Húnvetningar endurreisa klaustur á Þingeyrum á hreppaþorrablóti

Var að koma af mögnuðu Hreppablóti Húnavatnshrepps.

Þar var fjölbreytt dagskrá. Eitt skemmtiatriði fjallaði um að endurreisa Þingeyrarklaustur í gamansömum tón. Jón í Hnausum var skipaður ábóti. Hann er aldurhniginn og barnlaus bóndi. Kristján í Vatnsdalshólum var skipaður æðstiprestur. Einum einhleypum barnlausum bónda var boðin vist. Hann hafði ekki áhuga, en sagði að hann mundi gjarnan sækja um yrði stofnað nunnuklaustur og var látið þar við sitja. Glaðlegur bóndi og barnmargur á annarri konu á sinni yfirreið í lífinu kom að máli við ábóta og beiddist vistar. Ábóti baða hann greina frá fjölskylduhögum og kom þá allt hið rétta í ljós. Ábóti taldi öll tormerki vera á inngöngu, en spurði af hverju hann beiddist vistar, Jú svaraði bóndi , þá fæ ég hádegismat, konan mín er farinn að vinna utan bús.

Margt fleira var til skemmtunar og þar á meðal leitarflug um afréttir í gamansömum tóni en Magnús á Sveinstöðum flaug með bændur og notaði allar stundir til að selja mönnum fasteignir, en hann er fasteignasali á Blönduósi.

Annállinn var að vanda metnaðarfullur þar sem gert var grín að bændum og búaliði og þurfti tvo til að flytja hann.

Kúltúrinn er að öll skemmtiatriði eru heimagerð og flutt af heimafólki öfugt við það sem víðast gerist þéttbýli þar sem flest skemmtiatriði eru aðkeypt, meira að segja veislustjórnin. Ekki var búið að tilnefna eða fá veislustjóra daginn fyrir þorrablótið og var þó búið að tala við alla Magnúsa í Sveinstaðahreppi hinum forn, en þar er mökkur af mönnum sem heita Magnús, nærri á öðrum hverjum bæ. Endaði málið svo að Bjarki á Breiðavaði var ræstur út á miðnætti og fór hann létt með það nær því óundirbúinn. Flottur Bjarki. Dagskráin endaði svo á að Gísli á Mosfelli tók fráfarandi skemmtinefnd og gerði grín að henni. Það er venja að menn taki lagið í fjöldasöng og safnast fólkið niður á dansgólf og söng af mikilli innlifun í hálftíma.

Trukkarnir léku fyrir dansi og var glaðværð mikil og þreifingar og þrýstingur.

Áberandi var hve margt ungt glæsilegt fólk er að vaxa upp í héraðinu. Þrekvaxnir ungir menn og íturvaxnar stúlkur og væri vel hægt að efn í nunnuklaustur þó með frjálslegu ívafi líkt og Kvennaskólinn á Blönduósi var.

Gengu menn svo til búa sinna og voru sumir orðnir áskrifendur að kvenmanni, þegar yfir lauk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þorrablót víða um land eru bestu samkomur sem ég þekki.

Ómar Ragnarsson, 8.2.2016 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband