Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur ritaði minningargrein um móðurömmu mína Karítas Skarphéðinsdóttur í Þjóðviljann árið sem hún dó. Raunar var þetta ekki hefðbundin minningargrein, heldur frásögn af framboðsfundi og í raun bókmenntatexti. Eiginkona mín Inga Þórunn Halldórsdóttir dró textann upp og gerði sjónleik úr honum. Ekki veit ég hver á útgáfurétt á minningargreinum en voga mér að birta þetta hér á bloggi mínu á mína ábyrgð
SJÓNLEIKUR
Sögumaður: Fundurinn var haldinn í einni kennslustofu barnaskólans á
Álftanesi og var vel sóttur. Ræðumenn voru þessir: Ólafur Thors,
Guðmundur Í. Guðmundsson, Þórarinn Þórarinsson og Sverrir
Kristjánsson. Við vorum allir fremur léttir í skapi, enda farnir að
kunna ræðurnar nokkurn veginn utanbókar, eins og börn til spurninga,
þegar komið er að fermingu.
Það var jafnan siður á samkomum að fundarstjóri spurði háttvirta
kjósendur hvort einhver vildi taka til máls. Ég minnist þess ekki að
kjósendur hafi neytt þessa lýðræðisréttar síns á fyrri fundum. En nú
bar nýrra við. Á aftasta bekk við austurenda skólastofunnar sat kona
ein. Hún reis á fætur og biður um orðið. Það var ekki laust við að
léttur rafstraumur færi um okkur frambjóðendur, þar sem við sátum hlið
við hlið á bekknum, hægra megin við pontuna. Mér fannst við ekki
ólíkir sakamönnum, gripnum fyrir smáhnupl. Auðsætt var að
fundarstjóri bar ekki kennsl á konu þessa. Fundarstjóri bað hana að
segja til nafns.
Karítas: Ég heiti Karítas Skarphéðinsdóttir.
Sögumaður: Enginn kannaðist við nafnið að því er mér sýndist. Mér
varð starsýnt á konuna. Hún var tæplega meðalkona á hæð, miðað við
vöxt íslenskra kvenna af hennar kynslóð, en mér virtist hún vera
einhvers staðar á milli fimmtugs og sextugs. Andlitið frítt, hárið
mikið og vel snyrt í fléttum, hnarreist var hún og upplitsdjörf. Hún
leit rétt í svip yfir kjósendahjörðina, síðan nokkuð fastar á okkur
sakborninga á frambjóðendabekknum og mér sýndist ekki betur en það
brygði fyrir léttri fyrirlitningu í augnaráðinu, þegar hún horfði á
okkur.
Karítas: Það mál sem ég ætla að ræða hér á þessum stað er sjálfstæðismálið.
Sögumaður: Nú lyftist brúnin á þessum fjórum á sakamannabekknum.
Auðvitað vorum við allir sjálfstæðismenn með litlu essi og Ólafur
Thors meira að segja með stóru. Okkur hvarf hræðsla sem við höfðum
kennt í fyrstu, því að frambjóðendur bera oft lúmskan ótta til
kjósanda sem er óskrifað blað þangað til hann hefur krossað á
kjörlistann.
Karítas: En það sem ég tel mikilvægasta sjálfstæðismál íslensku
þjóðarinnar er áfengismálið. Og nú vil ég spyrja háttvirta
frambjóðendur, viljið þið útrýma áfengisbölinu og flytja áfengið út úr
landinu? Og ég heimta skýr svör við spurningu minni.
Sögumaður: Að lokinni ræðu Karítasar Skarphéðinsdóttur birti mjög
yfir ásjónum sjálfstæðishetjanna góðu á sakamannabekknum.
Áfengisbölið íslenska hefur jafnan verið vinsælt umræðuefni
landsmanna, en nú hafði Karítas gert það að helsta sjálfstæðismáli
þjóðarinnar. Og nú hófst baráttan um þetta prúðbúna atkvæði, sem
enginn vissi deili á. Þingmálafundurinn þarna á Álftanesinu tók allt
aðra stefnu en ríkt hafði á fyrri fundum. Hin stutta en kjarnyrta
ræða Karítasar Skarphéðinsdóttur hafði lyft þessum lágkúrulega
þingmálafundi upp á himinhátt plan, þar sem heiðríkjan og siðgæðið
ríktu. Ekkert pólitískt skítkast lengur, engar skammir, engin
bolabrögð. Samkvæmt reglum fundarins tók Ólafur Thors fyrstur til
máls.
Ólafur Thors: Ég vil þakka þessari konu sem nú tók síðast til máls
fyrir hina afburða góðu ræðu. Það voru sannarlega orð í tíma töluð.
(Þögn). Ég vil segja. Íslendingar drekka illa. Ég vil segja meira.
Íslendingar drekka mjög illa.
Sögumaður: Í framhaldinu jós Ólafur sér yfir áfengisneyslu Íslendinga
af slíkri orðgnótt að með sjálfum mér harmaði ég að Góðtemplarareglan
hefði ekki borið gæfu til að ráða Ólaf sem faranderindreka sinn um
landið. Næsti ræðumaður var Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður,
svipurinn einlægur og sakleysislegur eins og títt er um menn sem geta
sagt allt - nema satt.
Guðmundur Í: Ég vil leyfa mér að þakka Karítas Skarphéðinsdóttur
fyrir hennar ágætu ræðu. Svo sem kunnugt er mörgum er
Alþýðuflokkurinn, sem ég hef þann heiður að vera fulltrúi fyrir,
beinlínis sprottið upp úr bindindishreyfingunni á Íslandi. Frá fyrstu
tíð hefur Alþýðuflokkurinn haft bindindi og vínbann á stefnuskrá sinni
og hefur aldrei hvikað frá þeirri stefnu. Ef háttvirtir kjósendur
Gullbringu- og Kjósarsýslu vilja sýna mér það traust að kjósa mig til
þings þá mun sannarlega ekki standa á mér og flokki mínum að útrýma
áfengisbölinu og gera Ísland að vínlausu landi.
Sögumaður: Þriðji ræðumaður var Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri
Tímans, heitur stjórnarandstæðingur og hugði til mikillar afreka þegar
Nýsköpunarstjórninni yrði steypt af stóli.
Þórarinn: Frá því ég var fjórtán ára, hef ég hvorki neytt tóbaks né
áfengis. Mér er því einkar ljúft að taka undir orð Karítasar
Skarphéðinsdóttur um áfengismálið. Það þarf varla að geta þess, sem
alþjóð veit, að Framsóknarflokkurinn hefur allt frá stofnun barist
gegn áfengisneyslu og áfengisböli Íslendinga. Og er skemmst að
minnast að á Alþingishátíðinni árið 1930 er Framsóknarflokkurinn fór
með ríkisstjórn var vín ekki veitt í opinberum veislum og sátu þær þó
erlendir þjóðhöfðingjar, sem eru vanir að drekka vín með mat, enda fór
hátíðin fram með mikilli prýði og kurteisi sem frægt er í annálum.
Háttvirtir kjósendur Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef þið viljið stuðla
að þingsetu minni mun Framsóknarflokkurinn berjast með oddi og egg
fyrir þeim kröfum sem fram voru bornar í hinni ágætu og snjöllu ræðu
Karítasar Skarphéðinsdóttur.
Sögumaður: Stúkubræður frambjóðendahópsins höfðu nú lokið máli sínu.
Ég hef aldrei hlustað á svo hjartanlegt bræðralag. Á öllum
framboðsfundum höfðu þeir barist eins og grimmir púkar í neðra. Nú
voru þeir orðnir eins og vængjaðar englaverur í efra, mér sýndist
jafnvel votta fyrir litlum hvítum fjöðrum á herðablöðum sýslumannsins
Guðmundar I.
Sverrir: En nú var komið að mér, Sverri Kristjánssyni. Hvernig átti
ég að svara Karítas Skarphéðinsdóttur ? Átti ég að slást í hópinn með
stúkubræðrunum þremur? Mér bauð við tilhugsuninni. Það yrði að hafa
það, þótt ég færi af þessum fundi reyttur englafjöðrum. Það var víða
kunnugt að Sverri Kristjánssyni þótti áfengi ekki vont á bragðið - svo
ekki sé meira sagt. Það myndi enginn trúa einu orði, ef Sverrir
Kristjánsson héldi bindindisræðu á framboðsfundi. Og svo þurfti þessi
kelling, Karítas, að koma hingað anstígandi einhvers staðar utan úr
buskanum á Álftanesi, gera áfengismálið að sjálfstæðismáli og heimta
að brennivíninu yrði hent í hafið. Ég kaus að þegja sem mest.
Góðir kjósendur. Ég sem fulltrúi Sósíalistaflokksins vil eindregið
hvetja ykkur til að kjósa flokkinn, hans eindregnu stefnu í öllum
landsmálum, þjóðinni til góðs. Nauðsyn er að efla gengi hinnar
sósíalísku stefnu á Íslandi.
Sögumaður: Háttvirtir kjósendur fóru að tínast burt.
Frambjóðendurnir þrír, stúkubræðurnir, slógu hring í kringum Karítas,
klöppuðu henni um herðar og þökkuðu henni ræðuna. Ég sat einn í sæti
mínu, yst á bekknum, sakbitinn sósíalisti sem hafði brugðist
stefnuskrá flokksins um vínbann og bindindi. Ég fann það mjög
greinilega að í dag hafði ég verið slæmur kommi. En Karítas ýtir þá
frá sér þeim stúkubræðrum og gengur til mín.
Karítas (réttir Sverri höndina): Jæja, Sverrir Kristjánsson, ósköp
held ég að við eigum fáar sálir í þessari sveit.
Sögumaður: Ég sá Karítas aldrei síðan. En ég fræddist um nokkur
atriði ævi hennar. Hún var fædd í Æðey en bjó um langt skeið á
Ísafirði. Hún var aðeins sautján vetra er hún giftist manni sínum,
Magnúsi Guðmundssyni, og ól honum tíu börn en þremur börnum manns síns
af fyrra hjónabandi gekk hún í móðurstað. Á Ísafirði vann hún lengst
við fiskþvott og snemma kynntist hún ísfirskum atvinnurekendum við
samningsborðið og mælt er að hún hafi oftar en ekki velgt þeim
dáyndismönnum undir uggum. Hún var stofnfélagi í Kommúnistaflokki
Íslands og svo var og eiginmaður hennar. Síðan var hún virkur félagi
Sósíalistaflokksins. Fertug að aldri skipaði hún sér í þá fylkingu
verkalýðshreyfingarinnar er sótti fram til þeirrar tíðar sem koma
skyldi. En í sama mund stóð hún djúpum rótum í gróðurmold íslenskrar
alþýðumenningar. Hún var hafsjór íslenskra kvæða, vísna og kviðlinga
í fornum skáldskap og ungum. Já, þannig var Karítas
Skarphéðinsdóttir, harðger íslensk jurt vökvuð hlýju regni alþjóðlegra
hugsjóna.
Merkisdagur í okkar sögu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 19.6.2015 | 14:38 | Facebook
Myndaalbúm
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 1396
- Frá upphafi: 566780
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 1246
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.