Guðni Ágústsson með Njálugöngu á Þingvöllum

Síðastliðið fimmtudagskvöld stóð Guðni bóndasonur frá Brúnastöðum fyrir atburði á Þingvöllum. Hafði hann með sér Jörmund Inga Reykjavíkurgoða ásamt nokkrum víkingum og sveit söngmanna úr Karlakór Kjalanesinga. Var viðfangsefnið Skarphéðinn Njálsson.

Hófst dagskráinn á að Guðni rakti byrjun Njálu og sagði frá manndrápum sem voru undanfari Njálsbrennu. Komu konur þar mjög við sögu. Að því loknu sungu Kjalnesingar ,,Öxar við ána" og var söngurinn prýðilegur og hæfði lagið vel við stund og stað.

Að því loknu gekk Guðni í litklæðum eins og Gunnar á Hlíðarenda forðum fyrir fylkingunni niður Almannagjá. Var býsna þröngt þar á þingi niður gjána og mökkur af fólki. Á palli neðst á gjáarbarmi safnaði hann fólki saman og bað það þétta raðirnar, hér væru allir óvopnaðir og því enginn hætta á ferð.

Jörmundur Ingi mælti fyrir griðum, mikla rullu að fornum sið. Guðni hélt nú áfram að segja frá Skarphéðni og barst raust hans nú mjög út um Vellina svo mófuglar héldu ekki kyrru fyrir. Var góður rómur gerður af frásögn Guðna, enda er hann gersemi, maður vel máli farinn öruggur  með skörulegan talanda, ekki síðri en Gunnar Hámundason, en ekki með eins mikið hár, en hávaxinn og tígulegur og vel á sig kominn, fjallmyndarlegur. Að þessu loknu hóf karlakórinn söng sinn og söng fjallið Skjaldbreiður sem blasti við augum fólks og fóru þeir vel með lagið, enda allir í íslenskum lopapeysum.

Gengu nú menn mjög stilltir niður á vellina og tóku sér vist við kirkjuna þar sem haldið var áfram þar sem frá var horfið og rakti Guðni þar áfram söguna sem ekki verður fjölyrt frekar hér enda sagan öllum innan seilingar. Voru þeir Jörmundur og Guðni með nokkrar leikrænar sviðsetnigar, ágætar og að því loknu söng kórinn  ,,Buldi við brestur og brotnaði þegkja." Var það vel við hæfi. Siðan var beðið um eitt auka lag,, Fyrr var oft í koti kátt." Söng það allur þingheimur.

Þetta var alveg yndisleg stund og eru Guðna hér með færðar alúðar þakkir fyrir þessa vel heppnuðu og skemmtilegu stund á Þingvöllum, þar sem þjóðin varð þjóð og setti sér form og lög 17. júlí 930 eins og Jörmundur Ingi hefur reiknað út. Komu þarna saman kristnir menn og heiðnir og er það svolítið táknrænt.

Samkomunni var slitið með laginu ,,Kvöldið er fagurt"


mbl.is Hátíðisdagur þjóðveldis og lýðveldis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband