Örsögur
Björn á Löngumýri var þjóðkunnur maður á sinni tíð, sem bóndi, alþingismaður, kaupfélagsstjóri og útgerðarmaður. Björn var kunnur fyrir mjög sérstæð málaferli að efni til. Má þar nefna tófumálið, Skjónumálið böðunarmálið og stóðhestamálið. Hann var einnig kunnur fyrir stutt, hnitmiðuð og gamansöm tilsvör. Sögurnar eru sagðar eins og þær hafa varðveist manna á meðal í tímans rás.
Samningarfundur í Vatnsdal
Afréttir Svínvetninga og Vatnsdælinga, Auðkúluheiði og Grímstunguheiði liggja saman upp af byggðunum fram til Langjökuls.
Úfar risu með mönnun hér fyrr á árum um tilhögun afréttasmölunar.
Skapaðist togstreita um það að ná sem flestu fé á hreppamörkum niður í hvora byggðina til að fá sem fæst fé í útréttum. Voru deilur um hvernig kljúfa ætti fénaðinn á afréttarmörkum þannig að hver hefði sitt.
Ákveðið var að halda samningafund um málið og fá lausn í deiluna. Var fundarstaðurinn ákveðinn í Vatnsdal. Björn var þá oddviti sinnar sveitar.
Hann vildi sýna styrk í samningaviðræðunum og valdi með sér í viðræðunefndina grenjaskyttu og meindýraeyðir Svínavatnshrepps.
Þeir félagar leggja nú upp í förina og er þeir koma fram á hæðina upp að Hnjúki í Vatnsdal blasir Vatnsdalur við þeim. Þeir stöðva jeppann og kasta af sér vatni. Er þeir standa þarna, Björn í miðjunni og með meindýraeyðirinn á aðra hlið og tófuskyttu sveitarinnar á hina segir Björn stundarhátt: ,,Nú skelfur Vatnsdalur allur."
Heimild: Hannes Guðmundsson bóndi Auðkúlu
Myndin
Þegar Björn varð fimmtugur lét hann taka af sér mynd og gaf sveitungum sínum.
Stóradalsbærinn brann til kaldra kola 17. maí 1961 og bjargaðist heimilisfólkið naumlega úr brunanum. Sáralitlu af innbúi var bjargað.
Eitt sinn var Björn gestkomandi hjá Hönnu Jónsdóttur í Stekkjardal en hún átti heima í Stóradal þegar bærinn brann.
Hanna lýsti þannig atvikum er þau fóru úr bænum þegar þau urðu reyksins var. Fyrir ofan hjónarúmið var fagurlega útskorinn hilla og á henni var myndin af Birni og askja með ættarskartgripum hennar.
Og er þau sitja þarna yfir kaffibolla segir Hanna " Og í fátinu gríp ég myndina af Birni en skil skartgripina eftir ". Þá segir Björn af bragði,
" Það var rétt af þér Hanna mín að taka myndin, hún er verðmæt ".
Heimild: Hanna Jónsdóttir húsfreyja Stekkjardal
Númerin klippt af jeppanum
Bergur Arnbjörnsson frá Akranesi var bifreiðaeftirlitsmaður á vestur- og norðurlandi. Hann neyddist eitt sinn til þess að klippa númerin af jeppa Björns þar sem hann stóð fyrir framan Hótel Blönduós vegna þess að hann hafði ekki verið færður til aðalskoðunar. Þegar Björn kemur út af Hótelinu benda menn honum á að Bergur hafi klippt númerin af jeppanum.
,,Ég hlýt að komast heim á jeppanum númerslausum, haldið þið það ekki" segir þá Björn og ekur fram Svínvetningabraut. Bergur og aðstoðarmaður hans Backmann frá Borgarnesi frétta þetta og elta hann. Þegar Björn kemur heim skipar hann öllum börnum og hjúum sínum að fara inn í bæ og halda sig innan dyra. Sjálfur fer hann út í fjós. Þar átti hann þrælmannýgt naut. Þegar þeir félagar Bergur og Backmann koma akandi niður heimreiðina sleppir Björn nautinu út. Nautið var snarótt og snýr sér þegar að bíl eftirlitsmannanna og höfðu þeir engin tök á að fara út úr bílnum við þessar aðstæður og þóttust góðir að sleppa með bílinn óskemmdan í burtu.
Heimild:Munnmælasaga, hugsanlega sett saman úr tveim aðskildum atburðum.
Ríkir bændur
Þegar Björn var að undirbúa framboð sitt á vegum Framsóknarflokksins til Alþingis í Húnavatnssýlum lék hann millileik. Fylgi Framsóknarmanna var talið ótraust á Skagaströnd og Björn vildi styrkja stöðuna og gerðist kaupfélagsstjóri á þar. Bændur í Vindhælishrepp sem til heyrðu félagssvæði Kaupfélags Skagastrandar voru taldir með efnuðustu bændum í Austur-Húnavatnssýslu á þeirri tíð. Á kosningafundi var Björn spurður að því hvernig stæði á því að þeir væru svona ríkir. Það stóð ekki á svarinu hjá Birni: ,,Það er af því að þeir borða alltaf minna en þá langar í"
Heimild: Skrifstofa Búnaðarsambands Austur-Húnavatnssýslu. Þ.H.G
Afkoma launamanna
Stundum áttu nú samt aðrir síðasta orðið í viðræðum við Björn. Eitt sinn er Björn var að stíga í vænginn við kjósendur kom hann á kaffistofu Kaupfélags Húnvetninga Þar var fyrir m. a. Tómas Jónsson gjaldkeri félagsins og mikill leikari á Blönduósi. Vitað var að Tómas þessi hafði gengist undir uppskurð vegna magakvilla. Björn settist að spjalla og m.a. barst talið að launamálum. Björn sagðist ekki skilja hvernig launamenn kæmust af einföldum launum. Sjálfur hefði hann mikla ómegð væri með stórt bú og væri auk þess kaupfélagsstjóri og rétt kæmist af.
Tómas svaraði að bragði: ,,Ja, þetta er nú nær útilokað. Ég þurfti til dæmis að láta taka úr mér stóran hluta magans til að skrimta." Björn hló ógurlega að þessu og sagði þessa sögu oft.
Heimild: Skrifstofa Kaupfélags Húnvetninga. I.Þ.H
Framboðsfundur
Framboðsfundur flokkanna var boðaður á Hofsósi. Björn var á lista Framsóknar og kveið fundinum vegna þess að hann taldi Framsókn eiga undir högg að sækja á staðnum og hafa lítið fylgi.
Fyrir fundinn sást til Björns þar sem hann var að pukrast innan um unglinga út undir vegg á samkomustaðnum. Fundurinn hófst og Björn var með framsögu fyrir sinn flokk. Að lokinni ræðu hans glumdi við dúndrandi lofaklapp og undruðust andstæðingar hans þetta mjög. Gekk þetta svona allan fundinn, alltaf var klappað fyrir Birni í hvert skipti sem hann tók til máls.
Eftir fundinn kom málsmetandi maður á staðnum að máli við Björn og spurði hvað hann hefði viljað unglingunum fyrir fundinn.
Björn var skjótur til svars. ,,Nú, ég var að gefa þeim nammi svo þau klöppuðu fyrir mér."
Heimild: Munnmælasaga
Umræður á Alþingi
Á Alþingi hafði Björn gaman af því að láta þingheim hlæja þegar hann hélt ræður. Var ekki sjaldan sem þingheimur veltist um að hlátri þegar hann steig í pontu. M.a. var Björn valinn skemmtilegasti maður þingsins af grínblaðinu Speglinum.
Eitt sinn flutti Vilhjálmur Hjálmarsson, þáverandi menntamálaráðherra í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, gagnmerkt frumvarp um grunnskóla. Að lokinni framsöguræðu sinni settist Vilhjálmur í sæti sitt. Hann sér þá að Björn tekur sig upp úr sæti sínu í þingsalnum og stefnir til sín. Taldi Vilhjálmur að nú ætlaði Björn að þakka sér fyrir skörulega framsöguræðu og gott frumvarp. Björn gengur til Vilhjálms, hallar sér að honum og hvíslar í eyra hans: ,,Hvernig er það Vilhjálmur, það hló enginn ."
Heimild: Vilhjálmur Hjálmarsson fv. Menntamálaráðherra, ævisaga.
Hver á hvað?
Þegar til stóð að virkja Blöndu var ákveðið að halda sveitarfund í Svínavatnshreppi til að upplýsa íbúana um efnisatriði málsins.
Málið var mjög flókið lögfræðilega séð og var talið ráðlegt að hafa löglærðan mann við á fundinum til að leiða menn um frumskóga lögfræðinnar. Menn voru ekki á eitt sáttir um hver ætti að borga lögfræðingnum fyrir að sitja fundinn, Landsvirkjun eða sveitarsjóður.
Landsvirkjun bauðst til að fá Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann til að mæta á fundinn og bauðst til að bera kostnaðinn.
Þá komu vomur á suma bændur og veltu þeir fyrir sér hvort lögmaður við slíkar aðstæður gæti verið hlutlaus.
Þá sagði Björn " Sá á hund sem elur ".
Heimild: Óljós
Málaferli
Harðindavorið 1979 tók Þorsteinn H. Gunnarsson bóndi á Syðri-Löngumýri tvo stóðhesta frá Ytri-Löngumýri, sem gengu um ólöglega í ógirtum heimalöndum en Björn átti hestana. Sýslumaður Húnvetninga seldi hestana á opinberu uppboði. Björn kærði uppboðið og töku hestanna til Hæstaréttar. Stóðhestatakan var dæmd lögleg, en Birni tókst að ómerkja uppboði fyrir Sýslumanni vegna formgalla. Þegar niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir sagði Björn um Jón Ísberg sýslumann Húnvetninga: ,,Ég held að sýslumaður ætti ekki að fást við að bjóða upp stóðhesta það er vandasamt, en hann gæti verið liðtækur við að bjóða upp reiðhjól."
Heimild: Hæstaréttardómar og Þorsteinn H. Gunnarsson
Skrásett af
Þorsteini H. Gunnarssyni
frá Syðri-Löngumýri
Samstarf um eikarbátinn Húna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 17.9.2012 | 14:39 (breytt 15.7.2013 kl. 13:04) | Facebook
Myndaalbúm
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Habbðu þökk fyrir skemmtilegar sögur :)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.9.2012 kl. 17:15
Hefur þú ekki heyrt söguna af ilmvatnsinnkaupunum? Þegar Björn var kaupfélagsstjóri á Skagaströnd fór hann verslunarferð til höfuðstaðarins. Heimkominn sagði hann við samstarfskonu sína í kaupfélaginu: "Gerði reyfarakaup í Reykjavík, keypti kassa af vellyktandi á spottprís, held það heiti Air-Wick." Efnið var notað á salernum til að eyða illum þef.
Kunn er sagan af því þegar Jón Pálmason á Akri bauð Birni heim til sín á þingtíma þegar báðir voru í Reykjavík. Jón bjó við Vesturgötu og spurði Björn hvort hann myndi rata. Ekki stóð á svari: "Já, það stendur NONNI utan á húsinu." Verslunin Nonni var þar til húsa.
Gylfi Pálsson (IP-tala skráð) 18.9.2012 kl. 08:55
Nei hef ekki heyrt þessar. En þær eru góðar.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 18.9.2012 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.