Hér biri ég grein um Gunnar á Hjarðarfelli sem kom í Morgunblaðinu í dag eftir Sturlu Böðvarsson bæjarstjóra í Stykkishólmi. Hún er tekinn af vef Mbl.is og er greidd.
Gunnar var magnaður félagsmálamaður, góðviljaður, en gat verið harður í horn að taka.
Gunnar Guðbjartsson, bóndi á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi, formaður Stéttarsambands bænda og framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, fæddist á Hjarðarfelli 6. júní 1917 og eru því liðin 100 ár frá fæðingu þess mæta manns. Eiginkona Gunnars var Ásthildur Teitsdóttir frá Eyvindartungu í Laugardal, Árnessýslu, dóttir Sigríðar Jónsdóttur og Teits Eyjólfssonar sem þar bjuggu.
Gunnar var sonur hjónanna Guðbröndu Þorbjargar Guðbrandsdóttur húsfreyju og Guðbjarts Kristjánssonar, bónda og hreppstjóra, sem bjuggu nær allan sinn búskap á Hjarðarfelli. Guðbranda Þorbjörg var fædd í Klettakoti á Búðum í Staðarsveit en ólst upp hjá foreldrum sínum í Ólafsvík þar sem faðir hennar var verslunarmaður.
Guðbjartur Kristjánsson, faðir Gunnars, fæddist að Miðhrauni í Miklaholtshreppi en ólst upp á Hjarðarfelli þar sem sama ættin hefur búið frá árinu 1805. Þau Guðbranda Þorbjörg og Guðbjartur gengu í hjónaband í Ólafsvík þar sem Guðbjartur stundaði sjóinn og var eigandi hlutar í mótorbáti sem hann gerði út með öðrum. Vorið 1906 fluttu þau frá Ólafsvík og tóku við búinu á Hjarðarfelli og þar fæddist Gunnar, sjötta barn foreldra sinna en alls voru þau átta sem upp komust auk tveggja uppeldisbræðra.
Gunnar stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni þaðan sem hann brautskráðist 1938 og þar lágu leiðir þeirra Ásthildar saman. Hann útskrifaðist síðan sem búfræðingur frá Hvanneyri 1939. Samkvæmt því sem Gunnar hefur skrifað um dvöl sína á þessum menntasetrum fer ekki á milli mála að þar hefur hann notið sín og kunnað að meta návist við skólafólk og fræðimenn á sviði búvísinda enda stóð hugur hans til frekari menntunar á því sviði erlendis en síðari heimsstyrjöldin kom í veg fyrir það. Hann bar ætíð hag Bændaskólans á Hvanneyri og Laugarvatnsstaðar mjög fyrir brjósti.
Gunnar hóf búskap á Hjarðarfelli 1942 með Ásthildi konu sinni og var jafnframt símstöðvarstjóri tímabilið 1960 til 1980, en símstöð sveitarinnar var á Hjarðarfelli frá árinu 1912. Börn Gunnars og Ásthildar eru Guðbjartur, bóndi og fv. oddviti á Hjarðarfelli; Högni, fv. bóndi á Hjarðarfelli; Sigríður, BA í frönsku og ensku, rithöfundur og húsmóðir, búsett í Frakklandi; Hallgerður, lögfræðingur í Stykkishólmi; Teitur, efnaverkfræðingur í Reykjavík, og Þorbjörg, bókasafnsfræðingur á Egilsstöðum.
Snæfellingar nutu forystuhæfileika Gunnars á ýmsum sviðum auk þess sem hann vann í þágu bændastéttarinnar á landsvísu. Hann lá ekki á liði sínu þar sem hann tók til hendinni, hvort sem var við ræktunarstörf eða við sókn og vörn í þágu bænda. Hann var um árabil formaður Búnaðar- og ræktunarsambands Snæfellinga þar sem hann beitti sér fyrir aukinni ræktun, rekstri jarðvinnuvéla til jarðræktar í stórum stíl, var fulltrúi Snæfellinga á Búnaðarþingi í þrjátíu og tvö ár og kjörinn heiðursfélagi Búnaðarfélags Íslands 1987. Hann var fulltrúi á aðalfundum Stéttarsambands bænda frá 1945 og kjörinn formaður þess árið 1963 og gegndi því starfi í 18 ár eða til ársins 1981. Jafnframt formennsku í Stéttarsambandinu var hann formaður Framleiðsluráðs landbúnaðarins 1963 til 1981 og framkvæmdastjóri þess 1980 til 1987. Þessi verkefni á landsvísu voru ekki auðveld og oft stóð mikill styr um landbúnaðarkerfið og þá stefnu að verja íslenskan landbúnað með innflutningstakmörkunum, víðtækri stjórnun á framleiðslunni og niðurgreiðslum sem vissulega voru fremur í þágu neytenda en bænda. Það kom jafnan skýrt fram að Gunnar taldi hagsmuni heimilanna fara saman við hagsmuni bændastéttarinnar og átti gott samstarf við verkalýðshreyfinguna.
Gunnar á Hjarðarfelli, eins og hann var að jafnaði nefndur, tók þátt í margháttuðum félagsstörfum í héraðinu. Hann sat í hreppsnefnd Miklaholtshrepps 1961 til 1978, í sýslunefnd 1950 til 1982 og um árabil í stjórn Byggðasafns Snæfellinga þar sem hann beitti sér m.a. fyrir því að Norska húsið í Stykkishólmi var endurbyggt og gert að byggðasafni. Hann beitti sér fyrir stofnun sjúkrasamlags í Miklaholtshreppi sem var merkilegt framtak til heilla fyrir íbúa sveitarinnar og sat í sögunefnd sýslunnar sem stóð fyrir útgáfu héraðssögu. Í minningargrein sem Erlendur Halldórsson, oddviti Miklaholtshrepps, skrifaði um Gunnar látinn segir hann frá því að við vígslu Langholtsréttar árið 1956 hafi Gunnar flutt ræðu og sagt m.a.: næst byggjum við yfir börnin. Og hann lét ekki þar við sitja heldur tók til við að fylkja fólkinu með sér í sveitunum sunnanfjalls. Laugargerðisskóli reis undir öflugri stjórn Gunnars Guðbjartssonar sem var formaður byggingarnefndar 1957-1965 og leiddi þar samhentan hóp fólks sem þráði góðan skóla fyrir börnin í sveitinni. Skólinn var byggður við heitar lindir í Laugargerði sem voru virkjaðar fyrir sundlaugina og skólahúsin. Erlendur, sem þekkti vel til mála, segir einnig í minningargreininni: Er á engan hallað þótt kalla megi Gunnar föður þess skóla.
Gunnar tók virkan þátt í stjórnmálastarfi innan Framsóknarflokksins og sat í miðstjórn flokksins í tuttugu ár. Hann sat á þingi um tíma sem varaþingmaður fyrir Vesturlandskjördæmi. Þar lét hann mjög til sín taka og beitti sér í þágu bændastéttarinnar og hinna dreifðu byggða jafnframt því að vinna að margvíslegum málum sem vörðuðu þjóðarhag. Hann valdi að sinna málefnum landbúnaðarins og fólksins í sveitunum og var ekki vanþörf á. Það var áhugavert að fylgjast með því hversu Gunnar hafði mikil áhrif innan stjórnkerfisins og naut trausts og trúnaðar yfir öll flokkamörk. Kom vel fram styrkur hans vegna yfirburðaþekkingar og vitsmuna en hann var einnig harðskeyttur í orðræðu og rökfastur. Stjórnmálamenn kunnu því ekki allir jafn vel þegar hann beitti sér fyrir þeim málum sem hann hafði helgað starfskrafta sína. En það gerði hann af mikilli eindrægni og þekkingu en um leið var hann viðkvæmur fyrir því sem hann taldi vera ósanngjarna gagnrýni á landbúnaðinn. Um viðureign Gunnars við stjórnkerfið má víða finna athyglisvert efni. Það fer ekki á milli mála að málflutningur hans vakti hvívetna eftirtekt enda var hvergi slegið af og Gunnar byggði málflutning sinn á vel ígrunduðum rökum og tölfræði sem lá einstaklega vel fyrir honum enda var hann mjög talnaglöggur. Það var ekki ónýtt fyrir Snæfellinga að eiga slíkan mann í þeirri forystusveit sem vann í þágu hinna dreifðu byggða og raunar landsins alls. Gunnar sat í fjölmörgum nefndum og stjórnum, bæði á landsvísu og fyrir Vestlendinga. Fór ekki á milli mála að hann naut þess að fylgja málum fram og sjá árangur verka sinna verða að veruleika í þágu lands og þjóðar. Í tilefni þess að heil öld er liðin frá fæðingu Gunnars Guðbjartssonar vil ég minnast þessa merka Íslendings sem ég var svo lánsamur að eiga að tengdaföður.
Blessuð sé minning Gunnars á Hjarðarfelli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 7.6.2017 | 10:14 | Facebook
Myndaalbúm
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.11.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 566867
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.