Ísland-Messína 1964
Ísborgin ÍS 250
Ísborgin var síðutogari, einn af nýsköpunartogurunum sem var breytt og brúin færð aftar til að skapa meira lestarrými. Skipið var upphaflega gufuskip en breytt og gufuketillinn tekinn í land og seldur til Síldarvinnslu ríkisins á Siglufirði og dugði sá peningur til að breyta skipinu. Sett var ný Skandíavél í skipið og gekk það 11-12 mílur á fullri ferð í góðu veðri. Nýsköpunarstjórnin var með fullan ríkissjóð eftir stríðið og þeir voru miklir mátar Ólafur Thors og Einar Olgeirsson og vildu gera gagn. Þeir notuðu þetta fjármagn til að kaup fiskiskip og endurnýja flotann. Skipin voru botnvörpuskip og varpan tekinn inn fyrir lunninguna og kölluðust síðutogarar. Það þurfti sterka menn að koma veiðarfærum og aflanum inn fyrir lunninguna auðvitða notuð spil, en reyndi nú líka mikið á mannskapinn Vélsmiðja Guðfinns sá um breytingarnar og hafði mannskap í það. Í Vatnagörðum voru margir svona togarar sem verið var að leggja til frambúðar. Guðfinnur eyddi viku í að skoða álitlega togara og valdi Ísborgina ÍS 250 í verkefnið.
Þarna sýndu þeir félagar, Haukur Guðmundsson og Agnar Hallvarðsson, og vélsmiðja Guðfinns gott framtak. Þeir sá þarna tækifæri til að komast yfir flutningaskip.
Lokin hjá Ísborginni frá Ísafirði voru þannig að hún fór undir hentifáni og var inn í Miðjarðarhafi, sem smyglskip. Svo á endanum var hún tekin af einhverri strandgæslu. Gæslan tók eftir því að kominn var radar á skipið eins og herskip nota og gat því siglt á fullri ferð í þoku. Gamli radarinn var eins og hænsnaprik miðað við hinn. Það þótti skipstjórun á freygátunni sérkennilegt og var skotið viðvörunarskotum að Ísborginni sem jók bara hraðann en þá kom freygátan upp að Ísborginni og var hún tekin eins og hvert annað góss. Hún liggur við bryggju í Grikklandi og á ég mynd af henni þar. Einhver maður kom inn á komment hjá mér og skýrði frá afdrifum skipsins. Þetta er munnleg heimild.
Siglingin
Við lögðum af stað á Ísborginni IS 250 ca 1. júlí 1964 frá Reykjavík. Þá var ég munstraður sem háseti. og erum fljótlega komnir út á Atlantshafi af saltfiski. Ég man lítið sem ekkert hvernig tíminn. Skipið var fulllestað þegar ég kom um borð. Ísborgin var ekki með sjálfstýringu og var því alltaf háseti á stýrinu og skiptumst við á því á klukkustunda fresti. Stefnan var tekin á Marokkó en þar er hægt að sigla inn í gegnum Gíbraltarsund og komast inn í Miðjarðarhafið. Við stoppuðum í Ceuta til að taka olíu en sú borg er olíu verslunarborg.
Það var gaman að rifja upp að á Syðri- Löngumýri jólin 1963, þá fékk ég bók sem ég las í striklotu. Bókin heitir Byssurnar við Navarone eftir Alexander Maclean. Hann var afkastamikill rithöfundur og maður fékk alltaf nýja bók um hver jól. Byssurnar hafa sennilega verið Spánar megin á berginu þar og bókin var um það að ná yfirráðum yfir þeim. Þetta var spennandi bók og ævintýri líkast að koma á staðinn þar sem sagan gerðist.
Við siglum inn í Miðjarðarhafið um 6.júlí. Stefnan tekin á Napólí. Skipið var fulllestað af saltfiski. Siglingin inn að borginni var glæsileg. Napolí er við lítinn fallegan flóa, myndar svona boga sem byggðin stóð við, húsin mjög há. Satt að segja er Reykjavík svolítið áþekk þeirri sjón að sjá Napólí af hafi, eftir að háu blokkirnar risu. Gæti verið að íslensk stjórnvöld hefðu þá hugsun sem líktist Napolí vera svolítið flott. Við skoðuðum Pompey. Þar eru rústir borgarinnar frá dögum Rómverja, mjög heillegar.
Við siglum svo til Sikileyjar og tökum í land í Messíana og settum saltfisk í land. Ég keypti mér harmonikku á 45.000 lírur sem ég ætlaði að eiga allt lífið. En það rættist nú ekki. Í Messíana var gæi sem yfirtók okkur hásetana og bauðst til gera allt fyrir okkur, keyra og fara í búðir og svo að skemmta sér. Þetta var ágæt tilhögun og strákurinn var skemmtilegur. Við fórum með honum bæði í búðir og skemmtistaði. Allir keyptu eitthvað bæði handa sér og fjölskyldunni. Eitthvað var nú farið út á lífið en allir komu heilir um borð aftur. Frá Messíana sigldum við til Torrevieja. Þar áttum við að taka salt.
Smá útúrdúr varðandi siglinguna frá Messína. Þegar búið var að tæma Ísborgina og við lagðir af stað þá var það ljóst að vegna breytinganna sem gerðar voru á skipinu að breyta út síðutogara yfir í fragtskip að það reisti sig svo mikið tómt að það sást ekki fram fyrir skipið. Auðvitað var hægt að vera öruggur um að sjá stór skip í radarnum, en ekki smábáta. Þess vegna var einn háseti settur á öryggisvakt, frá Messíana til Torrevieja. Það var góð vakt að standa frammi á hvalbaknum (stefninu) og bara að líta í kringum sig. Skemmta sér við að sjá höfrunga og hnísur að skemmta sér í allskonar leikjum, því það var mikið af þeim sem fylgdu skipinu í hópum. Svo voru það flugfiskarnir. Þeir komu í gegnum lensportinn (sem eru löng göt á síðu skipsins fyrir ofan dekkið, sem eru til þess að skipið hreinsi sig þegar það fær stórar og þungar öldur á sig og þá þurrkar skipið sig og sjórinn fer út aftur í gegnum lensportinn). Flugfiskarnir voru með einhver fosfór litarefni í sér svo þeir voru sjáanlegir í myrkri. Þeir sáust oft við hliðina á skipinu og var sami hraði á þeim og skipinu 11-12 mílur. Þeir höfðu nú samt ekki neitt úthald. Þessi dvöl fram á hvalbak var eftirminnileg. Maður var bara í stuttbuxum og fékk heitan blástur á skrokkinn, eiginlega alla leiðina, dýrðleg frelsistilfinning. Svo var manni fært kaffi og með því. Það var alltaf gott atlæti um borð og kokkurinn hugsaði vel um okkur.
Í Torrevieja var lítil byggð á staðnum á þessum tíma og aðalatvinnuvegur eyjabúa að framleiða salt. Sjór var látinn renna í tjarnir og vatnið látið gufa upp. Síðan var saltinu mokað upp og unnin þannig að hún yrði verslunarvara. Þarna var sól og mjög gott veður. Mátulegur hiti því það kom gustur frá Gíbraltar. Engir ferðamenn voru þarna og ekkert hægt að sjá eða gera. Við fórum því ekki í land enda var skipið mestan tímann úti á bugtinni.
Þarna átti ég að mála nafn skipsins og hékk í rólu við það starf. Þetta var lítið verk og því gat ég leikið mér og synt í höfninni. En svo var farið að huga að heimferð. Þá lögðum við á stað og komust fljótlega út á Atlantshafið og áttum góða siglingu heim og ekkert gerðist markvert. Sama leið var farin til baka eins og þegar út. Fengum ágæta siglingu heim, enda hásumar og veður kyrrt. Við komum heim ca. 19.ágúst 1964. Það er ágiskun miðað við það sem ég hef í höndunum heim en allir komu þeir aftur og engin þeirra dó.
Hér lýkur að segja frá vinnu minni á Ísborginni þetta sumarið
Stjórnmál og samfélag | 30.8.2025 | 12:10 (breytt kl. 12:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 30. ágúst 2025
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
Axel Jóhann Hallgrímsson
-
Bergljót Gunnarsdóttir
-
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
-
Grétar Mar Jónsson
-
Gunnar Rögnvaldsson
-
Hörður B Hjartarson
-
Ingibjörg Friðriksdóttir
-
Jón Páll Jakobsson
-
Jón Ragnar Björnsson
-
Kristján Hilmarsson
-
Kristján P. Gudmundsson
-
Lilja Skaftadóttir
-
Sigríður B Svavarsdóttir
-
Sigurbjörg Eiríksdóttir
-
Sigurjón Þórðarson
-
Sumarliði Einar Daðason
-
Valdimar Samúelsson
-
au
-
cakedecoideas
-
Kristinn Ágúst Friðfinnsson
-
Guðjón E. Hreinberg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.8.): 138
- Sl. sólarhring: 166
- Sl. viku: 1050
- Frá upphafi: 598938
Annað
- Innlit í dag: 113
- Innlit sl. viku: 897
- Gestir í dag: 107
- IP-tölur í dag: 106
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar