Syðri-Löngumýrarbærinn var burstabær, upphaflega með þrem burstum, byggður 1860 að ég held. Hann stóð á hól u.þ.b. 200 metra frá núverandi þjóðvegi og sneri til austurs. Syðra burstahúsið samanstóð af austur- og vesturhúsi og miðbaðstofu. Þessi hluti var allur viðarklæddur í hólf og gólf af vönduðum við. Miðburstin samanstóð af stofu sem sneri fram á hlað, björt og rúmgóð. Þar fyrir innan var eldhús sem var viðarklætt en vestast var geymsla fyrir búsáhöld, amboð og reiðtygi og var hún óþiljuð. Milli þessara bursta var þiljaður gangur inn í bæinn. Syðra burstahúsið stóð á upphækkun, væntanlega hugsað til að verjast gólfkulda. Búið var að rífa þriðju burstina sem var skemma en þar fyrir innan var köld geymsla fyrir súrmat og þar innaf var eldhús. Bærinn bauð af sér góðan þokka, var vandaður og kyntur upp með þurrkuðu taði og kolum.
Í skjóli fyrir sunnan bæinn var kartöflu- og rabbabaragarður sem mikið var notaður. Einnig uxu þar kryddjurtir, svo sem kúmen og graslaukur. Milli fjóss og bæjar var haganlega gerður brunnur sem vatn þraut aldrei í. Hann var aflagður um það leyti sem flutt var í nýtt hús 1957. Árið 1977 hreinsaði ég brunninn upp en þá var hann kominn í vanhirðu. Brunnurinn er um 3 metra djúpur, þvermál neðst 0,6 metrar og efst 1,8 metrar (þetta er eftir minni). Hann er vel hlaðinn úr grjóti og neðst í botni brunnsins er ávalur steinn. Hygg ég að vatnið hafi verið ræst frá uppsprettunni á meðan á hleðslunni stóð en fyrir framan er töluverður halli. Síðan hefur fráveitulögnin verið stífluð þegar verkinu hefur verið lokið. Brunnurinn var stráheill þegar ég fór niður í hann 1977.
Vindrafstöð var fyrir ofan bæinn, töluvert mannvirki, en var óvirk þegar ég kom þarna fyrst og ekki notuð. Reyndar hafði eitthvert átak verið gert í vindrafstöðvarmálum í hreppnum því víða voru þessar myllur uppistandandi og sums staðar í lagi. Fremst á hlaðinu var stór hestasteinn, 50x130x80 cm og á honum stóð, að mig minnir, ártalið 1860 sem er sennilega byggingarár bæjarins.
Vistfræði Syðri-Löngumýrar
Hnattstaða jarðarinnar er 65 gráður og 29 mínútur N og 19 gráður 52 mínútur V og hallar jörðin í móti austri. Jörðin er u.þ.b. 6 ferkm. Hún á merki við Höllustaði að sunnan, Stóradal að vestan, Ytri-Löngumýri að norðan og Brúarhlíð og Blöndudalshóla að austan en þar rennur Blanda á merkjum. Eftir jörðinni renna upprunalega þrír lækir. Merkjalækurinn rennur milli Syðri-Löngumýrar og Höllustaða, alveg frá Grámannsflá og niður í Blöndu. Tveir lækir renna niður frá efri brúnum norðan við miðju jarðarinnar og afmarka bæjarstæðið og eldra túnstæði. Þar hefur verið þurrast á jörðinni.
Eins og nafn jarðarinnar ber með sér er hún mýrlend og votlend, en inn á milli eru vallendismóar, börð og brúnir. Í 250 metra hæð yfir sjávarmáli tekur við þróttmikill fjalldrapi og samfelldar hálfdeigjur sem enda svo í Stóradalshálsi, eða svokölluðum Hálsi, sem er efsti hluti jarðarinnar. Þar uppi, sunnan við miðju jarðarinnar nær svokölluðum Lækjum, eru Kirkjuhólar. Jurtaflóra jarðarinnar var fjölskrúðug. Við plöntusöfnun vegna náms míns við búvísindadeildina á Hvanneyri, á árunum 1968-1970, safnaði ég mörgum plöntutegundum á jörðinni en hef ekki gögn um fjölda tegunda sem vaxa þar.
Í Blöndudal er veðursæld. Þó getur verið allhvöss SV átt á Syðri-Löngumýri. En oft er blíðviðri vor og sumar. NA-átt er ríkjandi vetrarátt með skafrenningi upp mýrarnar. Norðanstórhríð getur staðið allt upp í viku. Stillur og hægviðri eru þó oft ríkjandi á vetrum. Á sumrum í sunnanátt má oft búast við síðdegisskúrum. Oft er dalalæða á kvöldin, vor og sumar. Fuglalíf var mikið, bókstaflega allt morandi af spóa, lóu, hrossagauk, lóuþræl og stelk. Maríuerla var við hús og bæi, þúfutittlingur við gilskorninga og börð og steindepill í grjóti. Rjúpur gerðu sér hreiður hið efra í fjalldrapanum. Síðan sveimuðu hrafn og smyrill yfir. Í norðurhluta Hálsins í Klaufinni, þar sem heita Högg, var lágfóta með greni og þar var einu sinn mjög óvænt skotinn minkur. Það gerði Ólafur Sigurjónsson frá Rútsstöðum og hló lengi dags að því með miklum bakföllum.
Heimild: Húnavaka, rit Ungmennafélags Austur-Húnvetninga 49 árgangur-2009
Bernskuminnigar 2 kaflar bls.74-75, Þorsteinn H. Gunnarsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 25.12.2011 | 12:07 (breytt 23.12.2015 kl. 11:34) | Facebook
Myndaalbúm
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Bloggvinir
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Bergljót Gunnarsdóttir
- Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
- Grétar Mar Jónsson
- Gunnar Rögnvaldsson
- Hörður B Hjartarson
- Ingibjörg Friðriksdóttir
- Jón Páll Jakobsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kristján Hilmarsson
- Kristján P. Gudmundsson
- Lilja Skaftadóttir
- Sigríður B Svavarsdóttir
- Sigurbjörg Eiríksdóttir
- Sigurjón Þórðarson
- Sumarliði Einar Daðason
- Valdimar Samúelsson
- au
- cakedecoideas
- Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson
- Guðjón E. Hreinberg
- Kristinn Ágúst Friðfinnsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 6
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 566862
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Enn er óunnið talsvert verk í menningarmálum þjóðarinnar hvað varðar húsakost forfeðra okkar.
Víða um land hafa verið varðveittir torbæir á stórbýlum, sem eiga að gefa glögga mynd af kjörum þjóðarinnar.
Sú mynd er hins vegar skökk því að alveg vantar að sýna litlu torfbæina á smájörðunum og hjáleigunum sem þorri fólks lifði í.
Slíkur bær var lengi á Skarðsá í Sæmundarhlíð þar sem merkiskonan Pálína Jónmundsdóttir bjó enn árið 1982 þegar ég gerði um hana heimildarþátt.
Út frá myndunum í þeim þætti og vitnisburði Rafns Jónssonar flugstjóra, sem þar var í sveit sem drengur, sem og öðrum heimildum um slíka bæi, væri hægt að endurreisa þennan bæ í nokkurn veginn upprunalegri myndi.
Gallinn er kannski hins vegar sá að nokkur krókur er fyrir ferðamenn að fara þangað upp eftir og til baka aftur, því að vegur, sem byrjað var á og liggja átti frá Arnarstapa og út Sæmundarhlíð var aldrei kláraður, því miður.
Ef ég ætti svo mikla peninga að ég vissi ekki aura minna tal, myndi ég láta hluta af þeim í að endurreisa torfbæinn að Hvammi í Langadal þar sem ég var í sveit og gera hann að safni, ekki aðeins til minningar um kynslóðirnar sem lifðu í slíkum húsakynnum, heldur einnig um rithöfundana tvo sem voru í þeim bæ fyrir 1933 og mæðgurnar þrjár, Ásdísi Jónsdóttur skáldkonu frá Rugludal og dætur hennar Stefaníu og Ingunni, sem þar bjuggu við ótrúlegar aðstæður árin sem ég var þarna í sveit og greint er frá í bókinni "Manga með svartan vanga."
Við skuldum alþýðufólkinu, sem þraukaði þorrann og góuna öldum saman, að sýna kynslóðum framtíðarinnar hver var hin raunverulega undirstaða þess að þessi þjóð skrimti af og reis til betri kjara.
Ómar Ragnarsson, 25.12.2011 kl. 16:31
Blessaður Þorsteinn. Eg er að velta því fyrir mér hvort þetta sé bærinn hans Björns á Löngumýri. Svo vill til að konan mín Krístín, sem nú er látin, var þarna í sveit, eins og það var kallað. Við fórum þarna um að skoða bæinn, þá orðinn rústir einar. Er möguleiki á að þú eigir eða getir komist yfir myndir af Löngumýri.
Bestu hátíðarkveðjur
Björn
Björn Emilsson, 25.12.2011 kl. 17:41
Takk fyrir þitt innleg Ómar. Það er satt, margt má betur gera í því að halda uppi sögu okkar og lifnaðarháttum og nota í menningartengdri ferðaþjónustu. Allt slíkt sækir ferðamaðurinn í að skoða.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 25.12.2011 kl. 17:41
Sæll Björn. Björn Pálsson bjó á Ytri-Löngumýri sen er 1 km norður frá Syðri-Löngumýri. Ég minnist ekki að það séu til rústir eða fornminjar af Ytri-Löngumýrarbænum sem var áður en hús það sem nú stendur var byggt 1939.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 25.12.2011 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.