Finnbjörn Þorvaldsson ættaður frá Fæti undir Folafæti í Ísafjarðardjúpi

Frændi minn, Finnbjörn Þorvaldsson hefði orðið 100 ára í dag 25. maí 2024. Hann var ættaður frá Fæti undir Folafæti í Ísafjarðardjúpi en fæddur árið 1924 í Hnífsdal. Hann var sonur Þorvaldar Matthísar Magnússonar, bátsmanns og forsöngvara við Eyrarkirkju við Seyðisfjörð vestari. Þorvaldur var kallaður Íslandströll í togaraflotanum slíkt var afl hans. Þetta sagði Arnbjörn bróðir minn mér, en Arnbjörn tók þroska sinn á sjó undir verndarhendi Þorvaldar. Móðir Finnbjörns var Halldóra Finnbjörnsdóttir fædd í Fremri-Hnífsdal. Þau hjónin byrjuðu búskap sinn fyrir vestan en bjuggu svo um tíma í Garðabæ og síðan í Reykjavík.

Finnbjörn Þorvaldsson er einn af ástsælustu afreksmönnum Íslands. Hann var fæddur í Hnífsdal, menntaður í Samvinnuskólanum og síðan skrifstofustjóri hjá Loftleiðum í Reykjavík. Kona hans var Theodóra Steffensen.

Hæfileikar Finnbjörns á sviði íþróttanna komu fljótt í ljós. Hann var félagsmaður í ÍR. Hann var liðtækur í mörgum greinum. Þar má nefna handknattleik, en hann lék með Íslandsmeistaraliði ÍR 1945. Þá vann hann til afreka í körfuknattleik og fimleikum.

Finnbjörn er þó þekktastur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum, sérstaklega spretthlaupum. Þar vann hann fjölmarga Íslandsmeistaratitla. Hann vann oftar en einu sinni landskeppnir á íþróttaferli sínu og Íslandsmet sem hann setti voru fjölmörg, svo skipti tugum. Einnig varð hann Norðurlandameistari nokkrum sinnum.

Mestu afrek Finnbjörns voru þó án efa þegar hann komst í úrslit í 100 m hlaupi á Evrópumeistaramóti í Ósló 1946 og þegar hann tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948. Þar var hann fánaberi sinnar þjóðar.

Prúðmennska og drengskapur í keppni voru einkennandi í fari Finnbjarnar. Hann var alltaf fyrstur til að óska sigurvegurum til hamingju og aldrei urðu keppinautar hans né samferðamenn hans varir við hroka. Hann var ætíð í öllu fari drengur góður.

Tekið saman af Þorsteini H. Gunnarssyni: Heimild ÍR.

 

 


mbl.is Blés þjóðinni eldmóð í brjóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, ég þekkti fjölskylduna. Foreldrar hans bjuggu í kjallaranum í húsi bernsku minnar, Kvisthaga 1, og Halldóra var sérleg vinkona fjölskyldunnar. Það var alltaf gaman að tala við hana, og hún gætti mín oft, þegar foreldrar mínir þurftu að bregða sér af bæ. Ég kynntist strákunum hans Finnbjarnar, sem voru á mínum aldri. Baldvin Þ. Kristjánsson sonur Halldóru kom oft þanra líka, og þegar Þorvaldur kom úr sjóferðunum, þá færði hann mér oftar en ekki ýmislegt, t.d. þessar McIntosh dósir fullar af sælgæti, sem vor þá óþekktar á mein tíma(æa sjötta áratug síðustu aldar). Faðir minn bað hann einu sinni um að kaupa fyrir sig dúkkuvagn í Bretlandi, því að þau foreldra mína langaði til þess að gefa mér dúkkuvagn. Og sá dúkkuvagninn var sko ekkert slor, heldur var alger eftirmynd barnavagnanna. Ég var mikið niðrí kjallaranum hjá Halldóru, og á góðar minningar um þessa vini okkar, og saknaðak þeirra, þegar þau seldu kjallaraíbúðina og fluttu inná Laugarnesveg. Við komum þangað að heimsækja þau, en annars var sambandið milli okkar ekki eins mikið og meðan þau bjuggu í húsinu hjá okkur. Blessuð sé minning þeirra allra.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2024 kl. 21:13

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Kærar þakkir fyrir þetta innlegg Guðbjörg Gaman að fá svona frá fólki sem þekkti fjölskylduna. Það var einhver dýrðarljómi yfir Finnbirni og auðvitað vorum við öll orðin þjóð eftir lýðveldisstofnunina. Móðir mín Aðalheiður Magnúsdóttir frá Gunnarseyri í Djúpi var hálfssystir Valda og það var samband milli þeirra og hann kom í heimsókn þessi stóri og sterki maður, við Arnbjörn vorum mjög hrifnir af Valda og Arnbjörn naut þess mest að umgangast hann. Fyrri kona Magnúsar afa var Júlíana Þorvaldsdóttir, Þorsteinssonar frá Fæti. Þar er alveg magnað umhverfi. Út á nesinu var tómthúsmannabyggð og því margt um mannin á þessum slóðum. Seinni kona afa Magnúsar var Karítas Skarphéðinsdóttir sem var þekkt úr verkalýðsbaráttunni fyrir vestan. Mér finnst þessi tenging ví Fólafótinn eitthvað svo falleg og spennandi að tengja við það svæði. Sonur minn Þórólfur fór um það svæði fyrir tveim sumrum og kom til bak með stjörnur í augunum. Nú á íslenskur jarðfræðingur Folafót. Hann býr í Sviss. Konan sem keypti fyrst fann engan veg út á svæðið enda hefur engin jarðýta komið á þetta svæði. Ég fór þarna um 1971 og þá sem hrútadómari og þá var verið að opna veginn í Hestfirði og selirnir voru alvega steinhissa á þessu tilstandi, það lág við að hægt væri að klappa þeim. Bestu kvejur til þín Guðbjörg Snót, það er fallegt nafn, ÞHG.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 27.5.2024 kl. 08:06

3 identicon

Þakka þér fyrir upplýsingarbar, Ég kannast við að hafa heyrt Karítas nefnda, og kannske hefur hún bennt Halldóru og Þorvaldi á íbúðina í kjallaranum hjá okkur, því að Karítas hefur örugglega þekkt föður minn, en hann hét Jón Sigurðsson og var á þessum tíma framkvæmdastjóri ASÍ en varð síðar stofnandi og fyrsti formaður Sjómannasambands Íslands. Hann var einmitt mikið á Vestfjörðum á vegum Alþýðusambandsins, en áður en hann varð framkvæmdastjóri, þá var hann erindreki sambandsins, og hjálpaði mikið til við stofnun félaga víða um land, var mikið á Ísafirði og dvaldi þá oftar en ekki hjá vini sínum Finni Jónssyni alþingismanni, en ferðaðist að öpru leyti mikið um firðina þarna fyrir vestan, var líka mikið á Patreksfirði og dvaldi þá hjá afa og ömmu Sighvatar Björgvinssonar. Verkalýðsbaráttan var allt önnur þá en nú. Það heyrði ég á frásögnum hans af þeim árum, sem hann ferðaðist mest um landið.Það er ekkert ósennilegt, að hann hafi þekkt Þorvald af ferðum sínum vestur á Firði, og þess vegna hafi þau HAlldóra keypt kjallaraíbúðina. HAlldóra var afar yndæl. Móðir mín sagði mér frá því, að eftir skírn mína heima á Kvisthaganum, þá hafi Halldóra farið með skálina með vatninu út, gengið í kringum húsið og skvett vígðu vatninu á húsið til þess að halda öllu illu frá því, eftir því sem HAlldóra sagði sjálf. Þegar við heimsóttum þau Þorvald inná Laugarnesveg, þá var hún nærri því að verða blind, en hafði ekkert breyst að öðru leyti og fagnaði gömlum vinum innilega.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.5.2024 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband