Að þekkja hafsbotninn

Hafrannsóknarstofnun hefur fundið risastórar holur  á hafsbotni á Drekasvæðinu. Nú er mjög móðins að ræða um það hvort olía finnist á þessu svæði eftir að Össuri ráðherra hefur tekist að tala málið upp. Ég tel það nefnilega skyldu að vera á varðbergi þegar ráðherrar fara að tala mál upp.

Hafró telur að það sé mjög dýrmætt að þekkja hafsbotninn sem ekki skal á móti mælt. En hver er vitneskjan um hafsbotninn? Ýmsir sjómenn og áhugamenn um vistfræði hafa haldið því fram að stóru veiðarfærin sem dregin eru eftir sjávarbotni við veiðar hafi skaðað lífkerfi sjávar og sléttað botninn þannig að búsvæði ungviðisins hafi laskast. Því er rétt að spyrja er þetta rétt? Eru til einhverjar upplýsingar um hvernig sjávarbotninn var áður en farið var að nota þessi veiðarfæri og svo hvernig er hann núna? Eru einhverjar rannsóknir í gangi sem varpað geta ljósi á þessi mál? Spyr sá sem ekki veit.

Sumarið 2008 kom frétt í Ríkisútvarpinu um að óvenju mikið væri um smáseiði í sjónum hér norður um. Strax á eftir kom fiskifræðingur með skýringuna. Sjórinn var svo heitur. Ekki veit ég hvort þetta var rétta skýringin en mér datt einmitt í hug hvort smáseiðin væru heimilislaus.

Einhverju sinni heyrði ég um það að menn hefðu gert tilraun við Vestmannaeyjar með það að henda bílflökum í sjóinn á takmörkuðu svæði. Það stóð ekki á því að það fylltist allt af seiðum og smáfiski á svæðið.  Það væri gaman að Hafró væri með svona tilraunir. Ef til vill eru þeir á fullu í tilraunastarfi, ég þekki það bara ekki nógu vel.


mbl.is Dýrmætt að þekkja hafsbotninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn úr veikindaleyfi

Geir H. Haarde er kominn til starfa sem þingmaður Reykvíkinga eftir stutt veikindafrí.

Það er ástæða til að óska honum góðs bata. Hann hefur verið forsætisráðherra við mjög óvenjulegar  og erfiðar aðstæður í sögu þjóðarinnar. Hann hefur staðið sig vel sem manneskja á þessum erfiða tíma. Um pólitíkina eru hinsvegar deildar meiningar.

Hann taldi að svipur þingsins hefði breyst og nú sætu þeir prúðir Steingrímur og Ögmundur í sætum sínum. Síðan ræddi hann um mannaskipti og varaði við hreinsunum í kerfinu.

Aðalatriðið er lögum um Seðlabankann verður væntanlega breytt og störf bankastjóranna lögð niður. Það var náttúrlega bara kurteisi af Jóhönnu að bjóða bankastjórunum að hætta í friði svo að þeir yrðu ekki fyrir aðkasti, en þeir ákváðu að taka slaginn og eiga sinn lögvarða rétt eins og aðrir opinberir starfsmenn.


mbl.is Geir óttast um bankaráðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta vita af sér

Frá því í haust hef ég verið að skjóta mér inn á bloggsíður með athugasemdir. Ég hef mjög gaman af umræðum um þjóðmál og nú hef ég ákveðið að stofna bloggsíðu. Það geri ég til að það liggi fyrir hver ég er og skapar öryggi að ekki sé verið að nota nafn mitt í skrifum.

Ég læt það ráðast hversu duglegur ég verð að skrifa á bloggsíðuna og lofa engu um það. Það hentar mér frekar að fara á bloggsíður og gera athugasemdir og mér finnst hálfpartinn að maður sé þannig á málfundi og þátttakandi í einhverju sem er að gerast.

Ég vil þakka bloggurum sem hafa leyft mér að koma með athugasemdir.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband