Sjónhræddur hrekkjóttur á leið norður. Skotinn í Svignaskarði.

Hesturinn var sjónhræddur og hrekkjóttur og fipaðist við minnsta tilefni. Nú var ekki gott í efni að þurfa að fella þann skjótta.

Þá kom himnasendingin að sunnan og glannalegur strákur vildi kaupa. Það hlaut litlar undirtektir hjá eigendum. En hestamaðurinn taldi þetta bara bábilju, hann mundi laga þetta og yrði fljótur að því. Svona geta hestamenn verið kjarkmiklir ef þeir eru ungir og graðir. Annmarkarnir voru tíundaðir og endurteknir, en allt kom fyrir ekkert. Hesturinn var greiddur með víxli og leiddur á brott og farið með hann yfir Kjöl um haust í taumi.

Næst fréttist af þeim skjótta vestur á Snæfellsnesi í tamningu þar sem gekk víst á ýmsu. Ekki líkaði honum þar og bárust fregnir af honum á norðurleið á leið í átthagana eins og ,,79 af stöðinni" hér í denn.

Hesturinn var auglýstur á nauðungaruppboði um haust eftir hreppaskil sem óskilahestur á Svignaskarði. Fv. eiganda var gert viðvart þar sem markið var glöggt og engin hætta á málaferli hlytust af. Var brugðist skjótt við og ekið í Svignaskarð. Skúli í Svignaskarði hélt nú það að hesturinn væri geymdur þar. Þetta væri stólpagripur og ægifagur. Eða hvað á að gera við hrossið. Skjóta það með með hraði og láta Hvanneyringa éta það. Það fannst Skúla afleitt en lét tilleiðast og sótti riffil inn í bæ eftir að haf hlýtt á málavexti.

Hesturinn var felldur með viðhöfn og tóku allir nærstaddir niður höfuðföt sín. Auðvitað var sá skjótti fallegur, en það var ekki nóg.

Hann var hættulegur og svoleiðis hross á að fella. Þetta sagði Grímur Gíslason, sem talar frá Blönduósi, mér. Það er nóg til af hrossum, en menn hafa löngum heillast af gölnum folum eins og sagan segir. Ýmist voru þeir bundnir við kerruklára og teymdir þannig eða farið með þá í drullukeldur og á bak þar til þeir gáfust upp.

Sem betur fer er búið að rækta truntuskapinn úr íslenska hrossastofninum að mestu. En hvað er fallegt hross og hvernig er hægt að staðreyna það þegar litlu munar í mælingum, tölum og einkunnum. Það er nefnilega þannig með fegurðina að hún býr í augum sjáandans.

Þessi saga er sönn, en færð í stílinn af skrásetjara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband