Nokkur minningarbrot um skógarbónda á Hamri Erling B. Ingvarsson

Úr Blönduljóðum

Það hverfa til moldar menn og verk

Og manni finnst þynnast um bekki.

En heimdragans taug er töluvert sterk

hún tognar- en slitnar ekki.

Og þegar í langferð þú leggur úr vör

er litla kotið þitt með í för.

Höf: Hannes Ágústsson frá Brúarhlíð, föðurbróðir Erlings                    

 

picture_026_1274367.jpgLandseti Krists, vinur minn og fermingarbróðir á Hamri í Svínavatnshreppi, Erlingur B. Ingvarsson er látinn. Banamein hans var krabbamein, sá slóttugi sjúkdómur.

Við Erlingur vorum saman í farskóla í Svínavatnsskólahverfi og fermdumst tveir saman í samnefndri kirkju þann 6. júni 1959. Þegar Erlingur tók Hamar á leigu, var jörðin Kristfjárjörð gefin til handa fátækum. Sagði hann, að sér yrði fyrirgefið allt og yrði alltaf fátækur, því hann væri landseti Krists. Jörðin Hamar er meðalstór og nýtur umhverfisins þar sem Gunnfríðarskógur er fyrir norðan hana. Mestan part er gróið land með frjósömum moldarjarðvegi, gott land niður við Blöndu til kornræktar. En það háði framgangi á Bakásajörðunum, sem svo eru kallaðar, að vegasamband komst ekki almennilega á og því varð öll uppbygging erfið og háði það framþróun byggðarinnar

picture_029_1274368.jpgErlingur hóf að byggja íbúðarhús árið 1976. Þegar ég hafði áhyggjur af því að hann væri að reisa sér hurðarás um öxl sagði hann við mig: ,,Þú skalt nú sjá að þetta tekst allt saman, lagsmaður“. Og það gekk eftir. Erlingur var harðduglegur og ósérhlífinn maður, vel gefinn og skákmaður góður.

Erlingur var í sambúð með Guðrúnu Atladóttur og eignuðust þau einn son, Bjartmar Frey. Guðrún og Erlingur slitu samvistum. Guðrún kom með tvö börn í bú þeirra og hafa börnin alltaf haldið mikilli tryggð við hann. Hann sagði mér eitt sinn að hann væri hamingjusamur maður með son sinn og fósturbörn.

Erlingur gerðist skógarbóndi þegar fjárstofn hans var felldur vegna riðuveiki og hóf skógrækt á jörðinni Hann fór þá að vinna á sambýli á Blönduósi sem hann var ánægður með. Hamar er vel til skógræktar fallin og er þar núna kominn álitlegur skógur. Erlingur hafði miklar taugar til jarðarinnar og sagði oft að ekki færi hann frá Hamri nema láréttur.

picture_030.jpgErlingur var skemmtilegur, ágætur sögumaður og minnugur. Ein minnistæð saga var þegar við vorum í landafræðitíma á Höllustöðum og Stefán kennari á Kagaðarhóli renndi niður landakortinu sem var að ég held eini hluturinn sem fylgdi farskólanum milli bæja. Stefán benti strangur á sundið milli Frakklands og Englands og spurði hvað það héti. Allir götuðu. Þá fór Stefán að toga skyrtuna fram úr erminni. Þá urðu nú allir mjög vitrir og sögðu ERMASUND einum rómi

Við Erlingur fórum lengst af saman í seinni göngur á Auðkúluheiði. Hann var jafnan vel búin gangnamaður með trausta hesta og ratvís.

Ég kveð nú þennan góða æskuvin minn með söknuði. Ég veit að áfram verður haldið því góða starfi á Hamri, sem Erlingur hóf og jörðin er í góðum höndum. Við, Inga Þórunn, biðjum fólki hans blessunar og sendum því samúðarkveðjur.

Þorsteinn H. Gunnarsson

 

 

 


Bloggfærslur 19. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband