reykjavíkurborg væri að styrkja stjórnmálaflokka. Það væri gott að fá það fram með hvaða hætti sveitarfélög styrkja framboðslista, hvort framlögin séu lögbundin eða sveitarfélög frjáls að því með hvaða hætti þetta sé gert?

Hver er venjan í þessu máli? Fer ekki féð til sveitarstjórnarlistanna eða er þetta greitt til flokkanna á landsvísu? Og eftir hvaða formúlu er framlagið reiknað?

Það standa engin rök til þess að þetta fé fari til stjórnmálaflokka á landsvísu nema þeir standi þá að kostnaði við viðkomandi framboð í sveitarfélögum og greiði það til baka.

Svo er nauðsynlegt að halda því til haga hversvegna Ólafur Magnússon klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma. Það var út af umhverfismálum. Hann var ekki sáttur við stefnuna. 

Og mig minnir að hann hafi verið andvígur því að borgin veitti Landsvirkjun ábyrgð fyrir sitt leiti á Kárahnjúkavirkjun.

Það væri gott að fá meiri almennar upplýsingar um þessi mál svo fólk geti áttað sig á málavöxtum.


mbl.is Saka Ólaf F. um fjárdrátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár hliðar á málinu

Það eru þrjár hliðar á þessu máli.

Í fyrsta lagi hefur Guðjón mikla þekkingu á sjávarútvegsmálum og er mjög fínn í þetta. Svo getur Jón Bjarnason hugsað sér að kvelja líftóruna úr LÍÚ með því að setja svona þungavigtarmann í þetta sem menn verða að hlusta á.

Í öðru lagi getur þetta verið klókt af Jóni að losa sig við andstæðing í stjórnmálum og festa hann í sessi í ráðuneytinu og jafnvel gera Sigurjón Þórðarson að  fiskistofustjóra svo frekar um hægist í kjördæminu.

Í þriðja lagi verður ekki pláss fyrir nema 6 þingmenn í Norðurlandskjördæmi vestra þegar búið verður að laga atkvæðamisvægið til Alþingiskosninga. Svo það er ekki seinna vænna fyrir menn og konur að koma sér vel fyrir. Það verður allt í lagi fyrir Ásmund Daðason, hann hverfur bara að eigin búi, enda hefur hann væntanlega aldrei gert ráð fyrir því að verða þingmaður.


mbl.is Guðjón Arnar í sjávarútvegsráðuneytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víkja fyrir Bretum?

Ég hef stundum verið veikur fyrir gömlum gildum í Sjálfstæðisflokknum sem voru upp á dögum Bjarna Benidiktssonar. Það voru einstaklingsframtak, ráðdeildarsemi og ábyrgð.

Bjarni Benidiktsson yngri reifaði Icesave- deiluna með flokksmönnum í dag. Þar komst hann aðallega að því að ríkisstjórn Íslands ætti að segja af sér ef afgreiðsla Alþingis Íslendinga yrði ekki þóknanleg Bretum og Hollendingum.

Að mínu mati væri það veikleikamerki að ríkisstjórnin hyrfi af vettvangi, þó andstæðingar hennar í útlöndum séu með múður. Þeir eiga ekki að ráða á Íslandi.

Ég held svo sem að það væri allt í lagi að fá þá að samningsborðinu aftur. Síðan væri hægt að vera þrefa um Icesave langt frameftir næstu öld og þvæla málið á alla kanta, þannig að Evrópusambandi fari  að sjá að slíkt málþras skaði hugmyndafræðina sambandsins.

Bretar og Hollendingar eru búnir að greiða innistæðueigendum  í viðkomandi löndum og eru þar með búnir að brjót meginreglur Evrópska efnahagssvæðisins um samkeppnisreglur með þessum ríkisstuðningi. Þetta hefur forstjóri samkeppnismála Evrópu bent á. Bretar og Hollendingar eru búnir að stórskaða Evrópurétt í samkeppnismálum. Bretar eru líka búnir að sýna, friðsamri smáþjóð vítaverða framkomu með setningu hryðjuverkalaga á blásaklausa Íslendinga. Það mun smátt og smátt spyrjast út meðal Evrópuþjóða og ekki auka á heimilisfriðinn á þeim bæ.

Aftur á móti gæti ég haldið að það myndi styrkja málstað Íslendinga ef Sjálfstæðisflokkurinn sækti um aukaaðild að ríkisstjórn Íslands. Og þeir ættu að flýta sér að því áður en umsóknarfrestur rennur út.


mbl.is Víki verði fyrirvörum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumbýlingar og leiguliðar

Er engin fulltrú frá ungu fólki svo sem frumbýlingum og leiguliðum? Hafa þeir ekki einhverra hagsmuna að gæta? Ég hefði haldið það.

Svo hefði ég viljað sjá einhvern aðila sem væri, hvað eigum við að segja, óhlutdrægur eða óvilhallur.

Einhver aðili frá almannasamtökum.

Ég get ekki séð að stórbændur í nefndinni fari að opna sveitirnar sem þeir  hafa víggirt með kvótum og búvörusamningum. 

Bændasamtök Íslands eru þröngur hópur hagsmunasamtaka og væntanlega munu fulltrúar þess draga taum þeirra sjónarmiða sem gilt hafa í Bændahöllinni s.l. 25 ár. Ekki þar fyrir að þetta er vafalaust hið besta fólk.

Og ráðuneytismennirnir eru sjálfsagt bjartleitir í framan og sómamenn og vilja vel.

En ég er svolítið hissa á að Ámundi Loftsson fyrrverandi formaður Rastar sé ekki í nefndinni. En Bændafélagið Röst barðist á sínum tíma fyrir réttlæti í landbúnaði og voru félagsmenn nokkur hópur frjálsra bænda sem neituðu að láta kúga sig og voru kallaðir skæruliðar í landbúnaði.

Þeirra hlutskipti flestra varð það að fara í skipulagt undanhald úr sveitum landsins og aðrir eru dauðir og blessuð sé minning þeirra.

Ég vona að nefndarmenn lesi ritið Stjórnkerfi búvöruframleiðslunnar og stjórnskipan Íslands eftir prófessor Sigurð Líndal, sem Röst gaf út í samvinnu við Úlfljót tímarit laganema við Háskóla Íslands.


mbl.is Andvíg breytingu jarðalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afbragðs ræða

Ég hlustaði á ræðu Sigmundar Ernis og mér fannst ræðan hreint afbragð. Vel og skipulega flutt, með tilþrifum. Það er nú meiri ósiðurinn sem viðgengst í þingsal þegar þingmenn eru sí gjammandi frammí. Sigmundur Ernir sagði bara satt um einkavæðinguna og hið ábyrgðalausa markaðskerfi sem hefur riðið húsum. Það þola sumir stjórnmálaflokkar ekki sem tóku þátt í sköpun þessa hugmyndakerfis og framkvæmd þess.

Ég held að ákveðnir þingmenn ákveðins flokks séu orðnir myrkfælnir vegna þess að þeir eru með lík í lestinni og óuppgerð mál og þess vegna eru þeir sí gjammandi í sætum sínum vegna þess að þeir eru óstyrkir þegar þessi mál ber á góma.

Hvort þingmaðurinn hafi verið búinn að neyta áfengis gat ég ekki áttað mig á þegar ég hlustaði á ræðuna og horfði á þingmanninn. Það var þá frekar í andsvörum að greina mætti það. Fyrst og fremst vegna þess að búið var að gefa það í skin. ( Var tekin prufa?).

Því er ekki mælt hér bót að þingmenn hafi smakkað áfengi við störf sín. Verra þykir mér ef þeir eru svefndrukknir og ég held að Vinnueftirlitið ætti að fara athuga hvíldartíma alþingismanna. Sennilega er nauðsynlegt að setja vökulög á þá eins og var gert hér á árum áður við togarasjómenn. Það er ekki gott fyrir almenning að sitja upp með gölluð lög.

Mér skilst að þetta áfengismál verði rætt af stjórn þingsins, sem sér mál.

Verður þá þá áfengisráðgjafar sendir í réttir og göngur í haust að tékka á bændum?

Sigmundur Ernir fer í meðferð, ef hann þarf þess. Það kemur bara í ljós eins og um alla sem ráð ekki við áfengi.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðakaupasjóður

Ég er að hugsa um að fara í slóð Jóns Hreggviðssonar til Amsterdam og Danmerkur til að safna fé á innlánsreikninga og þykjast borga fólki góða vexti. Ég mun náttúrlega þiggja góð ráð hjá Hreiðari Má um aðferðafræðina, en hann ku verð búin að opna ráðgjafarstofu í útlöndum, sem er virðingarvert að menn reyni að bjarga sér þó á móti blási.

Ég hafði hugsað að vera með færanlegt útibú, svona hjólhýsi.

Síðan mun ég flytja þetta fé til Íslands, þar sem frjálst fjármagnsflæði er heimilt samkvæmt ESS-samningnum. Að því loknu hyggst ég kaupa jarðir af Landsbanka Íslands, en hann er víst að eignast jarðir sem voru keyptar í góðærinu, að sögn formanns fuglaveiðifélags, en jarðirnar eru nú að tínast inn í bankann. Þetta er víst ókey og heimilt og ég geri ekki ráð fyrir að borga þetta til baka þar sem fjárlaganefnd Alþingis mun sjá afganginn. Allar framangreindar athafnir eru móðins, löglegar og refsilausar samkvæmt tíðarandanum.

Þessar athafnir heita hringrás fjármálakerfisins og njóta velvildar stjórnmálakerfis Evrópu.


mbl.is Íslendingar verðskulda samúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður á sér jafnan góðs von

,,Góður á sér jafnan góðs von", segir gamalt máltæki Að vera með svona hótanir sem setur líf fjölda fólks úr skorðum er ófyrirgefanlegt og ber að harma það.

Reynum að standa saman um hið góða. Nógir eru erfiðleikar okkar samt og fara vaxandi.

En með samstöðu og hafa gætur hvert á öðru, taka utanum hvert annað í hófi og á réttum augnablikum, munum við sigrast á erfileikunum.

Hættum vitleysisgangi í skólum.

Þar eigum við að efla eigin hag til framtíðar, með námi, félagsstörfum og að bæta okkur og umhverfi það sem við lifum í.


mbl.is Hótunin strax tekin alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lambhrútur í Blöndugili

Margt gerist í göngum og réttum

Eitt sinn var ég í eftirleit á Auðkúluheið. Fórum við tveir saman frá Kolkuskála, færsluritari og Sveinn Þórarinsson sem var maður laufléttur til göngu. Héldum við norður heiðina gangandi. Kom það í minn hlut að ganga Blöndugil. Gekk ég nú norður gilbarminn og bar ekkert til tíðinda fyrr en ég kem út í Landsendahvamm sem er nyrsti hluti Blöndugils fyrir framan eyðijörðina Þröm.

Þegar ég skyggnist niður í hvamminn sé ég að allvænn lambrútur stendur bísperrtur á stórum steini og sneri í norðvestur sem og var vindáttin. Nú voru góð ráð dýr. Ef lambhrúturinn styggðist taldi ég að ég mundi ekki koma honum upp úr gilinu, hann færir fljótt í kletta eða ófærur auk þess að hann væri fljótur að uppgefa mig.

Fóstra mín sagði mér í æsku, hvernig refur veiddi rjúpu í skafrenningi. Hann einfaldlega læddist að henni  hlé megin við vindinn. Ákvað ég að reyna þetta, auk þess að mikill niður var í ánni  sem yfirgnæfði öll hljóð eða þrusk og kæmi sér vel fyrir mig. Taldi ég skárra að drösla hrútnum upp og uppgefast við það, fremur en að uppgefast við eltingaleik og tapa hrútnum í björg.

Mér til töluverðar undrunar tókst þetta bragð og greip ég hrútinn. Síðan var þrautin þyngri að koma honum upp úr gilinu. Það tókst samt og var ég örmagna þegar upp var komið.

Eftirleikurinn var auðveldur og setti ég bandspotta í hrútinn og var hann leiðitamur upp á vega þar sem gangnafélagar mínir biðu mín.

Best gæti ég trúað að þessi hrútur hafi verið af Séraguðmundarkyninu.


mbl.is Vika í fyrstu réttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirvari - Varnagli

Þegar skrifað er undir samning með fyrirvara þá er settur ákveðin varnagli eða skilyrði við samning.

Þannig getur kaupandi húseignar sett fyrirvara um galla eða eitthvað sem er óljóst og hefur hann þá ekki skyldum að gegna við gagnaðila ef það reynist rétt og á jafnvel rétt á bótum.

Skrifað var undir Icesavesamningurinn með fyrirvara Alþingis. Alþingi treystir sér ekki til að samþykkja samninginn nema með fyrirvara um ýmis atriði svo sem lagalegan fyrirvara og efnahagslegan fyrirvara.

Það má í raun segja að það sé rétt sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að innihald samningsins hafi ekki breyst, en ef eitthvað kemur í ljós að við höfum ekki bolmagn til að fullnusta samningin þá gilda fyrirvararnir. Alþingi er endanlegt vald þjóðarinnar.

Ef Bretar og Hollendingar amast eitthvað við þessum fyrirvörum getur það leitt til þess að þeir telji samninginn ekki gildan þá verður það bara að koma í ljós.

Ef þessi mál færu fyrir óvilhallan alvörudómstól, þá má búast við að regluverk ESB um frjálst fjármagnsflæði riði til falls vegna þess að það er gallað.

Ekki báðu Íslendingar, Breta og Hollendinga, um að greiða innistæðueigendum í viðkomandi löndum inneignir sínar upp í topp. Það gerðu þeir af pólitískum ástæðum heima fyrir. Það stríðir í raun gegn aðalhugmyndafræði Sambandsins og er sennilega ólöglegt og hefur forstjóri samkeppnismála ESB gert athugasemdir við ríkisafskipti ríkisstjórna varðandi hlutafélög.

Samkvæmt theoríunni eiga þau einfaldlega að fara á hausinn hvort sem það er banki eða trésmiðaverkstæði.


mbl.is Fyrirvararnir hljóta að halda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynum að gera það besta úr hlutunum

Vélaver hefur lagt inn gjaldþrotabeiðni í dag. Svona fer þetta. Það er erfitt fyrri alla að standa frammi fyrir svona löguðu og sérstaklega fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra.

En fréttin er skrýtin. Eru kröfuhafar búnir að ákveða að stofna nýtt félag á gruni þess gamla? Og til hvers er það, ef sala landbúnaðarvéla hefur dregist saman um 90%.

Er ekki hætt við að samdrátturinn verði áfram? Og er ekki nauðsynlegt, ef til vill að horfa til vélasölunnar sem heildar og hvernig henni verður best komið næstu árin? Varla verður hægt að reka fyrirtækið á 10% söluhlutfalli. Verða bændur á Ursusum í framtíðinni?

Aftur á móti má búast við að aukning verði á viðgerðum véla. Við verðum að búa okkur undir að enda hlutina betur og jafnvel hafa það sem hliðarbúgrein að afla varahluta úr gömlu og þar kemur verkstæðisvinnan til sölunnar.

Í gömlum bílum og vélum felst mikill verðmætur gjaldeyrir í nothæfum og uppgerðum varahlutum. Allt þetta þarf að nýta vel og þarf ekkert að skammast sín fyrir.


mbl.is Vélaver í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband