Þingsögur af Birni á Löngumýri framh.

Framboðsfundur

Framboðsfundur flokkanna var boðaður á Hofsósi. Björn var á lista hjá Framsókn og kveið fundinum vegna þess að hann taldi Framsókn eiga undir högg að sækja og hafa lítið fylgi á staðnum. Fyrir fundinn sást til Björns þar sem hann var að pukrast innan um unglinga út undir vegg á samkomustaðnum. Fundurinn hófst og Björn var með framsögu fyrir sinn flokk. Að lokinni ræðu hans glumdi við dúndrandi lófaklapp og undruðust andstæðingar hans þetta mjög. Gekk þetta svona allan fundinn, alltaf var klappað fyrir Birni í hvert skipti sem hann tók til máls.

Eftir fundinn kom málsmetandi maður á staðnum að máli við Björn og spurði hvað hann hefði viljað unglingunum fyrir fundinn. Björn var skjótur til svars. " Nú, ég var að gefa þeim nammi svo þau klöppuðu fyrir mér".

Umræður á Alþingi

Á Alþingi hafði Björn gaman af því að láta þingheim hlæja þegar hann hélt ræður. Var ekki sjaldan sem þingheimur veltist um af hlátri þegar hann steig í pontu. Björn var m.a. valinn skemmtilegasti maður þingsins af grínblaðinu Speglinum. Eitt sinn flutti Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi menntamálaráðherra í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, gagnmerkt frumvarp um grunnskóla. Að lokinni framsöguræðu sinni settist Vilhjálmur í sæti sitt. Hann sér þá að Björn tekur sig upp úr sæti sínu í þingsalnum og stefnir til sín. Taldi Vilhjálmur að nú ætlaði Björn að þakka sér fyrir skörulega framsöguræðu og gott frumvarp. Björn gengur til Vilhjálms, hallar sér að honum og hvíslar í eyra hans: " Hvernig er það Vilhjálmur, það hló enginn".


mbl.is Dregur úr biðröðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningsögur af Birni á Löngumýri

Björn á Löngumýri var þjóðkunnur maður á sinni tíð, sem bóndi, alþingismaður, kaupfélagsstjóri og útgerðarmaður. Hann stóð oft í málaferlum. Má þar nefna , tófumálið Skjónumálið, böðunarmálið og stóðhestamálið. Ábúðarjarðir okkar lágu saman.

Ríkir bændur

Þegar Björn var að undirbúa framboð sitt á vegum Framsóknarflokksins til Alþingis í Austur-Húnavatnssýslu lék hann milli leik. Fylgi framsóknarmanna var talið ótraust á Skagaströnd. Björn vildi styrkja stöðuna og gerðist kaupfélagsstjóri þar. Bændur í Vindhælishreppi, sem tilheyrðu félagssvæðinu, voru taldir með efnuðustu bændum héraðsins. Á kosningafundi var Björn spurður að því hvernig stæði á því að þeir væru svona ríkir. Það stóð ekki á svarinu hjá Birni. "Það er af því að þeir borða alltaf minna en þá langar í.

Afkoma launamanna

Stundum áttu nú samt aðrir síðasta orðið í viðræðum við Björn. Eitt sinn er Björn var að stíga í vænginn við kjósendur, kom hann á kaffistofu Kaupfélags Húnvetninga. Þar var m.a. Tómas Jónsson, gjaldkeri félagsins og mikill leikari. Tómas hafði gengist undir uppskurð vegna magakvilla. Björn settist að spjalli og m.a. barst talið að launmálum. Björn sagðist ekki skilja hvernig launamenn kæmust af á einföldum launum. Sjálfur hefði hann mikla ómegð, væri með stórt bú og auk þess væri hann kaupfélagsstjóri og rétt kæmist af.

Tómas svaraði að bragði " Já þetta er nær útilokað. Ég þurfti til dæmis að láta taka úr mér stóran hluta magans til að skrimta", Björn hló ógurlega að þessu og sagði sögu þessa oft.


mbl.is Lokaorð formanna til kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband