Vortónleikar Strætókórsins í Áskirkju í RVK 15 maí

Ágætir vortónleikar Strætókórsins voru haldnir í gærkveldi í Áskirkju. Strætókórinn er skipaður 18-20 söngfélögum í 4 röddum. Mjög hefðbundinn karlakór stofnaður 5. maí 1958 og hefur starfað með hléum þennan tíma.

Stjórnandi kórsins er Guðmundur Ómar Óskarsson, undirleikari Arnhildur Valgarðsdóttir. Einsöngvari á þessum tónleikum var Rakel Björk Björnsdóttir sem er frumbýlingur í tónlistinni en karlarnir hafa trú á henni.

Söngskráin var mjög hefðbundin karlakórsstemming og prýðilega útfærð. Byrjað var að syngja, Þú Álfu vorrar yngsta land. Mjög góður hljómur, lagið rakti sig og endaði í mjög samtaka sterkum tónum.

Næst var, Sveinar kátir syngið, sem er hörku karlakórslag og þarf þrótt til að syngja. Dugleg innkoma og flétturnar í laginu nutu sín ágætlega og komu vel fram.

Vér göngum svo léttir í lundu, söng  kórinn fjörugt með gleðina í fyrirrúmi, prýðilegt.

Vökudraumur eftir Jenna Jónsson var prýðilega flutt. Þetta er svona gamalt lag sem oft heyrðist í þáttum útvarps eftir hádegið hér á árum áður.

Það var ekki amalegt að fá að hlýða á Blærinn í laufi eftir snillinginn Jón frá Ljárskógum, hugljúft og melódískt, röddunin kom vel fram í laginu.

Gömul spor, danslag frá fyrri tíma, ljómandi fínt.

Ísland, Ísland, það er mikil áskorun að syngja þetta lag og ekki einfalt ná fyrstu tónunum. Söngurinn var myndarlegur, en mér fannst einhvern veginn að þeir hafi oft sungið þetta betur. Það var einhver feimni að taka verulega á því. Þetta er ef til vill vitleysa í mér. Vantaði meiri kraft.

Maður kannaðist við sig í næsta lagi Nú sefur jörðin sumar græn, engu líkara en maður væri að koma frá fjárrekstrum á fjall snemma morguns og döggin glitraði á jarðargróðri, dalalæðan byrjuð að hopa undan sólinni og allt svo kyrrt. Það var flott innkoma hjá kórnum. Þetta er alveg yndislegt lag og vel sungið, enda  biður lagið um að syngja sig þegar söngurinn er hafinn.

Þú komst í hlaðið var næst á dagskránni, öflugur söngur, bassinn með smá sóló sem puntaði upp á. Smá óhreinn tónn í endirinn, fannst mér en prýðilegt að öðru leiti.

Kórinn tók sér nú smá pásu og kynnti Guðmundur Sigurjónsson formaður kórsins að ég held einsöngvarann og fór mörgum fögrum orðum um hæfileika Rakelar og var þar held ég fæst ofsagt.

Raunverulega voru þetta sér einsöngstónleikar hennar því hún söng ekki með kórnum, nokkurskonar örtónleikar.   Fyrst söng Rakel, Love me tender, lag sem mín kynslóð þykir vænt um enda hefur  margur maðurinn svifið í dansi með sína heittelskuðu í þessu lagi og talið sig vera í góðum málum.  Söngkonan fór mjög vel með þetta lag með þokkalegum tilþrifum.

Ég náði ekki heitinu á næsta lagi en það var svona djassskotið. Það var prýðilega flutt og lista fín söngkona.

Næsta lag heitir, Umvafinn englum, eftir Valgeir  Skagfjörð. Söngkonan söng þetta með miklum tilþrifum , flott.  Söngkonan er efnileg og vel til fundið af kórnum að gefa henni þennan vettvang, en svona kórar haf uppeldislegu skyldum að sinna að veita ungu fólki tækifæri og brautargengi á raunverulegum vettvangi eins og tónleikar fyrir fullu húsi eru. Ómetanlegt.

Eftir pásu hóf kórinn söng sinn á laginu, Næturkyrrð, þetta var mjúkur og blíður söngur með góðri samfellu í söngnum.

Næst birtust þeir Sigvaldi Kaldalóns og Grímur Thomsen með Sprengisand. Þetta var ágætlega sungið en tæplega nógu röskir, enda ef til vill ekki margir í kórnum sem hafa lent í þoku á heiðum uppi og orði hræddir við ýmislegt óhreint sem þar getur leynst.

Næst var sungið hið dásamlega lag, Í fjarlægð, eftir Karl O. Runólfsson Lagið var sungið með líðandi innkomu og vaxandi þunga, bara fínt hjá strákunum.

Polkinn, Rosa Marie var líflega sunginn og kórinn fjalltraustur.

Sjómannasyrpa eftir þá fóstbræður Oddgeir og Ása úr Bæ í Vestmannaeyjum en hún samanstóð af fjórum sjómannalögum var næst á dagskrá; Vorið við sæinn, Síldarstúlkurnar, Ship ohoj og sigling. Þessi lög fór nú kórinn létt með að syngja og gerði það vel og allt small saman.

Dagný eftir Fúsa sungu þeir aðfinnslu laust, feikna vel gert.

Gamla lagið með Óðni Valdimarssyni, sem mörgum er kært,  Ég er kominn heim, sungu þeir vel en voru ekki alveg samtaka í innkomunni.

Síðasta lagið á söngskránni var Capríljóð eftir Friðjón Þórðarson, ráðherra, lögreglustjóra og sýslumann Dalamanna og fóstbróður Pálma á Akri í ríkistjórn Gunnars Thoroddsen. Söng Friðjón ekki í kvarettinum Leikbræðrum?

 Þetta var vitaskuld vel af hendi leyst eins og raunar öll söngskráin. Prýðilegt.

Það var mikið klappað og afhent blóm og í lokin var sungið lagið , Ó syngdu sönginn þinn.

Nokkrir fyrrum söngfélagar og stofnendur voru kallaðir upp á svið og sungu síðasta lagi með kórnum, mikil  stemming  við það.

Kærar þakkir fyrir góða söngskemmtun, kveðja og þökk fyrir samstarfið,

Þorsteinn H. Gunnarsson fv. starfmaður Strætó í biðskýladeild.

 


Hernámsetrið að Hlöðum Hvalfirði

Forustu menn um afhjúpun líkansisn af HMS HoodÍ gær var afhjúpað líkan af HMS Hood sem var herskip http://sagnabrunnur.blogspot.com/2010/10/hms-hood-sokkt.html Breta í seinni heimsstyrjöldinni að hernámsetrinu að Hlöðum í Hvalfjarðarsveit.

Þetta safn kom mér á óvart og er löngu tímabær að setja svona safn á fót og á svo sannarlega heima í Hvalfirði en staðurinn gegndi mikilvægu hlutverki í seinni heimstyrjöldinni sem skipalæga og flotastöð BRETA og Bandaríkjamanna.

Það er fínasti dagstúr að aka að Hlöðum skoða safni halda svo áfram inn Hvalfjörð sem er náttúrlega einstök HMs H00Dnáttúruperla augljósara eftir að umferðin minnkaði þar eftir tilkomu gangnanna. Svo er upplagt að fara að Staupasteini, Steðja, sem er náttúruundur og hafa smá viðdvöl þar, afleggjarinn þangað er bara fyrir jeppa en þar er skýlt og gott að dvelja og njóta náttúrunnar.

Þá er það hin besta skemmtun fyrir þá sem eiga litla báta að setja þá niður í Hvammsvík og sigla um innanverðan Hvalfjörð, Þar er oft gott veður og margt að skoða frá sjónum . Gamlar stríðsminjar í Hvítanesi en þar var mikill Campur sem taldi 250 hús þegar mest var umleikis. Ágætar upplýsingar eru við veg útskot sem hægt er að glöggva sig á kortum.

 

 

 

 

Úr safninu

 

 

 

 

 

 

 

Stríðsmynjar í hvalfirði

 

 

 

 

 

 

  Færsluhöfundur í Hvalfirði 2008

Úr hvalfirði Þyrill í baksýn


Vortónleikar Kórsins í Árbæjarkirkju 6.mars s.l. ( Landsvirkjunarkórsins)

Fór á vortónleika Kórsins (Landsvirkjunarkórsins heitins) sem haldnir voru í Árbæjarkirkju í gærkveldi. Stjórnandi er Krisztína Kalló Szklenár, undirleikari á píanó er Hrönn Þráinsdóttir. Kórinn er fullvaxin blandaður kór 19 í kvennaröddum og 13 í karlaröddum = 32 söngfélagar.

Söngskráin var fjölbreytt og einsöngvari með kórnum var Hlöðver Sigurðsson tenór.

Fyrsta verkið var Missa brevis Sancti Joannis de Deo  í þrem köflum eftir Joseph Haydn þetta var víst messa. Það var sungið hreint og skírt og harla gott.

Síðan kom Hallelúja, lofgjörðarvers eftir Ph. E. Erlebach það var vel flutt og gott jafnvægi í röddum, síðan kom annað Hallelúja eftir L. Cohen, texti eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Það var melodiskt og ljúft og áheyrilegt. Kærleiksblómið var næst á dagskrá, sænskt lag, texti eftir Emilíu Bldursdóttir, Það var svo sem okey, en mér fannst það rislítið og skilja lítið eftir sig.

Svo fór nú að færast fjör í sönginn, en næsta lag var, Sprettur, eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við texta Hannesar Hafstein. Öflug og samstæð innkoma án frekju, sem stundum vill heyrast hjá kórum í þessu lagi. Þarna var söngurinn leikandi léttur og kórinn tók virkilega á því, enda er skemmtilegt að syngja þetta lag. Prýðilegt.

Nú hvarf kórinn af sviðinu og einsöngvarinn Hlöðver Sigurðsson gekk fram og söng Ave Maria. Innkoman í laginu var dauf en söngurinn svo sem áferðarfallegur en verkið bauð ekki svo sem upp á mikil tilþrif. Betur hefði farið á því að kórinn hefði verið áfram og stutt  á einhvern hátt við einsöngvarann, maður er vanastur því, en ef til vill hefur hugsunin verið sú að einsöngvarinn væri þarna á eigin vegum eða eitthvað þess háttar.

Næsta lag var ísl. þjóðlag: Hér undir jarðar hvílir moldu, í útsetningu Hjálmars H. Ragnarssonar. Söngstjórinn tók það sérstaklega fram að einn kafli gæti virst falskur en svo væri ekki þetta ætti að vera svona og maður heyrði þetta mjög greinilega, ekki fimmundarsöngur, eitthvað annað sem ég kann ekki skil á. Ágætt.

Næsta lag á dagskránni var, Sjá dagar koma eftir Sigurð Þórðarson við texta eftir Davíð Stefánsson. Einsöngur Hlöðver Sigurðsson. Nú lyftist brúnin á tónleikagestum og vænti mikils og maður varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Kórinn kom inn með miklum myndugleika og styrkum röddum og söng samstilltur allt í gegn. Söngur Hlöðvers var glæsilegur og fór hann ótrúlega vel  með háu tónana og smaug lista vel og áreynslu lítið í geng um lagið. Aldeilis frábært.

Þá kom titillag úr kvikmyndinni Skyfall James Bond 007 lag. Það er ugglaust mjög erfitt að syngja þetta lag því melódían er frekar naum og erfitt að fylgja henni, en kórinn gerði þetta með prýði. Ég hefði sleppt þessu og tekið frekar eitt ættjarðarlag, en ég vil nú helst að kórar syngi ættjarðarlög og leiðist svona tilraunastarfsemi.

Næst var franskur baráttusöngur, Syngdu nýjan þjóðarsöng úr Veslingunum eftir Victor Hugo. Kórinn söng þetta af þrótti og mikilli færni og karlaraddirnar voru myndarlegar og komu vel fram sem stundum vantar í svona blönduðum kórum. Prýðilegt. 

Síðast á dagskránni var Húrrakórinn úr Czardasfurstynjunni eftir Emmerich Kálmán. Þetta var liðlegur og röskur söngur og skemmtilegt að hlusta.  Kórstjórinn stjórnaði af festu og röggsemi og hafði gott taumhald á sínu fólki.

 Það var mikið klappað í lokinn og býsna margt í kirkjunni , þó Pollapönkarar væru að atast í Evrópumönnum út í Kaupmannahöfn. Lykilpersónum voru færð blóm við að dagskrá lokinni.

Takk fyrir prýðilega tónleika, góðar stundir.

 


Forseti Íslands sæmdur gullmerki ASF

 

Gullmerki ASF. Hátíðarsamkoma

Forseti er sæmdur gullmerki American-Scandinavian Foundation fyrir framlag sitt til samvinnu Íslands við Bandaríkin og forystu og framtíðarsýn í alþjóðamálum.American-Scandinavian Foundation eru aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum og hafa í rúma öld unnið að kynningu á menningu og þjóðlífi Norðurlanda í Bandaríkjunum. Fréttatilkynning. Ræða. Myndir (ljósmyndari:  Christine Butler/American-Scandinavian Foundation).

 Það ber að halda því á lofti sem vel er gert.

 

Heimild: tekið af vef Forseta Íslands


Heillaóskaskeyti Hannibals Valdimarssonar

Mynd af ÍsafirðiHannibal Valdimarsson forseti Alþýðusambands Íslands sendi ömmu minni Karitas Skarphéðinsdóttur eftirfarandi skeyti á áttræðisafmæli hennar 1970:

Innilegustu  hamingjuóskir á áttræðisafmæli þínu. Brennandi áhugi þinn, réttlætiskennd og harðfylgi skipuðu þér í baráttusveit íslensks verkalýðs og þar hefur þú skipað rúmið sem fulltrúi íslenskra verkakvenna með mikilli sæmd um áratugi. Megi verkakonur framtíðarinnar, sem flestar, erfa eðliskosti þína og baráttuþrek og hugsjónaglóð. Persónulega þakka ég þér örvandi áhrif og árna þér heilla. Það er mér ánægja að flytja þér hlýjar heillaóskir og alúðarþakkir Alþýðusambands Ísland fyrir baráttu þína og starf í íslenskri verkalýðshreyfingu.

                                                                  Hannibal Valdimarsson

Það eru mikil lífsgæði að eiga svona minningarbrot um ömmu sína á þessum degi. Amma var Vestfirðingur fædd í Æðiey 20. janúar 1890 og ólst þar upp og víðar í Djúpinu. Hún var íhlutunarsöm og barðist fyrir kjörum verkafólks, svo sem bættri vinnu aðstöðu við þvott á saltfiski og að fólk fengi kaffiaðstöðu og þótti hún stundum vera ágeng í kröfum sínum og merkilegt hvað hún þorði að reisa sig ,manneskjan, bláfátæk gegn atvinnurekendum.

Heimild: Karítas Skarphéðinsdóttir Neff, Lífshættir íslenskra kvenna, sjöritgerðir, Háskóli Íslands Félagsvísindasvið, Auður Styrkársdóttir ritstýrði bls. 58.

Landlausum launamönnum og án auðlinda er óskað til hamingju með daginn. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og vona ég að fólk geti gengið í slóð ömmu minnar að Vestan. Ég rifja þetta upp hér því ég tel það eigi erindi við samtíman, að minna á þá sem börðust fyrir tilveru sinni og gáfu gott fordæmi fyrr á árum.

  


mbl.is Hátíðarhöld í 31 sveitarfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband