Dagur íslenskrar náttúru-Æskuslóðir Ábúðarjörðin að Syðri-Löngumýri

Vistfræði Syðri-Löngumýrar

Hnattstaða jarðarinnar er 65 gráður og 29 mínútur N og 19 gráður 52 mínútur V og hallar jörðin í móti austri. Jörðin er u.þ.b. 6 ferkm. Hún á merki við Höllustaði að sunnan, Stóradal að vestan, Ytri-Löngumýri að norðan og Brúarhlíð og Blöndudalshóla að austan en þar rennur Blanda á merkjum. Eftir jörðinni renna upprunalega þrír lækir. Merkjalækurinn rennur milli Syðri-Löngumýrar og Höllustaða, alveg frá Grámannsflá og niður í Blöndu. Tveir lækir renna niður frá efri brúnum norðan við miðju jarðarinnar og afmarka bæjarstæðið og eldra túnstæði. Þar hefur verið þurrast á jörðinni.

Eins og nafn jarðarinnar ber með sér er hún mýrlend og votlend, en inn  á milli eru vallendismóar, börð og brúnir. Í 250 metra hæð yfir sjávarmáli tekur við þróttmikill fjalldrapi og samfelldar hálfdeigjur sem enda svo í Stóradalshálsi, eða svokölluðum Hálsi, sem er efsti hluti jarðarinnar. Þar uppi, sunnan við miðju jarðarinnar nær svokölluðum Lækjum, eru Kirkjuhólar. Jurtaflóra jarðarinnar var fjölskrúðug. Við plöntusöfnun vegna náms míns við búvísindadeildina á Hvanneyri, á árunum 1968-1970, safnaði ég  mörgum plöntutegundum á jörðinni en hef ekki gögn um fjölda tegunda sem vaxa þar.

Í Blöndudal er veðursæld. Þó getur verið allhvöss SV átt á Syðri-Löngumýri. En oft er blíðviðri vor og sumar. NA-átt er ríkjandi vetrarátt með skafrenningi upp mýrarnar. Norðanstórhríð getur staðið allt upp í viku. Stillur og hægviðri eru þó oft ríkjandi á vetrum. Á sumrum í sunnanátt má oft búast við síðdegisskúrum. Oft er dalalæða á kvöldin, vor og sumar. Fuglalíf var mikið, bókstaflega allt morandi af spóa, lóu, hrossagauk, lóuþræl og stelk. Maríuerla var við hús og bæi, þúfutittlingur við gilskorninga og börð og steindepill í grjóti. Rjúpur gerðu sér hreiður hið efra í fjalldrapanum. Síðan sveimuðu hrafn og smyrill yfir. Í norðurhluta Hálsins í Klaufinni, þar sem heita Högg, var lágfóta með greni og þar var einu sinn mjög óvænt skotinn minkur. Það gerði Ólafur Sigurjónsson frá Rútsstöðum og hló lengi dags að því með miklum bakföllum.


mbl.is Ráðherra les veðurfregnir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband