Um veturnætur

snjór í fjöllumÍ mínu ungdæmi var oft miðaða við veturnætur. Þá þurfti megin slátrun sauðfjár, innleggslamba í sláturhús að vera lokið. Á þessum tíma var von á verri veðrum og mjög skyndilegum, því var vel fylgst með veðurspá. Jafnan var farið að hýsa fé, þ.e.a.s. smala að kveldi og setja það inn og telja það og gera sér grein fyrir hve margt vantaði. Með þessu móti fór betur um féð, það hraktist ekki, var á örrugum stað, lagði síður af og var þurrt þegar það gekk til beitar daginn eftir.

Ýmis verk voru svo sem eftir, svo sem heimaslátrun og vinnsla matar til vetrarins, svo sem reyking söltun og að gera slátur og setja í súr. Oftast var folaldaslátrun eftir og gekk yfir á þessum tíma.

Þetta var tími bæjarrekstra en þeir fóru að ganga þegar bændur hýstu fé sitt og ókunnugt fé af öðrum bæjum var saman við. Gengu þá bæjarrekstrar út og suður og var ókunnugt fé sett saman við þá og gekk þetta svona um sveitina. Þetta var eftir hreppaskil en þau voru oftast um 12. okt um allt land, en þá átti allt fé að vera komið heim til sín og flest lönd smöluð.

Viðhald á húsum fór fram á þessum tíma og þau búin undir veturinn. Þá var reynt að ganga sem tryggilegast frá heyjum þar sem ekki voru hlöður og heystæði girt fyrir helv. girðingarföntunum þ.e. rollum. Það þótti ekki góð latína að láta fé liggja í uppsettum heyjum og voru slíkir bændur kallaðir trassar og búskussar.

Lokið var sem mest við að stinga út úr fjárhúsum og koma taðinu á völl.

Þetta var líka tími sem menn fóru svolítið á bæjarflakk og gáfu sér tíma til að spjall og grípa í spil, Var þá gjarnan spjallað um fénaðarhöld, landsmálin og hvort menn væru farnir að gefa og hvað margar ær væru um hneppið þ.e. heyfangið.

Þó stundum sé talað um að bóndinn sé frjáls og eigin herra var hann þó alltaf rekinn áfram af árstíðunum og veturnátta viðmið var að flest þyrfti að vera komið í lag áður en hann gerði norðan áhlaup með stórhríð og látum.

Kaupafólk var farið og unga fólkið á leið í sinn framhaldsskóla, en farskólinn hófst eitthvað seinna.

Þessi viðmið giltu því í sveitinni. Þekki ekki hvort einhver svona viðmið voru í sjávarþorpum.


Haustferð roskinna ráðunauta

Það er orðinn  árlegur viðburður hjá okkur að fara í haustferð með rosknum ráðunautum. Menn og konur hittust í hádeginu á laugardegi að Hótel Örk og fá sér súpu. Síðan er stigið upp í rútu og farið í smáferðalag. Í þetta sinn var farið um Ölfusið ekið um Ölfusbrú neðri og skoðaður gamall torfbær vel búinn.
Bærinn er að Austur Meðalholti í Flóa. Hjónin Hannes og Kristín hafa komið þar á fót menningarsetri tileinkað torfbæ að íslenski byggingarhefð. Bærinn er mjög flottur. Sjálfur er ég alinn upp í prýðilegum torfbæ, hef komið  í nokkra torfbæi í minni sveit sem gátu talist höfðingjasetur svo sem Stóradalsbærinn, bærinn á Guðlaugstöðum og Tungunesi. Þeir voru vissulega stærri, en baðstofan að Austur Meðalholti var alveg yndisleg, bauð af sér góðan þokka og maður heyrði skóhljóð aldanna þar.
Að því loknu var ekið upp að Selfossi og Mjólkurbú Flóamanna sem nú heyrir undir MS skoðað og þegnar smá veitingar og rifjuð upp saga  mjólkurframleiðslu á svæðinu.
Nú, nú þá var ekið að Garðyrkjuskólanum að Reykjum sem nú heyrir undir Landbúnaðarháskóla Íslands  og fengin ágæt leiðsögn um svæðið mjög fróðlegt. Þá er komið kvöld og margir orðnir þreyttir og farið á hótel Örk þar sem hópurinn hafði aðsetur. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og skemmti fólk sér þar við ræðuhöld, söng og dans undir stjórn Sigurgeirs Þorgeirssonar fv. ráðuneytisstjóra. Þetta var hin besta ferð fróðleg og ekki síst gott að hitta gamla skólafélaga og samstarfsmenn.
Ekki er hægt að ljúka þessu öðruvísi en að haf félaga Guðna með svona til skemmtunar og lífga upp á;
 
 
 

Þér hrútar

Þér hrútar, ég kveð yður kvæði.

Ég kannast við andlitin glöð,

er gangið þér allir á garðann

að gjöfinni, fimmtán í röð.

Í heyinu tennurnar hljóma

við hornanna leikandi spil.

Það bylur í jötunnar bandi

og brakar við stein eða þil.

 

Í hóp yðar stöðvast ég stundum

og stend yður dálítið hjá.

Ég hallast við bálkinn og horfi

í hrútsaugun skynug og blá.

Ég bökin og bringurnar spanna

og blíðlega strýk yfir kinn.

Þér heilsið með hornum og vörum.

Hver hrútur er félagi minn.

 

Ég veit yðar látbragð og leiki,

er losuð er fjárhúsavist.

Þá gangið þér greiðir í túnið

og gleðjist við atlögur fyrst.

og margur er merktur og særður,

en minnstur sá hrútur, er veik.

Og hugfanginn horfði ég löngum

á hornanna blóðuga leik.

 

Svo fylgi ég ferlinum lengra.

Þá fagnið þér vorlífsins hag,

er fetið þér snöggir til fjalla

einn farsælan góðviðrisdag.

Í háfjalla hlíðum og drögum

er hrútanna kjarnmikla beit.

Og sælt er að standa uppi á stalli

og stara yfir kyrrláta sveit.

 

Er sólríku sumrinu hallar,

þá sést yðar útigangsbragð.

Þér komið af öræfum allir

með aurugan, blaktandi lagð.

Þótt gott væri hnjúkinn að gista

við gróður og útsýni hans,

þá lutuð þér herskáum hundum

og hrópyrðum smölunarmanns.

 Guðmundur Ingi kristjánsson bóndi Kirkjubóli Önundarfirði


mbl.is Gorbatsjoff í sinni hinstu ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband