Ég er að lesa nýútkomna bók, sem heitir Möðruvallahreyfingin, baráttusaga, eftir Elías Snæland Jónsson. Prýðileg bók.
Möðruvallahreyfingin klofnaði út úr Framsóknarflokknum og var uppistaða hreyfingarinnar ungt fólk sem vildi breytingar á íslensku þjóðfélagi og berjast gegn spillingu og fjármálabraski.
Ólafur Ragnar Grímsson var einn af farþegum Möðruvallahreyfingarinnar og áhrifamaður þar. Það eru miklir krákustígar sem Ólafur hefur farið um landslag stjórnmálanna og leitt hann að lokum á þennan fund öryrkja og ellilífeyrisþega.
Það er sagt í fréttinni að Ólafi forseta hafi verið vel fagnað í upphafi fundarins.
Hver er ástæða þessa mikla fagnaðar fólksins?
Ég held að það væri rétt að endurvekja Möðruvallahreyfinguna. Það var ágæt og litrík hreyfing.
Nú verða að stíga fram sókndjarfir æskumenn þessa lands til að frelsa þjóðfélag vort, eins og karlinn sagði, sem eitt sinn var í Möðruvallahreyfingunni.
![]() |
Fjölmenni á borgarafundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 26.10.2010 | 21:52 (breytt kl. 21:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef verið að skoða lögin um stjórnlagaþing og þá sérstaklega hvernig kosið er og útreikninga og úthlutun þingsætanna.
Ég verð bara að viðurkenna það að ég skil ekki hvernig á að komast að því hvernig frambjóðendur raðast eftir atkvæðafjölda.
Þó læðist að mér hugboð að atkvæðin séu misverðmæt hvort, kjósandinn setur frambjóðandann í 1 eða 10 sætið. Og það er ekki samkvæmt reglunni um jafna aðstöðu í kosningum. Þetta er nefnilega hvorki listakosning eða prófkjör. Þetta er einstaklingskosningar.
Ég hef borið þetta undir fræðimann doktor í stærðfræði og tölvufræði frá virtum erlendum háskóla og hann er ekki búinn að ná þessu til fullnustu en er nú að búa sig undir að kynna sér þetta kerfi.
Ég verð bara að segja það eins og er að mér finnst mjög óþægilegt að þurfa að taka þátt í kosningu þar sem ég átta mig ekki á hvernig kerfið virkar.
Svona atkvæðagreiðsla verður að vera gegnsæ og einföld og almenningur verður að geta skilið útreikningana.
![]() |
523 í framboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 25.10.2010 | 19:05 (breytt kl. 19:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta er einkennileg framsetning á alvarlegum ágreiningi um stórmál sem maðurinn setur fram. Það er eins og öll útgerð hætti þó verið sé að ræða breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.
Þetta er bara ómerkilegt áróðursbragð. Það sjá allir í gegn um svona lagað.
Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því að útgerðir geti aflað sér réttinda til að veiða gegn hóflegu gjaldi.
Leiguliðum í landbúnað hefur ekki verið vorkennt þó menn hafi þurft að greiða leigugjald af ábúðajörðum sínum. Veiðamenn við ár og vötn hafa þurft að greiða fyrir veiðileyfið.
Ætli aðal ástæðan sé ekki sú að útgerðir eiga ekki fyrir suðuvír. Eða hvernig er skuldastaðan með þessi stóru og dýru skip? Standa nokkrar veiðar undir öllu þessu fjármagni?
![]() |
Líkir ráðherra við leikskólakrakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 23.10.2010 | 09:33 (breytt 25.10.2010 kl. 19:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún er merkileg þessi stjórnarskrá Lýðveldisins okkar.
Þar eru hundgömul ákvæði sem aldrei hafa verið notuð sem eru vakin upp frá dvala eins og Þyrnirós.
Þannig er málsskotsréttur forseta Lýðveldisins orðin staðreynd með þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
Í stjórnarskránni stendur eftirfarandi:
25. gr. Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.
Hópur alþýðufólks hefur nú heimsótt forsetan að Bessastöðum og beðið hann að leggja fram frumvarp á Alþingi sem kvæði á um framfærslu og viðmiðum til nauðþurfta.
Eðlilegast er að forsetinn leggi þetta frumvarp fram á ríkisráðsfundi og biðji forsætisráðherra að flytja það á Alþingi.
Nú ef forsætisráðherra verður eigi við þeirri bón er forsetanum rétt og skylt að láta bílstjóra sinn aka sér til Alþingis og kveðja sér hljóðs um þetta mál.
Ekki er að efa að hann mundi njóta stuðnings til þessa málatilbúnaðar.
Þannig að stjórnarskráin virkar ef henni er beitt rétt og einhver hefur rænu á því að fara í heimsóknir að Bessastöðum og sitja á hljóðskrafi við forseta.
![]() |
Bót vill bætt samfélag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 21.10.2010 | 20:55 (breytt kl. 20:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Svona líta reglurnar út um talningu atkvæða. Lög nr. 90 25. júní 2010
14. gr. [Úthlutun sæta, útgáfa kjörbréfa og úrskurðir í ágreiningsmálum.]1) [Úthlutun sæta ræðst af eftirfarandi aðgerðum:
1. Meinbugir á útfyllingu kjörseðils:
a. Sé efsta vallína auð telst kjörseðillinn ógildur.
b. Sé vallína auð eða hún ekki rétt útfyllt telst seðillinn ekki ógildur af þeim sökum en aðeins skal taka tillit til útfyllingar í vallínum fram að auðu línunni en ekki til þeirra sem á eftir kunna að koma.
c. Tvítekin auðkennistala gerir seðil ekki ógildan en aðeins skal taka tillit til vallína fram að fyrstu endurtekningu tölunnar en ekki annarra lína.
d. Ef ekkert val verður lesið af kjörseðli vegna atvika sem að framan greinir telst kjörseðillinn ógildur.
2. Sætishlutur: Ákvarða skal sætishlut með þeim hætti að deila fyrst heildartölu gildra kjörseðla með 26. Tekið skal heiltölugildið af útkomunni, þ.e. leif skal felld brott. Að því búnu skal bæta einum við og nefnist sú útkoma sætishlutur.
3. Flokkun kjörseðla: Kjörseðlar skulu flokkaðir í bunka eftir nöfnum þeirra frambjóðenda sem tilgreindir eru að 1. vali á seðlunum.
4. Gildistölur: Ákvarða skal atkvæðisgildi kjörseðla í hverjum bunka. Í upphafi er atkvæðisgildi allra seðla jafnt einum en síðar fer að ákvæðum 6. tölul. um hugsanlegar breytingar á atkvæðisgildum. Með atkvæðatölu frambjóðanda er átt við samtölu atkvæðisgilda allra kjörseðla í bunka hans á hverju stigi úthlutunarinnar.
5. Úthlutun sæta: Jafnóðum og í ljós kemur að atkvæðatala frambjóðanda er jöfn eða hærri en nemur sætishlutnum skal frambjóðandanum úthlutað sæti. Á þetta við hvort sem er í upphafi eða síðar þegar beitt er ákvæðum 6. og 7. tölul.
6. Færsla umframatkvæða: Hafi frambjóðandi hlotið atkvæðatölu umfram sætishlut skal færa hvern einstakan kjörseðil hans í bunka þess frambjóðenda sem næstur er nefndur í forgangsröð á seðlinum og er meðal þeirra sem enn koma til álita að hljóta sæti. Sé engan frambjóðanda að næsta vali að finna skal leggja slíkan seðil til hliðar. Að öðru leyti fer um færslu seðlanna sem hér segir:
a. Ákvarða skal umframhlutfall hjá frambjóðanda sem seðlar eru færðir frá. Fæst það með því að deila þeim hluta af atkvæðatölu frambjóðandans sem er umfram sætishlut með óskertri atkvæðatölu hans. Endurmeta skal atkvæðisgildi viðkomandi seðla með því að margfalda fyrra atkvæðisgildi hvers þeirra með umframhlutfallinu.
b. Hafi fleiri en einn frambjóðandi atkvæðatölu umfram sætishlut skal fyrst færa seðla frá þeim sem hæsta hefur atkvæðatöluna og síðan koll af kolli. Að lokinni færslu skal aðgæta hvort þá hafi bæst í hóp þeirra frambjóðenda sem náð hafa sætishlut. Skal þá ganga úr skugga um hver umræddra frambjóðenda er nú með hæstu atkvæðatöluna áður en aftur er valinn sá þeirra sem næst skal færa seðla frá.
7. Útilokun: Komi að því að enginn frambjóðandi sem til álita kemur að hljóta sæti uppfyllir ákvæði 5. tölul. skal finna þann frambjóðanda sem þá hefur lægstu atkvæðatölu. Sá frambjóðandi kemur ekki lengur til álita við úthlutun sæta, sbr. þó 2. mgr. Kjörseðlar í bunka hans skulu allir færðir í bunka þeirra frambjóðenda sem enn koma til álita og næstir eru nefndir í forgangsröð á umræddum seðlum, sbr. ákvæði 6. tölul. Sé engan slíkan að finna skal leggja þann seðil til hliðar.
8. Lok úthlutunar: Beita skal ákvæðum 6. og 7. tölul. svo lengi sem við á en þó þannig að ákvæði 6. tölul. hafi ávallt forgang. Þegar tala þeirra frambjóðenda sem enn koma til álita að hljóta sæti er orðin jöfn tölu þeirra 25 sæta sem eftir er að ráðstafa skal sætunum úthlutað til þessara frambjóðenda án frekari útreikninga.
9. Nákvæmni í reikningi: Útreikningar á atkvæðisgildum, atkvæðatölum og umframhlutföllum skulu gerðir með fimm tugabrotsstöfum. Ekki skal taka tillit til tugabrotsstafa umfram fimm í útkomutölum.
10. Hlutkesti: Reynist einhverjar atkvæðatölur sem hafa áhrif á framvindu röðunarinnar jafnstórar skal hluta um þær. Hafi frambjóðendur af öðru kyninu fengið úthlutað færri en tíu sætum eða sem nemur tveimur fimmtu allra þingsæta skal úthluta sætum til þeirra frambjóðenda sem næstir eru í röðinni af því kyni, sé þá að finna, þangað til hlutfall þeirra nemur að minnsta kosti tveimur fimmtu allra fulltrúa. Heildartala þingfulltrúa skal þó aldrei vera hærri en 31. Þetta skal gert með því að horfa til atkvæðatalna frambjóðenda þess kynsins sem hallar á eins og þær voru næst á undan því að útilokunarákvæði 7. tölul. 1. mgr. var beitt hvað þá snertir. Sætum skal úthlutað til þeirra sem höfðu þessar atkvæðatölur hæstar.]1)
Að lokinni talningu og úthlutun sæta birtir landskjörstjórn greinargerð um úrslitin opinberlega og boðar frambjóðendur til stjórnlagaþings til fundar. Þar lýsir hún úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa þjóðkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþingi. Eftir að kjörbréf hafa verið afhent tilkynnir landskjörstjórn forseta Alþingis um niðurstöðu kosninganna og sendir nöfn hinna kjörnu fulltrúa til birtingar í Stjórnartíðindum.
Nú er ágreiningur um kjörgengi frambjóðanda til stjórnlagaþings sem náð hefur kjöri og sker landskjörstjórn þá úr.
1)L. 120/2010, 4. gr.
Skilur einhver þetta?
Hér eru einfaldir hlutir gerðir flóknir og það væri rétt að höfundarnir gæfu sig fram og svöruðu því af hverju þetta er gert svona flókið.
Ég hélt að það væri bara eðlilegast að kjósandinn merkti við 25 nöfn. Þeir sem fengju flest atkvæði væru rétt kosnir og ef einhverjir frambjóðendur væru jafnir þá væri bara dregið um það.
![]() |
Flóknar kosningar til stjórnlagaþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 21.10.2010 | 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árið 2008 fórum við hjónin í ferðalag með Ferðafélagi Íslands í Jökulfirði. Voru viðkomustaðir okkar Aðalvík, Hesteyri og Grunnavík.
Eins og títt er um svona ferðir voru haldnar kvöldvökur upp á gamla móðinn með upplestrum söng og hljóðfæraslætti. Ólöf Sigurðardóttir fararstjóri FÍ las upp úr dagbókarfærslum séra Jónmundar Halldórssonar á Stað í Grunnavík.
Það vakti athygli mína að séra Jónmundur hafði eitt sinn í október að mig minnir í kring um 26. bundið hey og flutt heim, en kýr voru komnar á innistöðu. Þetta var votaband og velti ég þessu fyrir mér.
Daginn eftir áttaði ég mig á því að með þessu var presturinn að lengja þann tíma sem kýrnar fengu ferskt fóður og í raun var hann að stytta gjafartíma á þurru heyi. Og þarna er ef til vill komin skýringin á því að menn gátu þraukað á þessu svæði með búfé á innistöðu í lengri tíma en gerðist að meðaltali á landinu.
Ég rifjaði upp að í mínu ungdæmi var háin oft lögð í garða seint á haustin og einatt kom hret í hana, og þá var hún bara gefin kúnum beint af túninu þar til hún var upp kláruð eða hún fór undir snjó.
Þá man ég eftir að hafa heyrt sögu, ég man nú ekki hver sagði mér hana, að slegin hafi verið stör á svelli á tjörn í landi jarðarinnar Hvammi í Vatnsdal.
Víst er um það, að bændur hafa alltaf reynt að bjarga sér í þessu landi og er það vel.
![]() |
Túnin slegin í október |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 19.10.2010 | 18:56 (breytt 20.10.2010 kl. 22:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér á árum áður greip ríkisvaldið til þess ráðs þegar offramboð varð á dilkakjöti að færa fullvirðisrétt í sauðfjárframleiðslu niður og var bændum greitt fyrir niðurfærsluna, visst á ærgildi.
Þetta var gert í tveim áföngum annarvegar gátu menn, að mig minnir, samið um 25 % flatan niðurskurð eða hlýtt þeirri niðurfærslu sem yrði endanleg þegar uppgjör lægi fyrir.
Ég lenti í þeirri skringilegu aðstæðum að ég átti ekki að fá bæturnar fyrir niðurfærsluna vegna þess að ég var leiguliði. Landsdrottinn sem var að hálfu ríkið og hinn helmingurinn 7 sveitarfélög kröfðust þess að fá þessa aura. Þessir peningar skiptu svo sem litlu máli fyrir mig.
En ég tók málið til varnar og fékk þingmann minn Ragnar Arnalds til að spyrjast fyrir um það á Alþingi hverjum bæri þessi greiðsla. Þá varð uppi fótur og fit hjá höfðingjum á Alþingi og smákóngum í héraði.
Gengu lærð bréf á milli manna, en ég hélt því fram að þarna væri raskað högum mínum á markaði og því bæri mér greiðslan sem og varð.
Nú er mikið offramboð á skuldum og þá spurningin hvort þessi niðurfærsla hafi verið fordæmis gefandi fyrir ríkisvaldið til annarra hópa.
![]() |
Funda áfram í dag um skuldavanda heimilanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 17.10.2010 | 12:49 (breytt kl. 12:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Speakers Corner er við Hyde Park í Lundúnum. Þar kom ég eitt sinn á ferðalagi og dvaldi þar um stund. Þar halda menn ræður yfir fólkinu en ég veit ekki hvaða kerfi er á þessu, hvor viðkomandi greiðir fyrir aðstöðuna eða ekki. En allavega var skipulag í gangi og talaði einn í einu og fólkið hlýddi á.
Þetta var skemmtilegt umhverfi og menn héldu ræður af eldmóði og komu fram með sín sjónarmið. Hafði almenningur mjög gaman af þessu og var alltaf reytingur af fólki þarna.
Einnig sá ég mann með spjald framan á sér þar sem hann lagði áherslu á að menn hlustuðu á sig annað hvort núna eða aldrei. Þetta var lifandi umhverfi. Það greip mann sterk löngun að standa upp og halda ræðu í heyrandi hljóði.
Á Lækjartorgi í gamladaga man ég eftir ,,Karlinum á kassanum" en hann stóð á trékassa og prédikaði. Þetta var alltaf sami maðurinn.
Þegar ég stofnaði þessa bloggsíðu ákvað ég að vera með á forsíðu mynd af mér á þessu horni Speakers Corner og þannig hef ég verið hér eins og Karlinn á kassanum í Reykjavík og London.
Ég geri það að tillögu minni að svona fyrirkomulag verði reynt við turninn á Lækjartorgi og ég er nærri viss um að menn mundu borga fyrir það að fá að tala í 10 mínútur eða korter.
Ég held að það sé mikið framboð á skoðunum og þörf fyrir að láta þær í ljós og ekkert er eins skemmtilegt og að hafa áheyrendur. Þetta gæti lífgað upp á Lækjartorg. Sennilega væri nú betra að fara á stað með svona verkefni að vori.
![]() |
Turninn til leigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 15.10.2010 | 21:29 (breytt 28.1.2013 kl. 21:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta er merkilegt mál og áhugavert út frá lögfræðilegu sjónarhorni.
Það er grundvallar misskilningur hjá lögmanni fv. forsætisráðherra að málið sé rekið fyrir Alþingi og þess vegna getur Alþingi ekki fellt málið niður.
Ágreiningurinn liggur í því hvort afgreiða eigi kosningu saksóknara samtímis og ákæran er afgreidd.
Það er ekkert borðliggjandi í lögunum um Landsdóm að svo skuli vera, aðeins sagt ,, jafnframt", en ekkert kveðið á um það hvort það megi dragast eitthvað fram yfir réttir eftir að bændur eru komnir úr göngum og svoleiðis.
Þetta er að vísu gild athugasemd og verður sjálfsagt tekist á um hana fyrir dómi í upphafi málsins.
Væntanlega gerir lögmaðurinn þessa athugasemd strax til að fyrirbyggja að málið ónýtist fyrir dómi.
Það er tilgangslaust að vera reyna þæfa þetta mál á þessum forsendum, því það er alltaf hægt að endurflytja þingsályktunina og kjósa þá saksóknara í leiðinni ef það er eindregin vilji Alþingis.
Hvort svo fv. forsætisráðherra verði sýknaður eða sakfelldur er ómögulegt að segja.
En allavega mátti ekki hafa hátt um minnisblað Björgvins G. Sigurðssonar fv. viðskiptaráðherra þegar hann vildi láta skipa samvinnunefnd í þessi Hrunmál á ríkistjórnarfundi.
Þannig að eitthvað er nú gruggugt við þetta mál allt saman ef fv. forsætisráðherra vill ekki ganga fyrir Landsdóm og skýra mál sitt.
Það er víst ógurlegur kvíði í Sjálfstæðismönnum yfir þessu máli en geta verður þess að það er ástæðulaust að persónugera þetta mál.
Hér er verið að takast á um form og stjórnmálaaga ráðherravalds og ábyrgðar gagnvart borgurum Lýðveldisins Íslands.
![]() |
Kemur til kasta landsdóms |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 12.10.2010 | 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað á að færa niður?
Lán af íbúðarhúsnæði svona almennum íbúðum einhverskonar standar stærð? Eða fær kaupmaður sem sagður er skulda 300 milljónir af villu sinni í Eyjafirði á móti Akureyri niðurfærslu á sinni skuld.
Verða skuldir vegna hjólhýsa og tjaldvagna niðurfærðar, ellegar sumarhús sem fólk hefur keypt á 100% láni. Hvað með lausaskuldir? Hvað með skuldir af landspildum, reiðhrossum og hesthúsum. Allt er þetta mjög óljóst. Verður farið eftir skattskýrslunni?
Verður þetta afturvirkt þ.e.a.s. miðast við fyrir hrun. Fá þeir sem greiddu inn á skuldir sínar fyrir hrun ívilnanir og jafnvel þeir sem borguðu upp húsnæðislán sín, fá þeir ráðdeildarbætur.
Hvað fá þeir sem alltaf hafa verið sparsamir og ráðdeildarsamir, fá þeir eitthvað? Umbunarbætur.
Af hverju var fólki ekki sagt þetta fyrir hrun að skulda bara nógu mikið þetta yrði bara fært niður?
Hvaða hagkerfi á að gilda hér, markaðshagkerfi eða áætlunarbúskapur?
Þetta þurfa ráðamenn að upplýsa almenning um.
Og hvað má og hvað má ekki út af EES-samningnum.
Og hvað segir þjóðkirkjan um þetta allt saman?
![]() |
Niðurfærsla rædd í vikunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 10.10.2010 | 14:26 (breytt kl. 14:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Myndaalbúm
Bloggvinir
-
Axel Jóhann Hallgrímsson
-
Bergljót Gunnarsdóttir
-
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
-
Grétar Mar Jónsson
-
Gunnar Rögnvaldsson
-
Hörður B Hjartarson
-
Ingibjörg Friðriksdóttir
-
Jón Páll Jakobsson
-
Jón Ragnar Björnsson
-
Kristján Hilmarsson
-
Kristján P. Gudmundsson
-
Lilja Skaftadóttir
-
Sigríður B Svavarsdóttir
-
Sigurbjörg Eiríksdóttir
-
Sigurjón Þórðarson
-
Sumarliði Einar Daðason
-
Valdimar Samúelsson
-
au
-
cakedecoideas
-
Kristinn Ágúst Friðfinnsson
-
Guðjón E. Hreinberg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 489
- Frá upphafi: 601431
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 406
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar