Það er við margskonar aðstæður sem ég hef haldið jól. Oft í ferðatöskum eða þannig á einhverju flandri. Ég hef verið einu sinni á jólum með báðum foreldrum, vegna aðstæðna þeirra, þau voru ágæt og allt í hinni súper reglu.
Oftast hef ég verið með ferðatöskuna mína með mér og helsta klæðnað sem átt hefur við. Mörgum sinnum hjá systrum mínum og fengið að njóta nálægðar frændfólks míns, sem ég þakka svo sannarlega.
Bernskujól í sveit
Ég er alinn upp í torfbæ - burstabæ - sem var allur viðarklæddur að innan. Hann var ekki stór en notalegur og þar bjó bjargálna fólk. Jólin voru sérstakur tími.
Á aðfangadag kláruðu piltarnir gegningarnar á fyrra fallinu. Fjárhús voru birgð svo sem kostur var til að ekki fennti inn og dýrunum liði vel. Það var farið snemma í fjósið og ekki örgrannt um að kúm væri frekar hyglað með meiri töðugjöf og mingrað mjólkurdreitli í kálfinn. Við það var miðað að vera kominn inn fyrir útvarpsmessu kl 18 þegar heilagt var orðið.
Mikill hangikjötsilmur var í bænum og þegar farið var að líða að því allra heilagasta voru ljós tendruð, olíulampar, olíulugtir og kerti og sett inn í hvern króka og kima og var þetta allt saman mjög hátíðlegt.
Ég lenti í miklu taugastríði fyrstu jólin mín í sveit árið 1954 þá 8 ára gamall. Átti von á jólapökkum frá fjölskyldu minni, en á Þorláksmessu hafði engin pakki borist í hús og færð farin að þyngjast í sveitinni.
Ekki var laust við að ég væri kominn með skeifu og væri farinn að beygja af og orðinn heldur hnípinn. Fóstra mín taldi í mig kjark og fullvissaði mig að gjafirnar rötuðu á leiðarenda.
Á Þorláksmessukvöld, seint, kom mjólkurbíllinn en bílstjórinn átti heima í næsta hrepp, Bóas Magnússon blessuð sé minning hans og kom hann með alla jólapakkana.
Ég varð glaður og átti góð jól í 94 ára gömlum burstabæ að Syðri-Löngumýri.
Jólaferðalag norður í Miðfjörð og Blöndudal 1964
En alltaf var ferðataskan ekki langt undan eða Volkswagen í nóvember 1964. Þá var farið í fyrstu langferðina á þeim bíl. Þrír farþegar voru í bílnum, tveir karlar aftur í með pela og svo stúlka sem var að fara í jólafrí til foreldra.
Hún var alltaf að sífra í mér að fá að keyra. Ég var nú ekkert spenntur fyrir því. Við skiptum þegar komið var í Andakílinn og þar tók hún við og ók ágætlega þangað til við komum að Hvítárbrú og leist henni ekkert að aka yfir svona háa brú en það gekk. En þegar yfir var komið, þá sagði hún mér í texta síðar að helst hélt hún að bíllinn færi á bergið en þar er 90 gráðu beygja og bíllinn myndi breytast í harmonikku. Þannig var hún búin að hugsa þetta atriði, enda var hún að læra leiklist og hefur verið hugmyndarík hvernig svona atriði yrði best til endursagnar. Það gerðist ekki en bíllinn lenti á snjóruðningi og stoppaði þar og mærin skalf og nötraði við þetta sjokk, en náði sér fljótt. Hjólhlíf hafði losnað og tók ég hana bara af og setti hana í skottið og tók við akstrinum og gekk greiðlega þar til komið var að Fornahvammi og farið að snjóa og var kominn nokkur snjór í lausamjöll. Yfir heiðina fórum við og komumst í Miðfjörðinn hindrunarlaust. Þar átti annar félagi minn heima og þyngdist heldur færðin og lækkaði í pelanum. En heim komst strákurinn og við héldum áfram. Það sem bjargaði var að bíllinn var á keðjum og með mótorinn í að aftan þannig að hann dreif mjög vel enda var snjórinn púðursnjór, en það mátti ekki miklu muna.
Ferðin gekk vel þegar á veg 1 var komið og hægt að aka keðjulaust og var nú hægt að aka hindrunarlaust, því búið var að skafa.
Þegar í Þingið var komið var mærinni komið heim og hún byrgð upp með Makkintoshi og sagði hún mér að annað eins ílát hefði aldrei komið á svæðið. Því gat ég svo sem trúað, drakk kaffi með félaga mínum, en farið var að skafa og ótryggt að drolla. Vel gekk ferðin í Blöndudalinn þangað sem ferðinni var heitið til að halda jól sem alltaf var gaman, með hangikjötsilminn sem var svo sterkur á þessari árstíð því mikið var reykt á sveitaheimilum.
Jólafríið gekk mest út á það að berjast við hrúta og koma þeim í ærnar og gera við skilrúm í hrútakofa en þar var allt brotið og bramlað eftir hrútana. Fínt að komast í sveitina og finna þessa samheldni sem finnst sterkt þegar heim er komið.
Jól í Grindavík
Móðir mín, Aðalheiður Magnúsdóttir, bjó í Grindavík um skeið í stóru húsi sem heitir Lágafell. Maður hennar hét Magnús Helgi Helgason, oft sjómaður. Þau eru bæði látin, en mamma hélt alltaf stóra veislu á jóladag og þangað komu allir sem vettlingi gátu valdið. Þetta voru fínar veislur og mikið skrafað um það sem var efst á baugi. Nokkuð var rætt um refa- og rjúpnaveiðar, en Magnús var félagi Hinriks í Merkinesi og báðir með betri skyttum á landinu.
Um sex leitið fór fólk að tygja sig til heimferðar. Framundan var að snúa á Stapa drauginn og borga vegagjaldið, sem þá var búið að koma því á.
Jól á sjó
Skipaútgerð ríkisins, notaðist við leiguskip á Ströndina þegar hún var að gefa upp öndina. Um 1968 var hún með danskt leiguskip sem hélt úti áætlun á Ströndina. Mágur minn var þar innanbúðarmaður og bað mig að taka einn túr yfir jólin sem ég og gerði.
Það var eftirminnilegt. Sérstaklega hlökkuðu skipverjar til að gera vel við sig af jólamatnum. Bæði á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld var byrjað á staupi af Gammeldansk eða ákavíti. Þessar veislur voru á danska vísu, forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Bjór var drukkinn með matnum, nema þeir sem voru með vakt á stjórnpalli. Það var soldið fjör í þeim dönsku og mikið sungið eftir kvöldverðina. Mjög gaman. Um áramótin vorum við svo heppnir að vera á Sauðárkróki og komumst á áramótadansleik. En lítið gat maður dansað, því píurnar voru eiginlega allar með kærastanum og þeir dönsku sem áttu einhver einkennisföt með strípum og merkingum voru mjög eftirsóttir. Þannig að við óbreyttir á dekkinu vorum frekar afskiptir og framlágir. Svo endaði ballið með rakettusýningu, sem töluvert var sett í og þar hjálpuðu skip sem voru í höfn með skiparakettum, sem var vinsælt. En samt ágætis skemmtun og nógur bjór fyrir þá sem notuðu hann.
Fjósamaður á Hvanneyri jól og áramót 1965-66
Fjósamann vantaði á Hvanneyri yfir jólin 1965 en fjósameistarinn bjó á Hvanneyri, þannig að ég tók að mér að vinna yfir jól og áramót, en ég var á Bændaskólanum á Hvanneyri sem vetrungur í bændadeildinni. Þarna gafst manni tækifæri að skemmta sér með Borgfirðingum. Vinur minn, Þráinn Elíasson, var yfir jól og áramót hjá systur sinni sem bjó á Hesti eða í Lundareykjardal og höfðum við kompaní með að fara á skemmtanir. Stefnt var á að fara í Brautartungu, þar var áramótaball. Þráinn átti Ópeldruslu sem farið var á og kom einhver gæi frá Hesti með, sem sáum víni, svona barþjónn. Ekki man ég eftir hvar maður var með fæði yfir jólin, fjósameistarinn hefur væntanlega séð um það. En það þurfti heimamann til að koma söngvatninu inn. Það var nú talið auðvelt, bara biðja um leyfi, þá smaug maður inn og lenti ekki í neinum vandræðum. Þarna man ég að var mikill glaumur og gleði langt undir morgun að gömlum íslenskum sveitasið svo maður rétt slapp til að komast í fjósið.
Farandjólakona frá æsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 24.12.2023 | 18:13 (breytt 15.12.2024 kl. 16:34) | Facebook
Myndaalbúm
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 326
- Sl. sólarhring: 371
- Sl. viku: 476
- Frá upphafi: 573794
Annað
- Innlit í dag: 302
- Innlit sl. viku: 420
- Gestir í dag: 293
- IP-tölur í dag: 287
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.