Æskuminningar mínar

Hér set ég á bloggsíu mína æskuminningar mínar sem birtust í Húnavökunni riti Ungmennasambands Austur Húnvetninga 49 ár.2009

Æskuminningar

Á vordögum árið 1954 var ég sendur til sumardvalar í sveit, þá átta ára gamall. Ég fór að Syðri-Löngumýri í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu.

Ég var sendur til vandalausra, hjónanna Guðbjargar Ágústsdóttur og Halldórs Eyþórssonar, sem gerðust svo fósturforeldrar mínir. Ég átti lögheimili á Syðri-Löngumýri frá 1954-1970 og svo aftur frá 1976-1986. Birgir bróðir minn hafði dvalið þar áður, tvö sumur. Hann fórst með vitaskipinu Hermóði í febrúar 1959. Einnig dvaldist Arnbjörn bróðir um nokkurt skeið í Brúarhlíð í Blöndudal.

Mér var aldrei sagt að ég ætti að fara í sveit, það einhvern veginn fréttist bara. Ég man alltaf hvernig ég sagði krökkunum á Óðinsgötunni frá þessu. Ég sagði, þegar ég var spurður, hvert ég væri að fara í sveit: „Ég er að fara að Syðri-Löngumýri í Húnavatnssýslu en ég man ekki hvað bærinn heitir.“ Vissi sem sagt ekkert í landafræði. Ég vissi að ég átti að fara með föðurbróður mínum norður. Hann hét Bergur Arnbjörnsson og var bifreiðaeftirlitsmaður með umdæmi frá Hvalfjarðarbotni norður í Skagafjörð. Hann var kallaður Bíla-Bergur og varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Ég man lítið eftir undirbúningi eða brottför og man ekki til þess að hafa kvatt nokkurn mann.

 

Ferðalagið

Faðir minn, Gunnar Arnbjörnsson, fór með mér á Akraborginni upp í Borgarnes en hún sigldi þangað á þessum árum. Þar var Bergur frændi við störf ásamt Geir Bachmann. Þaðan héldum við norður á Willys-jeppa bifreiðaeftirlitsins. Ég man að við stoppuðum í Fornahvammi. Þar var hótel og var hótelstjórinn Páll Sigurðsson, Skagfirðingur, síðar vert í Varmahlíð. Við komum inn í gríðarlega stóran sal að því er mér fannst og þar báru stúlkur fram hádegismat. Fyrst var súpa með brauði, síðan kom aðalrétturinn og kaffi á eftir. Hvítir dúkar voru á borðum og stúlkurnar sem gengu um beina voru í svörtum kjólum með hvítar blúndusvuntur. Þær voru svona frekar hupplegar við gesti. Mér fannst ég skynja það þarna að ég væri í fylgd með höfðingjum.

Upp úr miðjum degi héldum við norður yfir Holtavörðuheiði og var ferðinni heitið að Borðeyri. Þá var sá háttur hafður á að bíleigendur voru boðaðir á ákveðinn stað tiltekinn dag með bíla til skoðunar og lágu refsingar við ef því var ekki hlýtt. Ég man að Holtavörðuheiðin var seinfarin vegna drulluslarka og aurbleytu. Þar var þoka og súld. Á Borðeyri voru bílar bænda skoðaðir. Sennilega höfum við gist einhvers staðar.

Næsti áfangastaður var Laugarbakki í Miðfirði. Bergur hafði þann starfa ásamt bifreiðaeftirlitinu að vera prófdómari vegna ökuréttinda. Á Laugarbakka var einn nemandi sem þurfti að fara í próf. Ég fékk að sitja í við próftökuna. Man ég að nemandinn átti að bakka inn í afleggjara sem var eilítið upp í mót. Þetta reyndist erfitt og tókst ekki fyrr en í þriðju lotu og þá var nemandi farinn að skæla en fékk samt prófið.

Þarna urðu einhver kaflaskipti á ferðalaginu. Allt í einu var Bachmann horfinn en í hans stað var kominn Jón Jónsson, kallaður Jóni í Stóradal í Svínavatnshreppi, sonur Jóns Jónssonar bónda og alþingismanns þar. Jóni var aðlaðandi og skemmtilegur maður. Hann kunni skil á mönnum og málefnum og var mikilvægur samstarfsmaður Bergs. Jóni hafði góða þekkingu á meðferð véla og ökutækja.

Lítið man ég eftir ferðalaginu sem eftir var og man næst eftir mér inni í stofu á Syðri-Löngumýri að borða pönnukökur með rjóma. Þar sat ég ásamt bóndanum, Halldóri, og tveim einkennisklæddum mönnum, þeim Bergi og Jóna en þeir voru alltaf í úniforminu sem var mosagrænn lögreglubúningur ásamt húfu. Var aðallega rætt um landsins gagn og nauðsynjar og stjórnmál. Húsfreyjan, Guðbjörg, gekk um beina og var jafn vel til fara og stúlkurnar á hótelinu í Fornahvammi, þó með öðrum hætti væri.

Þetta ferðalag hefur tekið svona þrjá sólarhringa. Ég fann aldrei fyrir kvíða eða söknuði, aðeins eftirvæntingu. Allt í einu stóð ég þarna úti í vorinu um hásauðburð hjá ókunnugu fólki, með fugla himins yfir mér og heyrði í fjarska lambfé jarma. Ég var kominn í annir og hafði nóg að gera.

 

 

Ástæður sumardvalar

Á þessum tímum var talið sjálfsagt að börn væru send ung í sveit. Hvað mig varðar voru heimilisaðstæður erfiðar. Ég geri ráð fyrir því að sú ráðstöfun að senda mig í sveit hafi verið gerð að undirlagi Bergs, föðurbróður míns. Hann var í góðum tengslum við Jóna í Stóradal. Guðbjörg Ágústsdóttir var alin upp af föður sínum, Ágústi Björnssyni, sem var vinnumaður í Stóradal á dögum Jóns alþingismans. Guðbjörg og Halldór á Syðri-Löngumýri voru barnlaus og þetta hefur verið talin skynsamleg tilhögun við þær aðstæður sem þá ríktu. Þessi sumardvöl varð lengri en upphaflega var gert ráð fyrir og afdrifarík fyrir mig.

 

Heimilisfólkið og störfin

Guðbjörg og Halldór ráku aðalbúið en Eyþór Guðmundsson og Pálína Jónsdóttir, foreldrar Halldórs, héldu sér heimili. Þau síðarnefndu höfðu eina kú og fjárhús á efri hól og þar var einnig hesthús yfir hross sem hýst voru í verri veðrum á vetrum og gefið. Ágúst Björnsson, faðir Guðbjargar, hafði aðstöðu fyrir búsýslu sína í traustum húsum suður af bænum og sá um hrúta og hænsni og hafði hross þar en var í heimili hjá yngri hjónunum. Auk þessa fólks dvöldu á bænum fyrstu sumrin Elín Eyþórsdóttir með dætur sínar, Ingibjörgu og Eygló Pálu Sigurvinsdætur og frænka þeirra, Hólmfríður Svala Jóhannsdóttir.

Samvinna var um margt í búskapnum og flest verk sem kröfðust mannafla. Búskaparhættir voru að mestu leyti sjálfbærir þegar ég kom í sveitina árið 1954. Það var slegið með orfi og rakað með hrífu og ég man að ég var farinn að standa á engi við slátt um fermingu. Mér reyndist þetta létt því ég var kappsamur og fannst mér aldrei misboðið með vinnu, nema einu sinni þegar ég var að raka á engjum og leiddist það. Ég vildi fara að skoða fugla og sól var í heiði og tíbráin óendanleg. Tók ég þá til þess ráðs að brjóta hrífuna og losna þannig frá rakstrinum.

 Þegar ég kom að Syðri-Löngumýri var komin hestarakstrarvél og hestasláttuvél. Ég man að klárinn, sem nota átti við rakstrarvélina, fældist alltaf svo að ég var látinn sitja á vélinni en klárinn teymdur af fullorðnum. Ég man eftir að hey var flutt á hestum af engjum í tvö sumur. Á heimatúni voru heysátur dregnar á hestum annaðhvort á böndum eða sleða til tóftar. Síðan kom Farmall Cub og svo þróaðist tæknin hægt og sígandi. Kubburinn kom í kössum og Sigurgeir í Stóradal setti hann saman af sínu alkunna hyggjuviti og þótti mér furðulegt hvernig hann gat það.

 

Syðri-LangamýriBærinn á Syðri-Löngumýri

Syðri-Löngumýrarbærinn var burstabær, upphaflega með þrem burstum, byggður 1860 að ég held. Hann stóð á hól u.þ.b. 200 metra frá núverandi þjóðvegi og sneri til austurs. Syðra burstahúsið samanstóð af austur- og vesturhúsi og miðbaðstofu. Þessi hluti var allur viðarklæddur í hólf og gólf af vönduðum við. Miðburstin samanstóð af stofu sem sneri fram á hlað, björt og rúmgóð. Þar fyrir innan var eldhús sem var viðarklætt en vestast var geymsla fyrir búsáhöld, amboð og reiðtygi og var hún óþiljuð. Milli þessara bursta var þiljaður gangur inn í bæinn. Syðra burstahúsið stóð á upphækkun, væntanlega hugsað til að verjast gólfkulda. Búið var að rífa þriðju burstina sem var skemma en þar fyrir innan var köld geymsla fyrir súrmat og þar innaf var eldhús. Bærinn bauð af sér góðan þokka, var vandaður og kyntur upp með þurrkuðu taði og kolum.

Í skjóli fyrir sunnan bæinn var kartöflu- og rabbabaragarður sem mikið var notaður. Einnig uxu þar kryddjurtir, svo sem kúmen og graslaukur. Milli fjóss og bæjar var haganlega gerður brunnur sem vatn þraut aldrei í. Hann var aflagður um það leyti sem flutt var í nýtt hús 1957. Árið 1977 hreinsaði ég brunninn upp en þá var hann kominn í vanhirðu. Brunnurinn er um 3 metra djúpur, þvermál neðst 0,6 metrar og efst 1,8 metrar (þetta er eftir minni). Hann er vel hlaðinn úr grjóti og neðst í botni brunnsins er ávalur steinn. Hygg ég að vatnið hafi verið ræst frá uppsprettunni á meðan á hleðslunni stóð en fyrir framan er töluverður halli. Síðan hefur fráveitulögnin verið stífluð þegar verkinu hefur verið lokið. Brunnurinn var stráheill þegar ég fór niður í hann 1977.

Vindrafstöð var fyrir ofan bæinn, töluvert mannvirki, en var óvirk þegar ég kom þarna fyrst og ekki notuð. Reyndar hafði eitthvert átak verið gert í vindrafstöðvarmálum í hreppnum því víða voru þessar myllur uppistandandi og sums staðar í lagi. Fremst á hlaðinu var stór hestasteinn, 50x130x80 cm og á honum stóð, að mig minnir, ártalið 1860 sem er sennilega byggingarár bæjarins.

 

Vistfræði Syðri-Löngumýrar

Hnattstaða jarðarinnar er 65 gráður og 29 mínútur N og 19 gráður 52 mínútur V og hallar jörðin í móti austri. Jörðin er u.þ.b. 6 ferkm. Hún á merki við Höllustaði að sunnan, Stóradal að vestan, Ytri-Löngumýri að norðan og Brúarhlíð og Blöndudalshóla að austan en þar rennur Blanda á merkjum. Eftir jörðinni renna upprunalega þrír lækir. Merkjalækurinn rennur milli Syðri-Löngumýrar og Höllustaða, alveg frá Grámannsflá og niður í Blöndu. Tveir lækir renna niður frá efri brúnum norðan við miðju jarðarinnar og afmarka bæjarstæðið og eldra túnstæði. Þar hefur verið þurrast á jörðinni.

Eins og nafn jarðarinnar ber með sér er hún mýrlend og votlend, en inn  á milli eru vallendismóar, börð og brúnir. Í 250 metra hæð yfir sjávarmáli tekur við þróttmikill fjalldrapi og samfelldar hálfdeigjur sem enda svo í Stóradalshálsi, eða svokölluðum Hálsi, sem er efsti hluti jarðarinnar. Þar uppi, sunnan við miðju jarðarinnar nær svokölluðum Lækjum, eru Kirkjuhólar. Jurtaflóra jarðarinnar var fjölskrúðug. Við plöntusöfnun vegna náms míns við búvísindadeildina á Hvanneyri, á árunum 1968-1970, safnaði ég  mörgum plöntutegundum á jörðinni en hef ekki gögn um fjölda tegunda sem vaxa þar.

Í Blöndudal er veðursæld. Þó getur verið allhvöss SV átt á Syðri-Löngumýri. En oft er blíðviðri vor og sumar. NA-átt er ríkjandi vetrarátt með skafrenningi upp mýrarnar. Norðanstórhríð getur staðið allt upp í viku. Stillur og hægviðri eru þó oft ríkjandi á vetrum. Á sumrum í sunnanátt má oft búast við síðdegisskúrum. Oft er dalalæða á kvöldin, vor og sumar. Fuglalíf var mikið, bókstaflega allt morandi af spóa, lóu, hrossagauk, lóuþræl og stelk. Maríuerla var við hús og bæi, þúfutittlingur við gilskorninga og börð og steindepill í grjóti. Rjúpur gerðu sér hreiður hið efra í fjalldrapanum. Síðan sveimuðu hrafn og smyrill yfir. Í norðurhluta Hálsins í Klaufinni, þar sem heita Högg, var lágfóta með greni og þar var einu sinn mjög óvænt skotinn minkur. Það gerði Ólafur Sigurjónsson frá Rútsstöðum og hló lengi dags að því með miklum bakföllum.

 

 

Matarmenning

Dagurinn byrjaði með því að maður fékk kaffi og kleinur eða jólaköku, ástarpunga eða parta. Klukkan tíu var borðaður hafragrautur með slátri. Á hádegi var heitur matur, æði oft siginn fiskur, þunnildi og kinnar. Þá var saltað hrossakjöt mikið borðað, reykt tryppakjöt, bjúgu,  kjötkássur, ærkjöt og þannig væri lengi hægt að telja. Venjulega var hrísgrjóna- eða sagógrjónagrautur með saft eða skyri á eftir eða rabbabaragrautur, stundum með rjóma.  Oft var kjötsúpa eða saltkjöt og baunir. Milli klukkan þrjú og hálffjögur var kaffi með sama kaffibrauði og á morgnana en þá frekar smurt brauð með í bland, t.d. brauð með kæfu eða öðru áleggi, heimaunnu, svo sem egg og hangikjöt. Um heyskap var auka kaffitími klukkan sex, hið sama og hálffjögurkaffið. Klukkan hálfníu, þegar hætt var vinnu á sumrin, var kalt borð, þ.e. súrmatur, slátur, lundabaggar, svið, sviðalappir, hrútspungar, rúgbrauð með miklu sméri, afgangar frá hádeginu og alltaf hafragrautur eða hræringur. Alltaf var drukkin mjólk með matnum.  Fóstra mín var afskaplega dugleg og útsjónarsöm við alla matargerð, hvort sem var daglega eða til vetrarins. Hún var húsmæðraskólagengin sem þótti góð menntun.

 

 

Frístundir og leikir ú

Maður átti oft frístundir í sveitinni. Bæði tók fólkið sér góðan lúr í hádeginu og þá lék maður sér og svo ef komu verkeyður. Einnig hafði maður góðan tíma þegar rigning eða blautt var um. Ég, ásamt hinum börnunum á bænum, áttum bú skammt frá bænum og þar voru leggir og kindakjammar aðalbústofninn. Maður batt snæri í hrossaleggina og þeyttist svo um þúfur og bala í reiðtúra. Helstu leiksvæði  okkar voru í stórum þúfum skammt frá bænum. Ég man einnig eftir fyrsta skurðgröfuskurðinum sem grafinn var á jörðinni. Þar hófust miklar framkvæmdir hjá mér sem stóð í nokkur misseri. Hundarnir voru vinir manns og kettirnir nærtækir en alltaf hélt maður með hundinum ef til átaka kom milli hans og kattarins. Maður hafði nokkuð frjálsan aðgang að hestunum og var að hnoðast með þá. Síðast en ekki síst hafði ég gaman af öllum fuglum, merkti hreiður þeirra og fylgdist með öllum lífsháttum þeirra.

            Hestar voru mikið notaðir við smalamennskur. Útreiðar voru dálítið stundaðir og ég man að ég var tekinn með á svokallað nítjánduhelgarball í samkomuhúsi sveitarinnar, Dalsmynni, og var teymt undir mér. Það gerði Ágúst Björnsson, faðir Guðbjargar, og á heimleiðinni var draugamyrkur. Karlmennirnir á heimilinu voru náttúrusprottnir hestamenn, höfðu tilfinningu fyrir gangþýðum hrossum og fallega ásetu. Sú reynsla með þeim hefur verið mér gott veganesti.

Nokkur samgangur var við börn á öðrum bæjum. Ég man að farið var í einhverja könnunar- og rannsóknarleiðangra, þá var spilaður fótbolti og farið að veiða. Svo eignaðist ég hjól og fór í hjólatúra með æskufélaga mínum, Jóni Sigurgeirssyni í Stóradal síðar Stekkjardal.  Ég samlagaðist samfélaginu og varð fljótt hluti af því og undi hag mínum vel.

 

Farskólinn

Farskóli var í Svínavatnshreppi þegar ég ólst þar upp. Skólinn var þá á ákveðnum bæjum og komu börnin þangað og var kennt þar. Stundum gengu börn heiman frá sér ef skólinn var á næsta bæ. Farskólinn skiptist í yngri- og eldrideild. Skólaskylda í dreifbýli var frá 10 ára aldri til fermingar. Kennt var að mig minnir 3 vikur í senn og verið svo heima á meðan hinni deildinni var kennt.

Við Guðrún Björnsdóttir frá Ytri-Löngumýri fengum að fara einhvern tíma þegar við vorum 9 ára í skólann á Auðkúlu. Þá var Guðmundur Klemensson frá Bólstaðarhlíð kennari.

Ég minnist þess að Pálína Jónsdóttir á Auðkúlu, las fyrir okkur námsefnið vegna þess að við vorum ekki orðin vel læs. Með þessari aðferð gátum við fylgst með í kennslustund. Þvílík upplifun að láta lesa fyrir sig við olíulampa  á löngum vetrarkvöldum, þetta voru náttúrlega alger forréttindi.

 Á Höllustöðum var farskóli, þá hjóluðum við Jón Sigurgeirsson, saman, frá Syðri-Löngumýri fram eftir, en vegalengdin er svona 2 km. Stefán Á. Jónsson frá Kagaðarhóli var þá kennari. Hann er snyrtimenni og ágætur kennari en svolítið strangur að mér fannst.

Þennan vetur var haldin norræn skíðaganga sem allir máttu taka þátt í og var vegalengdin 2 km. Stefán kennari mældi vegalengdina samviskusamlega og gengum við að ég held flest þessa göngu. Ég man að eitthvað gekk þetta böxulega hjá Jóhanni Guðmundssyni frá Holti og endaði hann í markinu á einu skíði. Voru nú uppi miklar efasemdir hvort gangan hefði verið lögleg hjá Jóhanni. Endaði málið svo að Stefán úrskurðaði gönguna löglega.

Eitt sinn var ég að fara einn á hjóli í skólann. Krapi var á veginum og sé ég að Guðrún á Ytri-Löngumýri stikar  á mikilli ferð fram eftir. Taldi ég að fljótt mundi draga saman með okkur, hún gangandi en ég þessi riddari á hjóli. Aldrei dró ég hana uppi, frekar dró í sundur með okkur. Guðrún hló þegar við vorum komin að Höllustöðum en ég var vonsvikinn yfir að stelpa gengi hraðar en ég hjólaði.

Ég var líka í farskóla á Snæringsstöðum í Svínadal. Þá var kennari Jósep Jóhannesson frá Giljalandi í Dölum. Hann var traustur kennari og lagði áherslu á að við segðum  þökk fyrir matinn en ekki dönskuslettuna takk. Hann kenndi leikfimi sem fólst í því að gera armbeygjur og ýmsar æfingar. Var þetta gert inn í stofu og þætti sá leikfimisalur lítill nú. Heimilisfólkið hlustaði á útvarp saman á kvöldin. Svo þegar kom að Passíusálmunum ætluðum við að rjúka út úr stofunni en þá sat Jósep við dyrnar og setti löppina fyrir okkur og urðum við að halda kyrru fyrir uns lestri var lokið. Jósep vakti áhuga okkar og annarra á skákíþróttinni og blómstraði hún í Svínavatnshreppi á þessum árum. Þorsteinn Sigurjónsson á Hamri var og mikill drifkraftur í skákmálunum. Mér fannst svolítið skrítið á þessum árum hve margir hétu sama nafni og ég í sveitinni. Við vorum níu Þorsteinar í Svínavatnshreppi.

Veturinn 1958-1959 var ég í farskóla á Snæringstöðum og Syðri-Grund. Þá var kennari Dómhildur Sigurðardóttir frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Hún var um tvítugt, væn kona og þægilegur kennari. Þennan vetur lenti ég í mikilli sorg þegar vitaskipið Hermóður fórst 18. febrúar. Bróðir minn, sem hafði farið í afleysingartúr sem matsveinn, var þar um borð.Vitað er að Hermóður hafði lagt í Reykjanesröstina í mjög versnandi veðri. Og eftir það var ekkert vitað um skipið. Nú eru taldar líkur á því að skipið hafi komið laskað úr Röstinni, því flakið af því er í Faxaflóa. Skólasystkini mín og heimilisfólkið á Syðri-Grund lögðust á eitt að gera mér lífið bærilegt. Þessi vetur var að öðru leyti góður og lauk ég þá um vorið barnaskólaprófi, ári áður en til var ætlast samkvæmt lögum.  

Árið eftir, 6. júní, fermdumst við síðan í Svínavatnskirkju, æskufélagarnir og vinir, Erlingur Ingvarsson á Ásum, nú skógarbóndi á Hamri. Æskunni var lokið og unglings- og fullorðinsárin tóku við.

 

Ég hef nú hér rifjað upp æskuminningar mínar, getið æskuheimilis míns og umhverfis. Gamalt máltæki segir að fjórðungi bregði til fósturs. Hægt er að fallast á það. Ég er fæddur  að Stað í Skerjafirði, er Strandamaður og Ísfirðingur í móðurætt og Borgfirðingur og

Skaftfellingur í föðurætt. Glöggir menn geta þó séð ýmsa húnvetnska takta í mér þar sem áhrif uppeldis og umhverfis í víðu samhengi gætir.

Þegar ég lít til baka eru bernsku- og æskuminningar mínar á rósrauðu skýi og bera við himinblámann yst við sjónarrönd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband