Finnbjörn Þorvaldsson ættaður frá Fæti undir Folafæti í Ísafjarðardjúpi

Frændi minn, Finnbjörn Þorvaldsson hefði orðið 100 ára í dag 25. maí 2024. Hann var ættaður frá Fæti undir Folafæti í Ísafjarðardjúpi en fæddur árið 1924 í Hnífsdal. Hann var sonur Þorvaldar Matthísar Magnússonar, bátsmanns og forsöngvara við Eyrarkirkju við Seyðisfjörð vestari. Þorvaldur var kallaður Íslandströll í togaraflotanum slíkt var afl hans. Þetta sagði Arnbjörn bróðir minn mér, en Arnbjörn tók þroska sinn á sjó undir verndarhendi Þorvaldar. Móðir Finnbjörns var Halldóra Finnbjörnsdóttir fædd í Fremri-Hnífsdal. Þau hjónin byrjuðu búskap sinn fyrir vestan en bjuggu svo um tíma í Garðabæ og síðan í Reykjavík.

Finnbjörn Þorvaldsson er einn af ástsælustu afreksmönnum Íslands. Hann var fæddur í Hnífsdal, menntaður í Samvinnuskólanum og síðan skrifstofustjóri hjá Loftleiðum í Reykjavík. Kona hans var Theodóra Steffensen.

Hæfileikar Finnbjörns á sviði íþróttanna komu fljótt í ljós. Hann var félagsmaður í ÍR. Hann var liðtækur í mörgum greinum. Þar má nefna handknattleik, en hann lék með Íslandsmeistaraliði ÍR 1945. Þá vann hann til afreka í körfuknattleik og fimleikum.

Finnbjörn er þó þekktastur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum, sérstaklega spretthlaupum. Þar vann hann fjölmarga Íslandsmeistaratitla. Hann vann oftar en einu sinni landskeppnir á íþróttaferli sínu og Íslandsmet sem hann setti voru fjölmörg, svo skipti tugum. Einnig varð hann Norðurlandameistari nokkrum sinnum.

Mestu afrek Finnbjörns voru þó án efa þegar hann komst í úrslit í 100 m hlaupi á Evrópumeistaramóti í Ósló 1946 og þegar hann tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948. Þar var hann fánaberi sinnar þjóðar.

Prúðmennska og drengskapur í keppni voru einkennandi í fari Finnbjarnar. Hann var alltaf fyrstur til að óska sigurvegurum til hamingju og aldrei urðu keppinautar hans né samferðamenn hans varir við hroka. Hann var ætíð í öllu fari drengur góður.

Tekið saman af Þorsteini H. Gunnarssyni: Heimild ÍR.

 

 


mbl.is Blés þjóðinni eldmóð í brjóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband